Eftir Þorstein Siglaugsson:
Ýmsir hafa beðið eftir að sjá umfjöllun í almennum fjölmiðlum um samtal blaðamanns Project Veritas við stjórnanda hjá Pfizer sem birtist síðastliðinn föstudag, þar sem stjórnandinn lýsti áformum fyrirtækisins um að “stýra” þróun kórónuveirunnar til að selja sem mest af bóluefni.
En engin slík umfjöllun hefur sést. Eða nánast engin. Burtséð frá grein í Daily Mail síðastliðinn föstudag, en var svo fjarlægð fáeinum klukkustundum síðar, er það eina sem ég hef enn séð veikburða staðreyndaskoðunarpistill Newsweek og einstaklega léleg skoðanagrein sem birtist hjá Forbes, þar sem árangurslaust er reynt að afneita tilvist einstaklingsins sem um ræðir. Pistillinn er raunar skrifaður af starfsmanni fyrirtækis sem á í nánu samstarfi við … og gettu nú hvern? Auðvitað Pfizer.
Það hefur hins vegar verið ótrúlegt að sjá hversu hratt gögn um manninn, Jordon Trishton Walker, voru hreinsuð út af netinu. Á föstudagsmorgun kom LinkedIn prófíllinn hans upp í leitarniðurstöðum Google, en prófílnum sjálfum hafði að sjálfsögðu verið eytt. Síðdegis kom hann ekki lengur upp í leitarniðurstöðum, nokkuð sem ég hef aldrei áður séð gerast svo hratt. Enn ein vísbending um hversu yfirgripsmikil ritskoðunin er nú orðin…
“Þegar mikilvægar raddir í vísindaheiminum, meðal annars heimsþekktir prófessorar við Stanford háskóla; John Ioannidis, Jay Bhattacharya og Scott Atlas, eða við University of California San Francisco, eins og Vinay Prasad og Monica Gandhi, vöruðu við afleiðingunum fyrir viðkvæmra hópa, mættu ritskoðun og þögguna af hálfu miskunnarlaus múgs gagnrýnenda og andmælenda í vísindasamfélaginu – oft ekki á grundvelli staðreynda heldur eingöngu á grundvelli ólíkra vísindalegra skoðana.“
Þessi málsgrein var ekki skrifuð af neinum hjá Brownstone Institute, The Daily Sceptic eða The Conservative Woman, hún kemur úr grein eftir ósköp venjulegan, hefðbundinn vísindamann, Kevin Bass, lækni og doktorsnema í Texas, sem birtist í Newsweek í janúarlok.
Að sögn Bass var hann ekki einn af efasemdamönnunum, heldur studdi lokanir fyrirtækja og skóla, grímuskyldu, bólusetningarkvaðir og aðrar sóttvarnaraðgerðir frá upphafi. En nú viðurkennir hann mistök sín: „Ég hafði rangt fyrir mér. Við í vísindasamfélaginu höfðum rangt fyrir okkur. Og það kostaði mannslíf,“ segir hann. Hann reynir ekki að réttlæta gjörðir sínar líkt og við sáum í vítaverðri grein Emily Oster í The Atlantic í október síðastliðnum, þar sem hún krafðist sakaruppgjafar frá þeim sem hún skaðaði, og fullyrti að upplýsingar sem lágu fyrir hefðu ekki legið fyrir.
Bass reynir ekkert slíkt. Hann viðurkennir opinskátt hvernig hið almenna vísindasamfélag „dró athyglina kerfisbundið frá skaðsemi inngripanna sem beitt var“ og braut gegn „sjálfræði þeirra sem urðu fyrir alvarlegustu tjóni vegna þeirra; gegn fátækum, verkafólki, eigendum smáfyrirtækja, fólki af afrískum og suðuramerískum uppruna, og börnum.” „Við gerðum vísindin að hópíþrótt,“ segir hann, „og með því voru þau ekki lengur vísindiheldur keppni, við á móti þeim.“
Í kjölfar uppljóstrana Walkers höfum við séð hinn langa armlegg ritskoðunarinnar í öllu sínu veldi. Við höfum séð hvað hann er fær um. Hvað hann hefur verið að gera. Og við ættum að hafa áhyggjur. Miklar áhyggjur.
En í þessu hafi ritskoðunar, lyga og blekkinga vekur heiðarleg rödd Kevins Bass von. Einmana rödd enn sem komið er að vísu, en margir fleiri innan vísindasamfélagsins hljóta að hugsa á sömu nótum. Þeir þora kannski ekki að tjá sig ennþá. En á einhverjum tímapunkti verða þeir að gera það. Þeir verða að tjá sig og þeir verða að horfast í augu við ábyrgð sína. Eða eins og Bass orðar það:
“Það er í lagi að hafa rangt fyrir sér og viðurkenna hvar maður hafði rangt fyrir sér og hvað maður hefur lært af því. Það er grundvallarþáttur í því hvernig vísindin virka. Samt óttast ég að margir séu of fastir í hóphugsun – og of hræddir við að axla ábyrgð opinberlega – til að það gerist.“
“Til að leysa þessi vandamál til lengri tíma verður að stórefla fjölbreytni og umburðarlyndi innan menntastofnana, þar á meðal að tryggja að gagnrýnar raddir fái að heyrast. Það verður að binda enda á elítuhugsun, ofuráherslu á gráður og merkimiða, og stéttahyggju. Það er eina leiðin til að byggja að nýju upp traust á heilbrigðisyfirvöldum – og raunar á lýðræðinu sjálfu.“
Greinin birtist einnig á ensku á Substack og í Daily Sceptic og á Krossgötur.is