Íslandsbanki verður 2007-sjóður

frettinPáll Vilhjálmsson, Pistlar, ViðskiptiLeave a Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson:

Kvika banki er áhættufjárfestir en Íslandsbanki viðskiptabanki. Áhættufjárfestar veðja eigin peningum og annarra en líður þó best í þeirri stöðu að þjóðnýta tapið þegar illa árar. Með samruna Kviku og Íslandsbanka eru áhættufjárfestar komnir með yfir þriðjung íslenska bankakerfisins í sínar hendur.

15 árum eftir hrun.

Menn taka meiri áhættu sé hægt að þjóðnýta tapið. Kvika-Íslandsbanki ryður brautina fyrir hina viðskiptabankana tvo. Taka aukna áhættu, það gefur bónusa til bankamanna og efnahagsreikningurinn stækkar. Allt í lukkunnar velstandi því áhættan er öll hjá almenningi og ríkissjóði.

15 árum eftir hrun.

Stærra er betra, segja menn. Það verður hægt að fá hagstæðari lán frá útlöndum til að fjármagna áhætturekstur á Íslandi. Góðærið hefur staðið í tylft ára, upp á dekk eru komnir snillingar, blautir á bakvið eyrun eins og 2007-kynslóð bankamanna.

15 árum eftir hrun.

Tilfallandi höfundur er ekki í viðskiptum hjá Íslandsbanka. Eiginkonan er það aftur á móti. Eftirfarandi skilaboð verða send yfir morgunverðaborðið: Bogga mín, áhættufíklarnir eru aftur komnir á kreik, já, á nýrri kennitölu. Þeir blása upp eignablöðrur en flýja með ferðatöskur af reiðufé til útlanda á Sagaklass um leið og hún springur, skilja eftir sig sviðna jörð fyrir okkur hin. Forðaðu peningunum þínum áður en það er um seinan. Íslandsbanki er svo gott sem orðinn áhættusjóður.

15 árum eftir hrun.

Skildu eftir skilaboð