Háskólinn í Ghent bannar bók eigin prófessors

frettinTjáningarfrelsi, Þorsteinn SiglaugssonLeave a Comment

Eftir Þorstein Siglaugsson:

Líklega hefur enginn varpað skýrara ljósi á sálrænar orsakir þess sjúklega óttafaraldurs sem greip um sig fyrir tæpum þremur árum, þegar veirusjúkdómur með 99,85% lífslíkur kom fram á sjónarsviðið, en belgíski sálfræðiprófessorinn Mattias Desmet. Ég gerði grein fyrir meginatriðunum í kenningu Desmet í erindi sem ég hélt fyrir rétt rúmu ári, á baráttufundi samtakanna Frelsi og ábyrgð gegn áformum um bólusetningu barna gegn kórónuveirunni, og held að sú lýsing standi enn ágætlega fyrir sínu:

Belgíski sálfræðiprófessorinn og tölfræðingurinn Matthias Desmet hefur lýst því ástandi sem ríkt hefur síðan kórónakreppan hófst með hugtakinu mass-hypnosis, sem þýða mætti á íslensku sem fjöldadáleiðslu eða múgsefjun: „Hin sameiginlega barátta gegn veirunni skapar eins konar vímu sem leiðir til þess að sýnin á veröldina þrengist gríðarlega; öllu öðru, svo sem neikvæðum afleiðingum baráttunnar, er ýtt til hliðar“ segir Desmet. Það kemst ekkert að nema veiran og óttinn við hana, veira sem á endanum er álíka hættuleg og pestirnar sem gengu yfir heiminn 1957 og 1968, en fæstir kannast lengur við, eins og sagnfræðingurinn Niall Ferguson gerir grein fyrir í nýjustu bók sinni.

Í samfélagi þar sem tilgangsleysi, einangrun og kvíði ríkja getur tilkoma nýrrar ógnar hrundið af stað sjálfsprottinni sefjun. Kvíðinn fær skyndilega viðfang – veiruna hræðilegu, einangrunin er rofin; við erum öll í þessu saman, lífið öðlast tilgang; að vinna sigur á ógninni. Ummerkin sjáum við allt í kringum okkur: Öllu sem ýtir undir óttann er tekið opnum örmum. Staðreyndir, röksemdir og gögn hætta að skipta máli. Hin raunverulega ógn hættir að skipta máli (engu skiptir þótt dánarhlutfall sé komið langt niður fyrir dánarhlutfall inflúensu, þröskuldurinn færist bara sífellt neðar). Þeir sem efast eru óvinir sem verður að þagga niður í. En þeir sem viðhalda óttanum hljóta goðum líka stöðu í huga hinna dáleiddu. Líkt og Desmet segir verður sefjunin sjálf á endanum sjálfstætt markmið, hluti af sjálfsmyndinni. „Ég er veiran, veiran er ég“ eins og Óttar Guðmundsson geðlæknir lýsti þessu sálarástandi í viðtali fyrir ári síðan.

Og siðferðilegu afleiðingarnar eru grafalvarlegar. Sá dáleiddi sér ekkert nema viðfang óttans. „Dóttir mín spurði, dey ég ef ég fer út?“ sagði ung kona sem var fangelsuð í sóttkví í tæpan mánuð í viðtali við RÚV í haust. „Það deyja fimm manns á dag í Danmörku“ sagði maður um daginn í athugasemd í umræðuþræði, og var að svara ábendingu um að Danir væru að komast út úr krísunni. Í raun og veru deyja 150 manns í Danmörku á dag. En hinir 145 sem ekki deyja úr kórónaveirunni skipta hins vegar engu máli í huga þess dáleidda. Milljónirnar sem deyja úr hungri vegna lokana og hindrana um heim allan skipta engu máli. Ekkert skiptir máli annað en þessi eina veira og að viðhalda og næra óttann við hana. Það er með vissum hætti mótsagnakennt hvernig öll samkennd, samúð og tillitssemi gagnvart öðrum hverfur um leið og samstaðan og sjálfsfórnarviljinn í baráttunni við óvininn styrkist.“

Kenning Desmet vakti mikla athygli strax á árinu 2020 í heimalandi hans, Belgíu, og eftir að Dr. Robert Malone tók kenningu hans upp á sína arma vakti hún heimsathygli. Desmet hefur svo sannarlega ekki farið varhluta af gagnrýni og oft persónulegum árásum, og það úr mörgum áttum, einnig frá þeim sem líkt og hann hafa gagnrýnt kórónukreppuna, en frá öðru sjónarhorni.

Nú hefur atlagan að þessum hugrakka sálfræðiprófessor hins vegar færst á annað stig, þar sem háskólinn í Ghent hefur nú lagt bann við því að hann styðjist við bók sína í námskeiði sem hann kennir þar. Til stuðnings þessu banni, sem í raun má vel jafna til bókabrenna fyrr á öldum, og á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar, vísa háskólayfirvöld í gagnrýniraddir á netinu. Þann 8. febrúar birti Desmet grein þar sem hann greinir frá þessu og hrekur staðhæfingar háværasta gagnrýnandans og þess sem vakið hefur mesta athygli, og sýnir fram á hvernig þær grundvallast að stærstum hluta á ósannindum.

Greinin birtist fyrst á Krossgötur 9. febrúar 2023.

Skildu eftir skilaboð