Í gærkvöldi var haldinn fyrsti almenni félagsfundur Málfrelsis – samtaka um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi. Fundurinn var frábærlega vel sóttur, tæplega 80 manns mættu til hans og var hvert sæti skipað í salnum og rúmlega það.
Þau Arnar Þór Jónsson, lögmaður og varaþingmaður, og Sigríður Á. Andersen fyrrverandi þingmaður og ráðherra héldu erindi. Arnar fjallaði um hvernig tjáningarfrelsið var lamað þegar þingið var tekið úr sambandi og öll völd falin fámennisstjórn sérfræðinga. Valdið kemur frá fólkinu, það er grundvöllur lýðræðisins, sagði Arnar, en það sem átti sér stað var að þetta vald, sem fólkið beitir í gegnum kjörna fulltrúa, var sett til hliðar. Það þýðir að það sem átti sér stað var lýðræðishrun. Arnar fjallaði um Fjölmiðlanefnd og hlutverk hennar í þögguninni; hvernig hún umbreyttist í varðhund valdsins gagnvart fólkinu, og hvernig stjórnvöld leituðu til erlendra aðila til að kalla eftir ritskoðun. Skerðing málfrelsisins er í eðli sínu útskúfun, sagði Arnar. Og þegar fólki er útskúfað með þessum hætti, þá hrekst það inn í skuggana, reiðin byggist upp og getur á endanum brotist út í ofbeldi. Skerðing tjáningarfrelsisins í krafti kennivalds og þöggunar leiðir til þess að stjórnarfarið breytist; það hættir að vera réttarríki, en breytist í sóttvarnaríki. Tjáningarfrelsið er eins og sólarljósið, sagði Arnar. Sé það virkt afhjúpar það strax rangfærslur og vitleysu.
Sigríður Á. Andersen var þingmaður þegar faraldurinn hófst og sat á þingi fram að kosningum haustið 2021 og var lengi vel nánast eini þingmaðurinn sem leyfði sér að gagnrýna aðgerðir stjórnvalda jafnt innan þings sem utan. Sigríður birti í sumar ítarlega grein um aðgerðir stjórnvalda út frá lagalegum sjónarhóli í tímaritinu Nordisk Administrativt Tidsskrift og má sjá umfjöllun um hana hér í Conservative Woman. Sigríður lýsti því hvernig stjórnvöld settu reglugerðir, jafnvel án tillits til lögmætis. Lagaleg álitaefni geta vissulega komið upp á neyðartímum sagði Sigríður og vísaði til orðatiltækisins „nauðsyn brýtur lög“. En þessa heimild, að fara á svig við lög má ekki misnota sagði hún. Hvorki hér né annars staðar var um að ræða neitt skyndilegt neyðarástand, hvorki hér né erlendis og heimild stjórnvalda til neyðarráðstafana því byggð á hæpnum grunni. Sigríður rifjaði upp að ekki er lengra síðan en í janúar á þessu ári að tíu manna samkomutakmarkanir voru settar á, í sama mund og Omicron afbrigðið hafði tekið yfir, sem allir voru þó sammála um að væri langvægasta afbrigði pestarinnar. Lögum var breytt eftir á, til að uppfylla lagaskilyrði fyrir reglugerðum, reglugerðir settar sem enga lagastoð höfðu. Sigríður bar að lokum saman þróunina hér og í Svíþjóð, þar sem litlar sem engar takmarkanir voru settar, og hvernig dauðsföll eru nú orðin svipuð; samanburður sem vekur vitanlega spurningar um hvort yfirleitt hafi verið einhverjar forsendur fyrir frelsisskerðingunum til að byrja með. Það var talað um fordæmalausa tíma sagði Sigríður, en það eina sem var fordæmalaust í raun og veru voru aðgerðir stjórnvalda.
Að lokum kynnti Þorsteinn Siglaugsson formaður félagsins nýjan vefmiðil þess, Krossgötur, sem ætlað er að vekja almenning til meðvitundar um mikilvægi tjáningarfrelsisins og vera vettvangur opinnar og frjálsrar umræðu.
Eftir að formlegri dagskrá lauk var opnað fyrir umræður, sem voru bæði kraftmiklar og upplýsandi. Bersýnilegt er að uppsöfnuð þörf fyrir umræðuvettvang um þau vandamál sem steðja að tjáningarfrelsinu og persónulegu frelsi er mikil og mun félagið gera sitt besta til að skapa þennan vettvang, bæði með formlegum og óformlegum viðburðum, útgáfu og vefumræðu.
Streymi frá fundinum má sjá hér: https://fb.watch/h0mvUfAgEy/