Eftirfarandi er hugvekja sem Ömgundur Jónasson fyrrverandi alþingismaður og ráðherra flutti um einelti í Seltjarnarneskirkju á sunnudag:
Hvorki illska heimsins né
heimska illskunnar er ný af nálinni.
Við komum öll auga á illskuna – jafnvel þótt við sjáum hana ekki alltaf sjálf af eigin rammleik þá gerum við það þegar á það er bent.
Eins er það með heimsku illskunnar að hana skiljum við þegar öll kurl eru komin til grafar, að illskan skilar þeim sem er illur ekki síður slæmu lífi og hlutskipti en þeim sem verður fyrir hinu illa.
Að skilja þetta er mesta uppgötvun mannsandandans; að skilja á milli góðs og ills.
Þetta er kjarninn í boðskap Jesú Krists eins og ég skil hann; að til sé sammannlegur strengur góðmennsku og velvildar og það sem meira er, að þessi strengur sé í hjarta sérhvers manns. Verkefnið sé að finna þann streng, snerta hann, virkja hann, láta hann hljóma.
Aðgerðir gegn einelti
Fyrir nokkrum árum þegar ég sat á ráðherrastól kom til mín kona sem vildi markvissar aðgerðir gegn einelti. Hún kvaðst þekkja einelti af eigin raun, hafa víða leitað aðstoðar en komið að lokuðum dyrum. Hjá stjórnvöldum skorti skilning og þau ráð sem boðið væri uppá dygðu illa. Þetta varð til þess að stofnaður var starfshópur þvert á ráðuneyti til að finna ráð sem dygðu. En hún vildi meira, hrista upp í þjóðfélaginu og stofnunum þess, í skólum og í verkalýðshreyfingu, líka í kirkjunni. Hún sagði að kirkjan yrði að gera ásetning sinn til góðra verka heyrinkunnan. Hún vildi að kirkjuklukkum landsins yrði hringt á degi helguðum baráttunni gegn einelti. Þetta ræddi hún við biskupinn og marga presta. Og kirkjuklukkurnar tóku að hljóma.
Vildi ná sambandi við páfann í Róm
En svo kom hún á minn fund ekki alls fyrir löngu og vildi vita hvort ég væri fáanlegur til að hjálpa sér að ná sambandi við páfann í Róm. Hún kvaðst vita að kirkjuklukkurnar í Péturskirkjunni væru bæði hljómmiklar og hljómfagrar og ekki drægi þar úr ef boðskapurinn væri þessi. Mér varð svarafátt. Ég taldi víst að páfinn í Róm hefði í mörgu að snúast í stóru kirkjunum og öllum höllunum suður í Róm.
Bið hefur því orðið á því að ég reyndi að ná sambandi við páfann en eitt er víst að þessi hvatning varð til þess að ég hugleiddi málið á ný og nú á nýjum forsendum. Þar kom í þessum hugleiðingum að ég spurði sjálfan mig þeirrar spurningar sem páfann þyrfti að sjálfsögðu að spyrja einnig og reyndar öll þau sem flytja boðskap Krists. Já, hvað hefði Jesú Kristur viljað? Þetta er náttúrlega hin augljósa spurning. Það er í umboði hans sem talað er í kirkjum heimsins og klukkum þar hringt ef því er að skipta. Hefði Jesús Kristur ef til vill sagt við páfann að leggja frá sér skrúðann, stíga út úr höllinni og láta hringja öllum klukkum og bjöllum?
Einelti er ekki alltaf sýnilegt og þegar það er sýnilegt vilja fæstir sjá það. Sá sem beitir einelti gerir það oftast í krafti hópsins sem tekur beinan þátt eða óbeinan með þögn sinni. Ekki veit ég hvort er verra.
Eyðileggingarmáttur eineltis
Enginn vafi leikur á því að samfélagið er meðvitaðra um eyðileggingarmátt eineltis en var fyrir aðeins örfáum árum. Fólk hefur stigið fram og sagt frá erfiðri reynslu vegna eineltis og átak hefur verið gert í mörgum skólum að fræða og upplýsa um illsku eineltis. En samt vantar mikið uppá að allir skilji þannig að þeir vilji takast á við vandann. Þegar slík hugarfarsbreyting hefur átt sér stað þá hættir eineltið, þá er það stöðvað.
Við höfum heyrt átakanlegar, já hryllilegar, frásagnir barna og unglina sem hafa orðið fyrir einleti af hálfu annarra barna og annarra unglinga og stundum fullorðinna líka. Sumir hafa svipt sig lífi, svo óbærileg hefur óhamingjan orðið. Já, af hverju drepur þú þig ekki, eins ljótur eða ljót, leiðinlegur og heimskur sem þú ert. Þetta og annað, sumt jafnvel enn verra, höfum við fengið að sjá og heyra.
Þau börn og unglingar sem svona tala og skrifa um önnur börn og aðra unglinga gera sér ekki grein fyrir afleiðingum gerða sinna. Stundum ver fórnarlambið sig með hlátri, þykist láta sér fátt um finnast. Það getur líka gerst á vinnustaðnum. Allir hlæja en undir niðri blundar sorgin og hjálaparleysi þess sem hlegið er að.
Einelti tekur á sig margar myndir, þú færð aldrei að njóta sannmælis, allt sem þú gerir er lagt út á versta veg, þú ert hæddur og spottaður á þann hátt að svíður, þröskuldarnir í vegi þínum eru hærri en hjá öllum öðrum, alltaf ertu utanveltu, sniðgenginn, hver heldur þú eiginlega að þú sért? Og svo er hlegið eða bara þagað.
Hver var glæpur Julian Assange?
Já, landamæri eineltis, ofsókna, þagnar og þöggunar eru oft óljós. Þögn og þöggun eru stundum vopn í átökum og stríði. Í Belmarsh fangelsinu í London hefur setið maður á fjórða ár án ákæru en samt innilokaður og bíður þess að verða sendur vestur um haf að kröfu bandarískra yfirvalda sem segjast vilja lögsækja hann fyrir illa glæpi. Verði hann fundinn sekur sem öruggt má heita, biði hans fangelsisdómur upp á eitt hundrað sjötíu og fimm ár. Það er á við margfaldan dauðadóm. Og glæpur hans, hver skyldi hann vera? Hvað hafði Julian Assange og Wikileaks fréttaveitan sem hann hafði stofnað og veitt forstöðu framan af, áður en ofsóknir á hendur honum hófust og hann leitað ásjár í suðuramerísku sendiráði í London, unnið til saka? Hver var sökin, hver var meintur glæpur?
Sökin var sú að segja frá grimmilegum stríðsglæpum sem ákærandinn hafði framið. Og þögnin. Hverjir skyldu eiga hlutdeild í henni? Þeirra á meðal er ríkisstjórn Íslands sem fyrir okkar hönd hefur þagað. Ekki svo að skilja að við höfum öll þagað. En það hafa þau gert sem valist hafa til forystu, meira að segja hjálpað til.
Boðskapur Biblíunnar
Biblíuna þekkja margir aðrir betur en ég. En nóg veit ég til að hafa skilið að það er ekki aðeins hinum þjakaða og þjáða sem veita eigi skjól heldur er þeim boðskap beint til allra manna að horfa í eigin barm og spyrja, hverning hljómar mín harpa; hvaða strengi snerti ég?
Í frásögn Jesú af ríka mannninum og Lazarusi segir annars vegar frá hinum auðuga manni, þeim sem býr við vald og veraldlegt gengi, og hins vegar hinum sem ekkert á, er þurfandi og býr við skort og neyð. Ríki maðurinn lætur sem hann viti ekki af fátæka særða manninum sem liggur fyrir fótum hans – lætur sem hann sjái hann ekki og hirðir ekki um hlutskipti hans þótt sá heimur sem þeir báðir búa í sé á hans ábyrgð og allra þeirra sem búa við auð og völd. En þar kemur að ríki maðurinn er knúinn til að horfast í augu við veruleikann sem hann sjálfur skóp og hvernig afskiptaleysi hans – þögnin og sinnuleysið varð honum endanlega sjálfum til óhamningju. Og þar sem við erum stödd í kirkju þar sem boðskapur Kristinnar trúar er boðaður þá skal því aldrei gleymt að hlutskipti Jesú Krists, sem reis upp gegn valdinu, veraldlegu og trúarlegu, varð fyrir ofsóknum af hálfu þessa sama valds. Þær ofsóknir enduðu á krossi á Golgatahæð. Og múgurinn fagnaði.
Hvað er til ráða í skólunum?
En hvað er til ráða? Við þurfum að gera betur en það sem þegar er reynt til dæmis í mörgum skólum. Börnin og unglingarinr sem beita einelti verða að fá fræðslu um alvöru málsins, stundum í fylgd foreldra sinna, þau verða að skilja hvað þau eru að gera öðru fólki og einnig sjálfum sér.
En það er ekki nóg að fræða börnin um illskuna og afleiðingar hennar. Það þarf að kenna um hið góða og uppbyggilega, að góðir siðir og gott innræti leiðir til hamingju og betra lífs. Getur verið að það fari of lítið fyrir þessari nálgun í samtímanum? Er þetta kennt í skólum og hvað með foreldrahúsin?
Það þarf fræðslu í öllum skólum, þar þyrfti að halda fundi með öllum bekkkjardeildum fyrir nemendur og foreldra í upphafi hvers skólaárs og þeim fundum yrði síðan fylgt eftir á skólaárinu. Þar þarf að ræða breytni manna og þá ábyrgð sem við berum hvert á öðru; að við öll þurfum að taka þátt í því að uppræta einelti, koma auga á það í öllu umhverfi okkar og kveða það niður.
Margrét Júlía Rafnsdóttir verkefnisstjóri hjá Barnaheillum segir frá því í grein sem hún birti í Fréttablaðinu 27. október síðastliðinn að frá árinu 2016 hafi samtökin gengist fyrir forvarnarverkefni fyrir leikskólabörn og síðar barnaskólabörn til tíu ára aldurs undir heitinu Vinátta. Börnin fái þjálfun í að setja sér mörk og styðja félaga sína og verja. Það er jarðvegurinn sem skiptir máli segir Margrét Júlía ennfremur: „Einelti er félagslegt, samskiptalegt og menningarlegt mein,” segir hún, “en ekki einstaklingsbundinn vandi. Því þarf ávallt að vinna með hópinn sem heild.” Vinna þurfi með samskiptamynstur, aðstæður og menningu í hópnum. Einelti geti þróast út frá aðstæðum sem í fljótu bragði virðist saklausar, eins og að skilja út undan í leik eða vilja ekki leiða einhvern í gönguferðum. Þegar tekist er á við slíkt sé mikilvægt að tryggja að allir komi út úr aðstæðum á jafningjagrunni.
Þarna er án efa talað af þekkingu og reynslu, að þótt fórnarlamb eineltis verði verst úti sé eineltið öllum hópnum skaðlegt. Og hitt er einnig á þessum orðum að skilja að einelti verði ekki upprætt án þess að virkja hópinn, breyta ómenningu í menningu, eitruðu umhverfi í vinslamlegt í krafti virðingar og vináttu.
Ekki bara í skólum - líka á vinnustöðum
En það er víðar en í skólunum sem átaks af þessu tagi er þörf. Á vinnustöðum þarf einnig fræðslu og krefjandi umræðu. Það þarf að sjá til þess að stofnunum sem ætlað er að taka við ábendingum og kærum vegna eineltis – því hinn ofsótti á ekki að þurfa að kæra, hann ber þegar óbærilega byrði; en þegar hann kærir, hann sjálfur eða aðrir fyrir hans hönd þá þarf að sjá til þess að til séu færar leiðir, úrræði sniðin að alvöru málsins. Einelti á að hafa afleiðingar og þær verða að vera réttlátar. Hafi einstaklingur verið hrakinn af vinnustað vegna einletis þá á rétturinn að liggja hans megin ekki kvalarans.
Sigrún Eyjólfsdóttir segir í meistararitgerð sinni sem ber heitið Einelti á vinnustað – Dauðans alvara: „Ég horfði upp á einstakling veslast upp“.
Og Helga Björk yrkir um
EINELTI SEM DREPUR:
Hrakin, smánuð, hædd og pínd,
hrakyrt, spotti vafin.
Sólin horfin, sálin týnd
í sálarmorði grafin.
Það eru kvalararnir sem eru viðfangsefnið ekki síður en fórnarlömbin. Það eitt dugar ekki að hringja kirkjuklukkum einu sinni á ári, jafnvel ekki klukkum Péturskirkjunnar í Róm, þessum klukkum þarf að hringja alla daga og hverja stund innra með okkur sjálfum.
Þá verður þögnin rofin.
Og þá mun eineltinu lokið.
Og gleymum því ekki að það er hægt að láta því lokið.
Við þurfum öll að sameinast um að vekja hvert annað og vakna sjálf, finna strenginn - hinn sammannlega streng - sem er innra með okkur öllum – þann streng sem Davíð Stefánsson ákallaði hina himinbornu dís að snerta í Kvæðinu um fuglana:
Ég heyri' í fjarska villtan vængjaþyt.
Um varpann leikur draumsins perluglit.
Snert hörpu mína himinborna dís,
og hlustið, englar guðs í Paradís.
Greinin birtist fyrst á omgundur.is þann 6.nóvember 2022