Orson, Úkraína og ógnin að ofan

frettinErlent, Páll Vilhjálmsson, ÚkraínustríðiðLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Útvarpsleikrit Orson Wells árið 1938, Innrásin frá Mars, vakti hræðslu í Bandaríkjunum. Leikritið var sviðsetning og sýndi smithættu skelfingar. Leikritið er gleymt en lærdómurinn lifir. Ótti er öflugt vopn í pólitík. Innrás frá Mars er ekki yfirvofandi en framandi loftför ógna ítrekað þjóðaröryggi Bandaríkjanna.

Eins og útvarpsleikritið 1938 var skáldskapur eru kínversku belgirnir, ef þeir eru þá frá Kína, sviðsetning. Munurinn er sá að Wells var listamaður sem las í samtíð sína en nú eru það yfirvöld sem skálda ógn við bandarískt þjóðaröryggi.

Bandaríkin eru ekki á leið í herleiðangur gegn Kína. Líklegri skýring á hræðsluáróðrinum er félagssálfræðilegur með rætur í djúpvitund valdakerfisins.

Alla þessa öld hafa Bandaríkin fengið á kjaftinn í hernaðarævintýrum á erlendri grundu. Afganistan, Írak, Sýrland eru stráð brotnum bandarískum draumum. Yngsta ævintýrið er í Úkraínu. Pentagon gaf út fyrir nokkru að Úkraína muni tapa stríðinu við Rússa. Í Pentagon sitja atvinnumenn sem skilja hernað.

Heiminum er á hinn bóginn ekki stjórnað með hernaði heldur pólitík. Ef Úkraína tapar stríðinu verður að undirbúa þær fréttir. Komi þær eins og þruma úr heiðskíru lofti er hætt við að leit hefjist að sökudólgum. Bandaríkin vilja ekki sakbendingu. Það verður að hanna frásögn um fyrirsjáanlegan ósigur í Garðaríki.

Hvað verður gert?

Í fyrsta lagi þarf að sýna fram á Úkraínumenn geti sjálfum sér um kennt. Stjórnvöld séu spillt og njóti ekki almenns stuðnings. Stjórnin í Kænugarði hefði betur átt að semja við Rússa um rússneskumælandi austurhéruð og láta ekki sverfa til stáls.

Í öðru lagi að þrátt fyrir allt sé Úkraína ekki lífsnauðsynleg Bandaríkjunum heldur langt-í-burtu-land. Repúblíkanar á bandaríkjaþingi tala á þessum nótum og orð þeirra fá meira vægi næstu misserin.

Í þriðja lagi að Bandaríkin eigi nóg með sig. Þjóðaröryggi sé ógnað á heimavígstöðvum. Torkennileg loftför skotin niður af herþotum eru hentug myndræn framsetning.

Til hliðar við hönnun frásagnar verður gripið til ráðstafana í Evrópu, einkum Austur-Evrópu, til að lina þjáningarnar af úkraínskum ósigri. Pólverjum verður sennilega gefinn laus taumurinn í Vestur-Úkraínu, en á eigin ábyrgð. Ef Rússar skjóta á pólska hermenn í Úkraínu verður Nató ekki virkjað. Það yrði undir Pólverjum komið að semja við Pútín um hvort og þá hvaða hluta Úkraínu þeir fengju í sinn hlut.

Leikrit Orson Wells varpaði ljósi á bandaríska þjóðarsál. Hún er bernsk og trúgjörn. Ýmsar bábiljur samtímans eiga uppruna sinn þar vestra, t.d. manngert veður og transmenning. Sannfærð um eigin yfirburði trúir þjóðin að ekkert framandi afl leyfi sér að kássast upp á strandlengjuna. Ógn Bandaríkjanna hljóti alltaf að koma af himnum ofan, frá Mars eða Kína.

Dularfulla loftbelgjamálið segir þá sögu að bandarískur hugmyndaheimur færist nær einangrunarhyggju en fjær hlutverki lögreglu í heimsþorpinu.

Skildu eftir skilaboð