Ný rannsókn: Traust á bólusetningum minnkað um fjórðung eftir faraldurinn

frettinBólusetningar, Rannsókn1 Comment

Traust á bólusetningum almennt hefur minnkað verulega síðan COVID-faraldurinn hófst, samkvæmt nýrri rannsókn.

Vísindamenn frá háskólanum í Portsmouth á Englandi gerðu tvær nafnlausar kannanir veturna 2019 og 2022 til að meta viðhorf fólks til bólusetninga og til að skoða hvaða þættir valdi því að fólk sé hikandi við bólusetningar og/eða hafni þeim.

Rannsóknin sem birt var í læknatímaritinu Vaccine sýndi að traust á bóluefnum hafði minnkað um nærri fjórðung frá því á árinu 2020, óháð aldri, kyni, trúarskoðun, menntun og þjóðerni.

Dr Alessandro Siani, aðstoðarforstöðumaður líffræðideildar háskólans í Portsmouth sagði: „Þó það sé ekkert nýtt að fólk sé hikandi við bólusetningar þá hefur COVID-19 bóluefnum verið mætt með sérstakri andúð þrátt fyrir yfirgnæfandi vísindalegar sannanir fyrir öryggi þeirra og virkni.“

„Þetta er þó ekki raunin aðeins meðal samsæriskenningamanna, heldur líka þeirra sem telja sig ekki vera andsnúin bólusetningum almennt og höfðu áður stutt aðrar bólusetningarherferðir.“

Þátttakendur voru spurðir hversu sammála þeir væru fullyrðingum á borð við „Bóluefni eru örugg“, „Ég tel að bólusetningar ættu að vera skylda“, „Ég tel að ef ég læt bólusetja mig muni það gagnast öðrum“ og „Bóluefni eru nauðsyn fyrir okkar heilsu og vellíðan“.

Í báðum könnunum voru þátttakendur sem höfðu trúarlegar skoðanir marktækt meira hikandi við bóluefni en trúleysingjar og agnostískir, og einstaklingar af svörtum og asískum uppruna voru meira hikandi en þeir af hvítu þjóðerni. Engin munur var á milli kynja.

Munur á milli ungra og aldna

Talsmaður háskólans sagði: „Þó að þetta mynstur sé að mestu óbreytt milli þessara tveggja kannana, komu fram nokkrar athyglisverðar breytingar í könnuninni sem var gerð eftir heimsfaraldurinn.

„Til dæmis leiddi rannsóknin í ljós að í könnuninni 2019 voru miðaldra þátttakendur töluvert meira hikandi við bólusetningar en yngri hópar, en þetta var ekki raunin í könnuninni árið 2022.

Dr Siani bætti við: „Þetta gæti verið vegna þess að COVID-19 sýkingar leiða alræmt til alvarlegri afleiðinga hjá eldri sjúklingum.

„Ungt fólk sem er sýkt finnur sjaldan fyrir alvarlegum einkennum sem leiða til sjúkrahúsinnlagnar og dauða, þannig að það er hugsanlegt að margir séu orðnir sjálfsöruggir og finni ekki þörf fyrir því að láta bólusetja sig.“

„Á hinn bóginn gæti eldra fólk verið meira á varðbergi gagnvart afleiðingum sýkingarinnar og kunna betur að meta þá vernd sem bóluefnið býður upp á.“

Fyrirvarar á rannsókn

Dr Siani sagði að greining á niðurstöðunum væri takmörkuð þar sem mismunandi hópar fólks voru teknir fyrir í könnununum tveimur.

Hann sagði: „Við bjuggumst ekki við að heimsfaraldur myndi brjótast út aðeins nokkrum mánuðum eftir að könnunin árið 2019 var framkvæmd.

„Þar sem niðurstöður okkar endurspegla ekki breytingar á skoðunum sömu þátttakenda á tímabilinu, heldur samanburð á svörum frá tveimur ólíkum hópum, ætti að túlka þær með fyrirvara.

„Rannsóknin er hins vegar í samræmi við aðrar kannanir sem benda til þess að traust á bóluefnum gæti verið enn eitt fórnarlamb COVID-19 heimsfaraldursins.“

SkyNews

One Comment on “Ný rannsókn: Traust á bólusetningum minnkað um fjórðung eftir faraldurinn”

  1. Er það einhver furða að fólk með smá skynsemi og sjálfstæða hugsun hafi misst álit á yfirvöldum eftir Covid-áróðurinn og allar lygarnar?

Skildu eftir skilaboð