Frumvarp Hönnu Katrínar um bælingarmeðferðir – skaðlegt eða óþarft?

frettinIngibjörg Gísladóttir, Kynjamál, StjórnmálLeave a Comment

Hanna Katrín í Viðreisn hefur aftur lagt fram frumvarp sitt við bann við bælingarmeðferðum, óbreytt að því er virðist. Það fékk ekki miklar undirtektir á síðasta þingi af því að mönnum hefur ekki þótt bælingarmeðferðir neitt vandamál á Íslandi. Það gæti þó breyst með síauknum innflutningi fólks sem er ekki endilega jafn frjálslynt í þessum efnum og við. Í hinu nýja stjórnarsamkomulagi Svía, Tidösamkomulaginu, er talin þörf á að skoða slíkt bann, þ.e. bann við að reyna að breyta kynhneigð einhvers með  hótunum eða þvingunum. Á sænsku: „Vidare utreds behov av lagändringar i syfte att s.k. omvändelseterapi under hot eller på annat sätt tvinga någon att försöka förändra sin sexuella läggning ska vara förbjudet." Það skiptir þó máli hvernig lög um réttindi LBGTQ fólks eru orðuð.

Samkvæmt leiðara spænska blaðsins El Mundo í síðasta mánuði þá hafa þarlendir geðlæknar og innkirtlafræðingar varað við nýjum trans-lögum. Verði þau samþykkt þá muni þau valda mörgu ungu fólki þjáningum og skaða. Þar segir að ungu fólki sem oft sé ekki trans sé boðið upp á hormónameðferðir eða skurðaðgerðir - oft óafturkræfar - eins og þær væru einhver töfralausn, og heilbrigðisstarfsfólk sé jafnvel ásakað um að stunda bælingarmeðferðir bjóði það upp á aðra valkosti.

Frumvarpið hennar Hönnu Katrínar er til breytinga á almennum hegningarlögum, nr.19/1940, með síðari breytingum.  Við XXIV. kafla laganna bætist ný grein, 227. gr. b, svohljóðandi:

„Hver sem með nauðung, blekkingum eða hótunum fær einstakling til að undirgangast meðferð í þeim tilgangi að bæla eða breyta kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu hans skal sæta fangelsi allt að 3 árum.  Hver sem lætur barn yngra en 18 ára undirgangast meðferð sem greinir í 1. mgr. skal sæta fangelsi allt að 5 árum. Sömu refsingu skal sá sæta sem færir barn yngra en 18 ára úr landi í sama tilgangi.   Hver sem framkvæmir, hvetur með beinum eða óbeinum hætti til eða hefur þegið fé vegna meðferðar sem greinir í 1. mgr. skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum."

Hér er vissulega hætta á að foreldrar, sálfræðingar og geðlæknar gætu verið ásakaðir um að blekkja ungmenni til að þiggja meðferð sem myndi breyta kynvitund þeirra. Ungt fólk sem upplifir sig sem trans á mjög oft við andlegar raskanir að stríða (sem gætu kallað á meðferð sérfræðinga) og í langflestum tilfellum þá hættir það að upplifa sig sem trans með aldrinum. Því er hætta á að meðferðaraðilar þeirra yrðu ásakaðir um að hafa stundað bælingarmeðferð ef kynvitund skjólstæðingsins breytist og foreldrar ásakaðir um að hafa pantað slíka meðferð undir fölsku yfirskyni. Hættan er því sú að sérfræðingarnir veigri sér við að taka ungt fólk með kynáttunarvanda í meðferð verði þetta frumvarp að lögum.

Svo er önnur hlið á málinu. Það eru gríðarmiklir peningar í spilinu í kynskiptaiðnaðinum; peningar og múgsefjun keyra hann áfram, skv, taugasálfræðingnum Clifford Alan Hopewell í viðtali er birtist í Epoch Times.  „Gangir þú inn og segir,  'Taktu af mér fótinn'  þá myndi enginn gera það", segir Hopewell. Hinsvegar ef þú kemur og segir „Skerðu af mér typpið" þá er svarið, „Jæja, við skulum bæta þér á aðgerðalistann".  Hopewell minntist á vídeó frá Vanderbilt háskólanum sem nýlega kom fram í dagsljósið þar sem starfsmaður háskólans talaði um hvílík gullnáma kynskiptaiðnaðurinn væri. Fyrir að fjarlægja heilbrigð konubrjóst gæti spítalinn fengið 40,000 USD. Vitnað er í Scott Newgent, sem kom fram í heimildamynd Matt Walsh, „What is a Woman". Hann hóf umbreytingarferlið úr konu í karl fyrir sjö árum, og giskar á að það hafi kostað um 1.2 milljónir USD, hingað til, sakir endalausra spítalaheimsókna vegna sýkinga og mistaka.

Komið hefur í ljós að spítalar hafi sumir stýrt ungmennum í kynskipti eftir aðeins eitt viðtal. Bretland, Svíþjóð, Finnland og sum fylki í Bandaríkjunum hafa þó stigið á bremsuna. Samkvæmt spánýjum leiðbeiningum frá Bretum þá er varað við því að það geti orðið barni erfitt að snúa til upprunalegs kyns, reynist kynáttunarvandinn ekki varanlegur. Því er almennt mælt með því að gera sem minnst, fylgjast með og meta hvert barn fyrir sig hvort að koma fram sem hið gagnstæða kyn myndi gagnast því og engin lyfjagjöf eða aðgerðir koma til greina fyrr en eftir kynþroska (Tanner 2).

Hefur ekki verið mikið um bælingarmeðferðir í transiðnaðinum? Hefur ekki mörgum verið stýrt  frá því að finna sig sem lesbíur eða homma? Scott Newgent vill meina að hann hafi verið lesbía. Löngunin til að gerast karlmaður hafi bara verið misskilningur. Nýlega sást á Netinu viðtal við ungan mann, Ritchi Herron, sem fór á kynþroskabælandi lyf, kvenhormóna og svo alla leið í breytingunum. Hann segist nú hafa uppgötvað að hann sé einfaldlega hommi og að fara út í þessar óafturkræfu breytingar hafi verið stærstu mistök lífs sín.

Hanna Katrín vill láta gera meðferðir refsiverðar en ef Ritchi Herron hefði farið í sálfræðimeðferð þar sem sú hugmynd hans að hann væri trans hefði verið véfengd þá væri staða hans nú trúlega önnur. Þá væri hann mjög líklega hamingjusamur hommi með kynfæri sín heil og óskert. Sú stefna að samþykkja en véfengja ekki upplifun barna og unglinga af því að vera af röngu kyni er á undanhaldi. Hins vegar mætti skoða að banna bælingarmeðferðir þar sem hótunum eða þvingunum er beitt, líkt og Svíarnir eru að spá í - en kannski eru þau lög okkar sem banna ofbeldi gegn börnum nógu góð.

Skildu eftir skilaboð