Frestur til að skila inn umsögnum um frumvarp að viðbót við almenn hegningarlög, sem gera svokallaðar bælingarmeðferðir á samkynhneigðum bannaðar og refsiverðar, rennur út á miðnætti. Alls hafa 13 umsagnir borist, skv. vef Alþingis.
Í að minnsta kosti einni umsögninni, frá Samtökunum 22, hagsmuna- og grasrótarsamtökum samkynhneigðra, er bent á að óbreytt gæti frumvarpið orðið til þess að samtalsmeðferðir hjá geðlæknum og sálfræðingum verði gerðar saknæmar og refsiverðar. Það sé vegna þess að það fjalli ekki einungis um kynhneigð samkvæmt orðanna hljóðan, heldur séu orðin kynvitund og kyntjáning einnig meðferðis:
Sálfræði- og geðlæknismeðferð við kynáttunarvanda/kynama verði gerð bönnuð og refsiverð?
„Eins og frumvarpið lítur út í dag gæti það gert samtalsmeðferðir hjá sálfræðingum og geðlæknum refsiverð[ar]. Einnig gæti það valdið sjúklingum erfiðleikum að fá þjónustu ef þeir gefa í skyn kynáttunarvanda eða kynama. Fagaðili gæti veigrað sér við að veita einstakling þjónustu [vegna] ótta við að verða sakaður um, eða jafnvel að brjóta gegn lögunum.“
Á meðal fleiri umsagnaraðila eru einnig Buck Angel, heimsfrægur talsmaður transfólks, sem gagnrýnir meðal annars að óbreytt gæti frumvarpið hindrað nauðsynlegt sál- og geðlæknisfræðilegt mat á börnum, ungmennum og fullorðnum áður en hafist er handa við translækningar með óafturkræfum lyfjameðferðum og skurðaðgerðum.
Úr frumvarpinu:
„ Við XXIV. kafla laganna bætist ný grein, 227. gr. b, svohljóðandi:
Hver sem með nauðung, blekkingum eða hótunum fær einstakling til að undirgangast meðferð í þeim tilgangi að bæla eða breyta kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu hans skal sæta fangelsi allt að 3 árum.
Hver sem lætur barn yngra en 18 ára undirgangast meðferð sem greinir í 1. mgr. skal sæta fangelsi allt að 5 árum. Sömu refsingu skal sá sæta sem færir barn yngra en 18 ára úr landi í sama tilgangi.
Hver sem framkvæmir, hvetur með beinum eða óbeinum hætti til eða hefur þegið fé vegna meðferðar sem greinir í 1. mgr. skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“