Ríkisstjórn Noregs ætlar að bjóða öllum 18 til 64 ára nýja Covid örvunarbóluefnið, en skilaboðin um hvort fólk ætti í raun að taka það eru ruglingsleg. Nokkrir þeirra lækna sem bera ábyrgð á bólusetningum ætla ekki taka það sjálfir. Þetta kemur fram í norska miðlinum NRK.
Ingvild Kjerkol heilbrigðis- og velferðarráðherra gaf út fréttatilkynningu á föstudaginn: „Öllum á aldrinum 18 til 64 ára verður boðið upp á örvunarskammt af nýja kórónubóluefninu. Bólusetning er enn lykilatriði í að takast á við kórónufaraldurinn,“ skrifaði Kjerkol.
Engu að síður munu hvorki stjórnvöld né Heilbrigðisstofnun Noregs (FHI) gefa út almenn tilmæli eða ráðleggingar um bólusetningar. Það er því undir hverjum og einum komið að ákveða hvort hann eigi að taka bóluefnið eða ekki.
Ætti fólk virkilega að taka þennan örvunarskammt?
Læknar sem ætla ekki sjálfir að fá bóluefnið
Einar Sagberg, sóttvarnalæknir í Drammen, skilur vel að skilaboðin frá stjórnvöldum og FHI gæti virst ruglingsleg.
„Það eru mjög fáar faglegar ástæður fyrir því fyrir þennan aldurshóp að taka örvunarskammt,“ segir Sagberg.
„Hvers vegna er þá boðið upp á bóluefnið,“ spyr blaðamaður?
Vandinn er sá að við höfum ekki fulla yfirsýn yfir það hvernig þessi bylgja muni þróast. Við vitum ekki nóg mikið um hvort örvunarskammtur muni hafa áhrif. Auk þess geta verið fleiri sem vilja ferðast til útlanda sem þurfa á bólusetningunni að halda.
Einar Sagberg telur að þeir sem eru elstir í þessum aldurshópi muni græða mest á nýja örvunarskammtinum. Sveitarfélagið Drammen býður upp á bólusetningar fyrir alla eldri en 18 í þessari viku. Sagberg býst ekki við mikilli aðsókn.
„Við gerum ekki ráð fyrir að margir muni mæta.“
„Þú ert sjálfur í þessum aldurshópi. Ætlarðu að taka bóluefnið?“, spyr blaðamaður hann.
„Nei, ég ætla ekki að gera það. Ég er nýbúinn að vera með Covid-19, en ég myndi samt sem áður ekki taka þennan örvunarskammt, segir Sagberg.
Lítill ávinningur
Í sveitarfélaginu Lier er Ingrid Bjerring bæjaryfirlæknir tilbúinn að með nýja bóluefnið fyrir þá sem vilja. Hún telur heldur ekki að það muni veita þessum aldurshópi sérstakan heilsufarslegan ávinning.
„Sérstaklega þeir yngstu ættu að vega mögulegar aukaverkanir á móti ávinningi af þessum skammti,“ segir Bjerring, sem hefur engin áform um að taka bóluefnið sjálf.
„Ég vinn klínískt með sjúklingum, svo ég gæti tekið það af þeirri ástæðu. En ekki til að vernda mína eigin heilsu,“ segir Bjerring.
Læknirinn Miert Lindboe telur heldur ekki að í Osló séu sérstaklega ríkar ástæður til að notfæra sér þetta boð um bólusetningar.
„Sem heilbrigð 42 ára manneskja mun ég ekki taka það, en mér skilst að sumir vilji fá örvunarskammt, segir Miert Lindboe læknir í Osló.
FHI: Ekki mælt með bólusetningum
Þrátt fyrir að bóluefnið sé nú aðgengilegt mun Heilbrigðistofnun Noregs ekki gefa út tilmæli til allra um að taka það.
Are Stuwitz Berg, deildarstjóri FHI segir:
„Við höfum engan grundvöll fyrir því að mæla með að þessi aldurshópur þjóðarinnar taki nýja örvunarskammtinn núna. Við sjáum heldur enga ástæðu til að neita þeim sem vilja, þar sem við erum með meira en nóg af skömmtum og þetta er samþykkt bóluefni. Fólk verður þó að gera sér grein fyrir kostum og göllum og það er meiri ástæða fyrir þá elstu en þá yngstu í þessum hópi að huga að þessu,“ segir deildarstjórinn Are Stuwitz Berg hjá FHI.
Öll bóluefni hafa í för með sér hættu á aukaverkunum. Er þá réttlætanlegt að bjóða upp á þetta, þegar þú veist að einstaklingsbundinn ávinningur af örvunarskammtinum er líklega lítill, spyr blaðamaður?
„Þetta er ein af ástæðum þess að við höfum ekki sagt að allir ættu að taka nýja skammtinn heldur að einstaklingurinn geti velt þessu fyrir sér. Eins og ég sagði, að þá verður maður að vera meðvitaður um hættuna á aukaverkunum. Einhverjir geta fundið fyrir erfiðum og alvarlegum aukaverkunum, en langflestar aukaverkanirnar eru tímabundnar og hverfa af sjálfu sér innan nokkurra daga,“ segir Stuwitz Berg.