Eftir Pál Vilhjálmsson:
Kjarni gróðurhúsakenningarinnar um manngert veður er að brennsla jarðaefnaeldsneytis, bensín og dísil, auki koltvísýring, CO2, í andrúmsloftinu. Koltvísýringur hindrar útöndun jarðarinnar, líkt og gler gróðurhúsa, og hitastig jarðar hækkar.
Kenningin hvílir á þeim flugufæti að CO2, sem er ósýnileg loftegund, hamlar útgeislun, en útöndun jarðar er geislun. Þetta er þekkt eðlisfræði. Flugufóturinn stendur ekki undir gróðurhúsakenningunni.
Ástæðan er m.a. sú að vatnsgufa H2O er þrisvar sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2. Í umhverfinu sjáum við vatnsgufu í skýjum. Blaðamaður Die Zeit, með doktorsgráðu í eðlisfræði, ræddi við einn fremsta loftslagsvísindamann Þjóðverja og forstöðumann veðurfræðistofnunar Max Planck, Bjorn Stevens, og spurði hvort jörðin yrði brátt óbyggileg vegna áhrifa gróðurhúsalofttegunda.
Það er bull sem hefur ekkert með vísindalegan veruleika að gera, svaraði Björn Stevens. (Sjá hér enska útgáfu). Stevens segir skýjahugmyndir gróðurhúsasinna í ætt við skýin í myndabókum fyrir börn. Veruleikinn er flóknari en einfeldningsleg tölvulíkön hamfarasinna.
Spyrja má hvers vegna loftslagskreddur taka ekki á vatnsgufunni, frekar en CO2, til að hamla gróðurhúsaáhrifum. Ástæðan er að engin tök eru á búa til skattpíningu, lög og reglugerðir til að hamla myndun vatnsgufu. En það er hægt að skattleggja og setja lög um koltvísýring. Loftslagstrúin ræðst á garðinn þar sem hann er lægstur og hengir bakara fyrir smið.
Nýtt dæmi um kredduna klædda í pólitík. Helga Barðadóttir fer fyrir sendinefnd Íslands á loftslagsráðstefnu í Egyptalandi. Hún segir:
Okkar helstu væntingar eru að menn haldi áfram að horfa á markmið um eina og hálfa gráðu eins og kallað er. Að hitastig Jarðar hækki ekki meira en um eina og hálfa gráðu frá iðnvæðingu,
Hitahækkun sem Helga nefnir, 1,5 gráður, er nákvæmlega sama hækkun á hita og við fáum ef horft er tilbaka um þúsund ár. Við kristnitök á Íslandi var hitastigið 1,5 gráðum hærra en það er í dag. Vísindalega sannað með borkjörnum úr Grænlandsjökli.
Helga og sálufélagar tefla fram tölvulíkönum sem segja að hitastig muni hækka nema og aðrir af sama sauðahúsi fái heimildir til að skattleggja og stýra samfélaginu. (Og ferðast á kostnað okkar til Egyptalands). En tölvulíkönin eru hönnuð til að gefa niðurstöðu sem styðja kreddurnar. William Happer loftslagsvísindamaður útskýrir á 5 mín. að tölvulíkönin geta ekki spáð fyrir um hækkun eða lækkun hita til framtíðar.
Ekki aðeins eru tölvulíkön hamfarasinna því marki brennd að vera rusl inn, rusl út heldur hafa þeir endaskipti á orsök og afleiðingu.
,„Breytingar á CO2 í andrúmsloftinu fylgja breytingum á lofthita, sem aftur fylgir yfirborðshita sjávar,“ skrifar loftslagsvísindamaðurinn Ole Humlum. Það er ekki aukið magn koltvísýrings í andrúmsloftinu sem veldur hækkandi hita heldur er hærra magn koltvísýrings afleiðing hækkandi lofthita.
Hamfarasinnar tala aldrei um að vegna hækkandi koltvísýrings grænkar jörðin. CO2 er aðalfæða plantna. Það spillir trú að skilja samhengi náttúrunnar. Einfaldar trúarkreddur haldast í hendur við valkvæða heimsku.
Einn helsti boðberi kreddunnar, sænski unglingurinn Gréta Thunberg, kom úr skápnum sem öfgavinstrimaður og segir borgaralegu samfélagi stríð á hendur. Trú á bábiljur leiðir óhjákvæmilega til öfga.
Loftslagstrúin, að maðurinn stjórni veðurfarinu, er pólitísk hugmyndafræði og menningarsjúkdómur. Stjórnmálamenn af ómerkilegri gerðinni sjá sér hag í að halda bábiljunni að fólki til að réttlæta skatta og gjöld og lagasetningar.
Það tekur sinn toll af geðheilsu ungmenna þegar fullorðnir tala af heimsendafávisku. „Ungviðinu líður verr á sálinni,“ segir í fréttum. Jón Viðar rýnir teflir fram þeirri tilgátu að áður lærði ungdómurinn um Jesú, kærleika og sáluhjálp.
Trúarstefið í hamfarahyggjunni er kýrskýrt. Stefið er endurómur úr Gamla testamentinu; syndugur maður og reiður guð.
Falskri hugmyndafræði um að heimurinn sé á heljarþröm vegna orkunýtingar mannsins er haldið að ungmennum. Kaldrifjaðir fullorðnir taka lífsgleði æskunnar í gíslingu hindurvitna. Með hjarta úr steini ætla þeir kaldrifjuðu að frelsa heiminn í nafni góðmennsku og skattheimtu.
One Comment on “Loftslagskreddur, skattar, kristni og vanlíðan”
Aðgerðir í loftslagsmálum, líkt og aðgerðir vegna Covid, eru ekki byggðar á vísindum. Áróður og hugmyndafræði vinstrimanna, á öllum sviðum, sýna einungis þrá þeirra að ná fullkomnum völdum yfir almenningi.