„Algjörlega misheppnaðar“ refsiaðgerðir gegn Rússlandi

frettinErlent, StjórnmálLeave a Comment

Í viðtali við Roya News Jordan í vikunni sagði utanríkisráðherra Ungverjalands, Peter Szijjarto, að refsiaðgerðir Bandaríkjanna og Evrópu gegn Rússlandi væru algerlega misheppnaðar.

„Refsiaðgerðirnar sem Evrópusambandið hefur innleitt gegn Rússlandi hafa mistekist. Þetta er algjörlega misheppnað,“ sagði Szijjarto. Hann sagði að stærstu áhrifin væru neikvæðar afleiðingar fyrir aðildarríki ESB og þá hefðu refsiaðgerðirnar ekki náð neinu af yfirlýstum markmiðum sínum.

Utanríkisráðherrann gangrýndi þá sem taka ákvarðanir í ESB: „Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sagði að refsiaðgerðirnar myndu hjálpa okkur við að ljúka þessu stríði eins fljótt og auðið væri og að þær myndu knésetja efnahag Rússlands. Hver er niðurstaðan? Þetta er algerlega öfugt."

Þess í stað varaði hann við því að efnahagsstríðið, sem enn er háð gegn Rússlandi, muni aðeins leiða til stigmögnunar á vígvellinum og aukinnar verðbólgu heima fyrir. „Stríðið verður sífellt grimmara … Og á meðan er evrópska hagkerfið í slæmri stöðu.“ Þá tiltók hann að Evrópa þjáist nú af „gífurlegri orkukreppu“ og hækkandi matvælaverði.

Vilji ráðmanna í Ungverjaland hefur verið þyrnir í augum þeirra sem taka ákvarðanirnar í Evrópusambandinu og hafa reynt að refsa Rússum fyrir innrás þeirra í Úkraínu. Nú síðast neituðu ungversk stjórnvöld að aðstoða bandamenn NATO við þjálfun úkraínskra hermanna. Þá hefur Ungverjaland einnig verið sakað um að grafa undan viðleitni vestrænna ríkja til að styrkja varnir Úkraínu, til dæmis með banni við vopnaflutningum beint frá Ungverjalandi til Úkraínu.

Szijjarto hafnaði þessum ásökunum í viðtalinu og sagði: „Í grundvallaratriðum erum við þau einu í Evrópu sem erum að berjast fyrir friði."

Búdapest hefur einnig staðið gegn vilja ESB til að setja bann á rússneska orku og borið því við að það verði að hugsa um efnahag og velferð ungversku þjóðarinnar fyrst og fremst.

Þá nefndi utanríkisráðherrann sem dæmi um það hversu refsistefna ESB hefði misheppnast að Ungverjaland hafi verið þvingað til að greiða 19 milljarða evra fyrir innflutta orku á þessu ári, sem er meira en tvöföldun á þeim 7 milljörðum evra sem Ungverjaland greiddi árið 2021 þetta er „stórkostleg“ afleiðing af skammsýnum aðgerðum ESB, sagði hann.

Hér má horfa á viðtalið við utanríkisráðherrann:

Skildu eftir skilaboð