Í aðdraganda lengri dvalar í Mið-Austurlöndum haustið 2016 hafði ég samband við nokkra fréttamiðla hér á landi til að kanna hvort þá vantaði ekki tengil á svæðinu sem gæti sent þeim fréttir. Þeir afþökkuðu allir. Íslenskir miðlar fá nefnilega allar erlendar fréttir sínar frá fréttaveitunum AP og Reuters og þurfa ekki fólk í útlöndum.
Eftirfarandi er útdráttur úr skýrslu Swiss Policy Research frá 2016 – „the Propaganda Multiplier“, sem á íslensku gæti útlagst áróðursdreifarinn.
Sá sem vill koma vafasamri sögu á kreik þarf ekki að gera annað en að koma henni að hjá einhverri þessara virðulegu fréttaveitna [Reuters, AP, AFP], þá fylgja hinar í kjölfarið og síðan allur hinn vestræni heimur. Virðingin sem þessar veitur njóta er slík að þær eru hafnar yfir allar efasemdir.
Þeir sem nýta sér þetta óspart eru hernaðar- og varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna. Tom Curley, fyrrverandi forstjóri fréttaveitunnar AP, sagði að hjá Pentagon störfuðu um 27.000 áróðursmeistarar með 5.000 milljarða dollara á ári til að spila með fjölmiðla og búa til og dreifa áróðri. Hann sagði líka að háttsettir hershöfðingjar hefðu hótað að eyðileggja feril hans og fréttaveitunnar ef fjallað yrði um herinn og NATÓ á óþægilegan máta.
Þessir áróðursmeistarar vita nákvæmlega hvernig best er að spila með tilfinningar almennings og vekja hatur gegn óvinum NATÓ hverju sinni og fréttaveiturnar gera þeim kleift að dreifa sögum af villandi atburðarás. Í þessu upplýsingastríði eru áróðursmeistararnir alveg jafn mikilvægir og sprengjuflugmennirnir.
Í Sýrlandsstríðinu var oft vitnað í sýrlensku mannréttindastofnunina (Syrian Observatory for Human Rights). Hin svokallaða stofnun var í raun einn maður í London sem áframsendi „fréttir af vígstöðvunum“ frá áróðursmeisturunum til fréttaveitnanna. Þaðan tóku vestrænir fjölmiðlar „fréttirnar“ upp og dreifðu til heimsbyggðarinnar. Aldrei var spurt hver fjármagnaði herlegheitin.
Fyrrverandi CIA-maður, John Stockwell, sagði frá vinnu sinni í tengslum við stríðið í Angóla: „Aðalatriðið var að láta þetta líta út eins og óvinaárás. ... Þriðjungur starfsmanna minna var áróðursmeistarar og starf þeirra var að semja sögur og finna upp leiðir til að koma þeim í einhvern fjölmiðil. ... Ritstjórnir vestrænna fjölmiðla vefengja ekki svo gjarnan skilaboð sem passa við almenn viðhorf og fordóma. ... Svo við bjuggum til aðra sögu og hún dugði í margar vikur. ... En þetta var allt uppspuni.“
Fred Bridgland, fyrrverandi stríðsfréttaritari fyrir Reuters-veituna, sagði: „Við byggðum skýrslur okkar á opinberum tilkynningum (communiqués). Það var ekki fyrr en mörgum árum síðar að ég frétti að CIA-sérfræðingur um upplýsingaóreiðu hefði setið í bandaríska sendiráðinu og samið allar þessar tilkynningar sem áttu ekkert skylt við raunveruleikann. Í raun er hægt að senda út hvaða drasl sem er og það mun rata í fjölmiðla.“
Umfjöllun um stríð og átök er oft yfirborðskennd og handahófskennd því veiturnar eru tregar til að bæta nokkru samhengi í fréttirnar. Ekki er fjallað um átökin í sögulegu samhengi eða í samhengi við annað sem gerist á sama svæði á sama tíma og hefur bein áhrif á atburðarásina. Sumt birtist aldrei í fréttum og annað er mjög áberandi þótt það ætti ekki að vera það. Til dæmis fá atburðir og sjónarhorn sem ekki passa inn í NATÓ/bandaríska áróðurinn enga umfjöllun.
Í gegnum þessa áróðursdreifara [fréttaveiturnar] rata vafasamar sögur frá almannatenglum á vegum hins opinbera, hersins og leyniþjónustanna, beint til almennings, óritskoðað og án heimildatékks. Blaðamenn vísa í fréttaveiturnar og fréttaveiturnar vísa í sína heimildarmenn. Þótt þeir stundum reyni að draga úr með orðum eins og „lítur út fyrir“ og „meintur“ hefur orðrómurinn breiðst út til heimsins og hlutverkinu er náð.*
Ef allar fréttir frá Sýrlandi komu óbeint frá CIA í gegnum eins manns stofnun í London, óravegu frá raunverulegum átökum, og allar fréttir frá Angóla uppspuni og lygi, er þá ekki allt eins líklegt að allar fréttir frá Úkraínustríðinu séu uppspuni frá áróðursmeisturum CIA með þann eina tilgang að réttlæta vopnasölu til Úkraínu og byggja upp hatur gegn Rússlandi? Ljóst er að flest myndefni þaðan er tilbúningur, tekið af öðrum stríðshrjáðum svæðum eða jafnvel úr tölvuleikjum. Til dæmis myndin af ónýtu byggingunni sem fylgir frásögnum af sprengingum í Lviv; byggingin var í Donetsk og sprengd af Úkraínumönnum 14. mars sl. Önnur mynd sem fylgdi sambærilegri frétt um sprengingar í Kharkov var frá Beirút, eftir að stóri geymirinn sprakk þar við höfnina. Ég veit það því ég hef verið þar.
Fjölmiðlar nefna eingöngu fréttaveiturnar sem heimild og því er ómögulegt fyrir almennan lesanda að sjá hvaðan fréttin raunverulega kemur. Það sem þeir halda að sé sannleikurinn er oftar en ekki uppspuni og áróður. Þess vegna er svo mikilvægt að fólk vakni og geri sér grein fyrir því að heimurinn er alls ekki eins og fjölmiðlar vilja vera láta.
* https://swprs.org/the-propaganda-multiplier/
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. febrúar 2023
One Comment on “Áróðursdreifararnir Reuters og AP”
Bingó, þetta er einmitt ein stærsta meinsemd hins vestræna heims í dag þar sem almenningi er stjórnað með „réttum“ upplýsingum. Sumir, sem hafa nennu og getu til að kynna sér málin frá fleiri hliðum og uppsprettum eru löngu búnir að sjá i gegnum þetta. Þessar alþjóðlegu „fréttaveitur“ áróðurs meistarana er notaðar til að gera út um menn og málefni eins og herrar meistarana segja til um. Flest ef ekki allt virðist vera til að hygla Amerísku stríðsvélinni og bandamönnum, lyfjarisunum eða öðru sem heldur uppi efnahag og heimsvaldastefnu BNA. Þekkt fólk sem getur ógnað Þessu valdatafli og braski með heimsbyggðina er umsvifalaust fíflað upp og merkt sem öfgafólk af sömu miðlum, flestir miðlar vestræna þjóða endurvarpa svo áróðurnum þegjandi og hljóðalaust í fullkomnu trausti, algjörlega gagnrýnislaust.