ÖBÍ réttindasamtök lýsa furðu yfir ummælum Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og fréttatilkynningu Reykjavíkurborgarum að málaflokkur fatlaðs fólks ógni sjálfbærni borgarinnar. ÖBÍ þykir óásættanlegt að viðkvæmur samfélagshópur sé tekinn út fyrir sviga einn og sér til þess að útskýra hallarekstur borgarinnar.
Rétt er að NPA og ýmsir aðrir kostnaðarþættir í málaflokknum hafa ekki verið kostnaðarmetnir almennilega. ÖBÍ tekur undir ákall bæði borgarstjóra og Sambands íslenskra sveitarfélaga um að ríkið tryggi fjármögnun málaflokksins. Það er aftur á móti lögbundin skylda sveitarfélaga að tryggja að mannréttindi fatlaðs fólks séu virt og að fatlað fólk njóti réttar síns til þátttöku í samfélaginu.
ÖBÍ réttindasamtök geta ekki sætt sig við það sem segir í tilkynningu borgarinnar, stærsta sveitarfélags landsins, um að rekstur málaflokks fatlaðs fólks hafi „farið sívaxandi á umliðnum árum og ógn[i] nú fjárhagslegri sjálfbærni borgarinnar“.
Þessi framsetning er til þess fallin að fötluðu fólki sé kennt um hallareksturinn. Hún er því alvarleg og hreinlega meiðandi, enda ber fatlað fólk ekki sjálft ábyrgð á rekstrinum né fjármögnuninni.
„Það er forkastanlegt að forsvarsmaður stærsta sveitarfélags landsins, sem á að vera öðrum til fyrirmyndar, láti þetta frá sér. Þessi málflutningur ýtir undir jaðarsetningu fatlaðs fólks og slæmt viðhorf í garð þess. Þetta snýst um mannréttindi og lögbundnar skyldur og það ber að virða,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka.