Eftir Geir Ágústsson:
Í dag birtist í Morgunblaðinu pistill ársins að mínu mati, Iðrun, ótti og heilmikill greiðsluvilji, eftir Ásgeir Ingvarsson, blaðamann. Hann er aðgengilegur hér. (innskráningu þarf, ekki áskrift) Ég mæli vitaskuld með því að allir lesi pistilinn í heilu lagi en stenst ekki að grípa í nokkrar efnisgreinar og endurbirta:
Í dag hlæjum við að aflátsbréfahagkerfinu og getum varla skilið hvernig fólk gat látið plata sig svona, en gleymum að mannskepnan hefur ósköp lítið breyst og að innsta eðli okkar er það sama og fyrir sex hundruð árum.
Mannfræðingarnir minna á að það er heldur ekki að ástæðulausu að hér um bil öll samfélög hafa þróað með sér trúarbrögð með einhvers konar hamfarasögu. Trú á æðri máttarvöld og óttinn við refsingu yfirnáttúrulegra afla hefur verið hluti af tilveru forfeðra okkar í þúsundir ára. Því er ekki skrítið, nú þegar trúin hefur meira eða minna fengið að víkja, að eitthvað keimlíkt fylli í skarðið. Hér áður fyrr hótuðu prestarnir því að við myndum stikna, en nú hafa ábúðarmiklir umhverfisverndarsinnar tekið við.
Og:
Í kórónuveirufaraldrinum sáum við (bara á miklu styttri tíma) nákvæmlega sama fyrirbæri og við höfum séð í loftslagsumræðunni:
Óvandaðar rannsóknir og spár urðu til þess að magna upp geðshræringu. Fjölmiðlar (í leit að smellum) og stjórnmálamenn (í leit að nýjum leiðum til að gera sjálfa sig ómissandi) helltu olíu á eldinn. Almenningur hírðist heima við, skjálfandi á beinunum: löngu verðskulduð refsingin var loksins komin og eina lausnin að rjóða sótthreinsigeli á dyrastafi heimilanna.
Þegar kvíðinn hafði skotið rótum reyndist illmögulegt að koma nokkru viti fyrir fólk. Þeir sem vildu hinkra örlítið og skoða málin betur voru sakaðir um að vilja kála gamla fólkinu og fóðra sjúklinga á hrossalyfjum. Þeir sem mótmæltu voru ýmist hafðir að háði og spotti eða reynt að svipta þá æru og starfi fyrir að viðra efasemdir og synda gegn straumnum.
Nú er smám saman að koma betur í ljós að efasemdafólkið hafði á réttu að standa. Viðbrögð stjórnvalda voru kolröng og gerðu illt verra. Er ekki ósennilegt að bóluefnin svokölluðu hafi gert meira ógagn en gagn.
Loftslag, veirulokanir, innflytjendur, endurvinnsla, ein tiltekin átök, rafmagnsbílar og innræting á ungu fólki má allt kosta svimandi fjárhæðir. Örorkubætur, innviðir og viðhald má helst ekki kosta neitt.
Ég geri lokaorð Ásgeirs að mínum:
Ef það er eitthvað sem við ættum að hafa lært á undanförnum þremur árum þá er það að hlusta örlítið betur á þá sem synda á móti straumnum og taka mikla persónulega áhættu með því að viðra óvinsælar skoðanir; þegar það virðist sem að aðeins ein skoðun sé leyfileg ættum við að sanka að okkur sem mestu efni og lesa með alveg sérstaklega opnum huga.
Og svo getum við kannski gert það að reglu, til að grisja þá sanntrúuðu frá tækifærissinnunum, að loftslagsráðstefnur og aðrir viðburðir af sama toga muni héðan í frá aðeins fara fram á einstaklega óspennandi stöðum. Ekki í Madríd, Marrakess, París eða Líma heldur miklu frekar í úthverfi Birmingham á blautasta og kaldasta tíma ársins. Mér segir svo hugur að þá yrði frekar tómlegt í fundarsölunum.