Joseph Pannullo, bæjarstjóri East Hanover í New Jersey, og allir fjórir kjörnu fulltrúar bæjarstjórnarinnar hafa gengið úr demókrataflokknum og yfir í repúblikanaflokkinn. Um er að ræða algjöra umpólun í flokkspólitík þessa rúmlega 11 þúsund manna bæjar.
Auk bæjarstjórans Pannullo eru það forseti bæjarstjórnarinnar Frank DeMaio yngri og bæjarstjórnarfulltrúarnir Carolyn Jandoli, Brian Brokaw eldri og Michael Martorelli sem gengið hafa í repúblikanaflokkinn.
„Leiðtogar sveitarfélaga bera ábyrgð á því að vera sem bestu fulltrúar kjósenda sinna og það er trú okkar að þessi flokksskipti séu samfélaginu fyrir bestu. Þar sem andstyggileg orðræða og grimd samfélagsmiðlanna sem tröllríður landspólitíkinni heldur áfram að síast inn í sveitarstjórnarmálin, ákváðum við sameiginlega að þetta væri besta leiðin til að halda áfram að einbeita sér að staðbundnum málum sem hafa áhrif á samfélag okkar. Sérhver ákvörðun sem stjórnin mín tekur snýst um að setja East Hanover í fyrsta sæti; þetta er ekkert öðruvísi,“ sagði Pannullo sem verið hefur bæjarstóri í 16 ár og þar áður bæjarfulltrúi í 9 ár.
Þó svo ríkisstjóri New Jersey fylkis sé demókrati og fylkið halli enn töluvert til vinstri vegna tveggja öldungadeildarþingmanna fylkisins úr röðum demókrata varð veruleg breyting til hægri í fylkinu árið 2021. Þá sigraði repúblikaninn Ed Durr, vörubílstjóri með nánast enga pólitíska reynslu, demókratann Steve Sweeney, forseta öldungadeildar New Jersey fylki og helsta leiðtoga demókrata í fylkinu. Kosningasigur Durr olli vandræðum fyrir demókrata sem einu sinni héldu að New Jersey væri þeirra örugga fylki.
Í viðtali eftir kosningasigur sinn, sagði Durr: „Þegar einhver er að rugla í fjölskyldunni þinni muntu gera hvað sem er“ og bætti við „Ríkisstjórinn var að rugla í fjölskyldum fólks. Þegar ruglað er í vinnu einhvers, lífsviðurværi þeirra, heimili þeirra, börnum þeirra - fólk bara sættir sig ekki við slíkt.“