Drottningarviðtal til varnar lögbroti

frettinBjörn Bjarnason, Fjölmiðlar3 Comments

Björn Bjarnason skrifar:

Hatrammar árásir formanns Eflingar á ríkissáttasemjara í eintali i sjónvarpssal leysa ekki hnútinn sem herðist meira og meira.

Drottningarviðtal var við Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, í Kastljósi ríkissjónvarpsins að kvöldi þriðjudag 7. febrúar. Farið var mildum höndum um lögbrot hennar og neitun um að hlíta héraðsdómi um afhendingu á kjörskrá svo að unnt sé að ganga til atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu ríkissáttasemjara.

Líklega er einsdæmi að þeim sem neitar að fara að niðurstöðu dómara í máli sem snertir þjóðarhag skuli hampað á þann veg sem gert var í þessu sjónvarpsviðtali. Væri stjórnmálamaður settur á sama stað og Sólveig Anna stóð og fyrir lægi afdráttarlaus dómur um skyldu hans til að afhenda gögn hvað sem liði áfrýjun máls hefði fréttamaðurinn verið óblíðari á manninn en hann var í gærkvöldi.

Bergsteinn Sigurðsson ræðir við Sólveigu Önnu Jónsdóttur í Kastljósi 7. febrúar 2023.

Það var látið gott heita að Sólveig Anna kenndi „íslenskri valdastétt, pólitískri og efnahagslegri“ um skilyrði í ákvæðum laga um þátttöku í atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu sáttasemjara. Þessum ákvæðum í lögunum var ekki þröngvað upp á verkalýðshreyfinguna, þvert á móti.

Lára V. Júlíusdóttir, lögfræðingur sérhæfð í vinnulöggjöfinni, sagði í Silfriríkissjónvarpsins sunnudaginn 5. febrúar að ákvæðin um þetta sem sett voru í lög árið 1996 hefðu verið reist á tillögum frá vinnuveitendum og ASÍ, báðum aðilum vinnumarkaðarins. Það væri því rangt að þessu hefði „verið troðið ofan í almenning í landinu“ eins og nú væri sagt. Það var sameiginleg niðurstaða aðila vinnumarkaðarins að breyta þessum viðmiðunum „til að gera þetta tæki ríkissáttasemjara um miðlunartillögu effektívara heldur en hafði verið,“ sagði Lára.

Sjálf naut Sólveig Anna stuðnings aðeins um 8% félagsmanna Eflingar þegar hún náði kjöri og taldi það stórsigur. Það er ekki nema von að henni vaxi í augum að fá 25% af 20.000 Eflingarfélögum að kjörborðinu til að hafna miðlunartillögunni. Hún neitar að skila kjörskrá af ótta við atkvæðagreiðsluna.

Vitað var að Sólveig Anna gengi aldrei til neinna samninga án þess að hafa fyrst sýnt vald sitt með verkföllum. Nú er verkfall hafið á sjö hótelum eins fyrirtækis í Reykjavík. Í næstu viku á að stöðva olíudreifingu og loka fleiri verkföllum. Skæruhernaðurinn er hafinn samhliða því sem allt er gert til að lýðræðisleg niðurstaða fáist meðal allra félagsmanna Eflingar hvort þeir vilji halda áfram að fá lægri laun en aðrir innan Starfsgreinasambandsins (SGS).

Eflingarfélagar hafa ekki fengið launahækkun sem nemur 78.600 kr. á mánuði líkt og annað verkafólk í SGS. Það eru samtals 100 dagar síðan samningur SA og Eflingar rann út og því nemur uppsafnað tap vegna skorts á afturvirkni samtals 258.411 kr., segir á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins. Ekki var bent á þessa staðreynd í drottningarviðtalinu í gær.

Hatrammar árásir formanns Eflingar á ríkissáttasemjara í eintali i sjónvarpssal leysa ekki hnútinn sem herðist meira og meira.

Spurning er hvað forysta Eflingar, Sólveig Anna og dagskrárstjóri hennar Viðar Þorsreinsson, þurfa að hafa valdið eigin félagsmönnum og þjóðarbúinu öllu miklum skaða áður lausn finnst. Svarið við því veit enginn.

3 Comments on “Drottningarviðtal til varnar lögbroti”

  1. Það er ótrúlegt hvernig er ráðist á verklýðsbaráttu hinna lægst launuðu í þessu landi. Í þeim löndum sem ég hef búið erlendis, ber fólk almennt virðingu fyrir tilraunum annarra til að ná betri kjörum, í stað þess að öfundast út þau.

    ég er enginn aðdáandi Sólveigar, en hún hefur verið gerð að einhverri grýlu fyrir það eitt að vera harður samningsaðili og vilja standa sig vel fyrir sína umbjóðendur.

    … hvers vegna er deiluaðilum ekki gefinn kostur á að leysa sínar deilur án þess að þurfa sífellt að svara fyrr skítkast frá hvort öðru í fjölmiðlum?

    Barátta Eflingar fyrir betri kjörum ætti að vera studd af öllum launþegum; allir launþegar eru í svipaðri stöðu; þeir þurfa að semja um sín laun. Ef það sem launagreiðendur bjóða er ekki ásættanlegt fyrir launþega, þá er hægt að þvinga fram betri samninga með verkföllum.

    Svona hefur verkalýðsbarátta farið fram frá upphafi en nú hefur áróður og innræting gert verkföll að einhverju illu, sem er verkafólki að kenna, þrátt fyrir að það er boðliggjandi að deilan er báðum að kenna. Því áróðursmaskínan lætur ekki að sér hæða og mörg okkar hafa lítið huglægt viðnám gegn endurteknum áróðri, sem við sífellt verðum fyrir.

    Ef SA vill forðast verkföll, þá þurfa þeir bara að setjast niður með Eflingu og semja við þau um laun sem Eflingar meðlimir geta sætt sig við.

    Erfiðara er það ekki.

    Ef SA hefði gert það í upphafi, þá hefðum við ekki verkföll núna …. því sjaldan veldur einn þá tveir deila.

Skildu eftir skilaboð