Að standa með eigin raunveruleika – frá fundi Málfrelsis

frettinKrossgötur, MannréttindiLeave a Comment

Eftir Svölu Magneu Ásdísardóttur:

Málfrelsi – samtök um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi, stóð fyrir öðrum málfundi sínum á árinu, þriðjudaginn 14. febrúar. Yfirskrift fundarins var „Tjáningarfrelsi, vald og „woke““.

Þorsteinn Siglaugsson, formaður Málfrelsis, fjallaði um „woke“ hugmyndafræðina og hvernig beiting hennar virðist nú drífa áfram útilokun, þöggun og ritskoðun. Hann nefndi nýlegt dæmi um hvernig samkynhneigðir unglingar á Bretlandi þora nú ekki að viðurkenna kynhneigð sína og rifjaði í því sambandi upp stöðu þessa hóps fyrir 50 árum síðan. Hann velti fyrir sér hvort sagan væri að endurtaka sig hvað þetta varðar, og vísaði einnig til þeirra fordóma og sleggjudóma sem komið hafa upp á yfirborðið í kórónufaraldrinum, ásamt þöggun og ritskoðun.

Þorsteinn nefndi hvernig „woke“ birtist í helgisiðakenndum athöfnum gerræðissinnaðra stjórnmálamanna á borð við Justin Trudeau, sem árið 2020 „tók hnéð“ til að sýna með yfirborðslegum hætti stuðning við málstað svartra, en réðist tveimur árum síðar með offorsi gegn þeim sem mótmæltu löglausu ofbeldi hans í faraldrinum og gekk svo langt að saka þingmenn, sem kröfðust þess að stjórnarskrá væri fylgt, um nasisma. „Woke“ sem áður stóð fyrir réttindabaráttu, stendur nú fyrir óþol gagnvart öðrum skoðunum, skilyrðislausa hlýðni og þátttöku í innantómum helgisiðum. Sú hugsjón um réttlæti til handa undirokuðum, stéttabaráttu og róttækar samfélagsbreytingar sem „woke“ stóð upphaflega fyrir, er að engu orðin; það hefur breyst í vopn sem alþjóðleg risafyrirtæki og valdagráðug stjórnvöld nota til að hindra gagnrýni og halda niðri kröfum um samfélagsbreytingar.

Iva Adrichem, söngkona og laganemi, hélt síðara erindi kvöldsins. Það vakti athygli þegar myndskeið með Ivu voru fjarlægð út úr myndbandi Ferðamálastofu, Öryrkjabandalags Íslands og Sjálfsbjargar þar sem fjallað var um gott aðgengi fatlaðra, og vísað til skoðana hennar, í kjölfar þess að hún gerði athugasemdir við frumvarp til laga um bælingarmeðferðir. „Ég haga mér illa“ sagði Iva. „Ég uppfylli ekki þær staðalmyndir og skoðanir sem er ætlast til af mér sem fatlaðri, feminískri lesbíu af blönduðum uppruna.“ Iva sagðist ekki tilbúin til að fallast á þá skoðun að allir sem tilheyrðu minnihlutahópum væru kúgaðir og jaðarsettir. Hún segist hafa hafnað því að taka þátt í eigin jaðarsetningu, en haga sér eins og henni sýndist og hafa þær skoðanir sem henni sýndist, svo lengi sem það skaðaði ekki aðra.

Iva segist fyrir fáum árum hafa byrjað að taka þátt í feminískri baráttu, og því hafi ekki verið vel tekið. Hún fór lauslega yfir málið varðandi myndband Ferðamálastofu og greindi frá því að stofnunin hefði síðastliðið haust tekið þá ákvörðun að fjarlægja myndefni með henni, en án þess að segja henni frá því, að þeirra sögn til að „særa hana ekki“, sem sé vitanlega vísbending um ákveðið viðhorf gagnvart henni sem fullorðinni konu í minnihlutahópi. Ferðamálastofa hefur hafnað því að biðjast afsökunar, en hins vegar sýnt þá bíræfni að krefja Ivu sjálfa um afsökunarbeiðni vegna skoðana hennar! Iva sagðist aðeins hafa forherst við þessi viðbrögð. „Ég ætla að hegða mér illa“ sagði hún að lokum, „ég ætla að standa með mínum eigin skoðunum og ég ætla ekki að afneita eigin raunveruleika“.

Líflegar umræður urðu í kjölfar erindanna, sem Baldur Benjamín Sveinsson stýrði, og lögðu flestir sem tjáðu sig mikla áherslu á tjáningarfrelsið og mikilvægi þess að standa saman um að vernda það, með vináttu og gagnkvæma virðingu að leiðarljósi.

Fundinn má sjá í heild sinni hér neðar:

Greinin birtist fyrst á Krossgötur 16.02.2023

Skildu eftir skilaboð