Ákall til fjármálastofnana um samfélagslega ábyrgð, aukna og samhæfða þjónustu

frettinFjármálLeave a Comment

Hagsmunasamtök heimilanna sendu frá eftirfarandi fréttatilkynningu:

ÁHRIF VAXTAHÆKKANA

Borið hefur á því í fyrirspurnum til Hagsmunasamtaka heimilanna vegna aukinnar greiðslubyrði lána að einstaklingar fái ekki alltaf þá þjónustu sem þeir þarfnast og eiga tilkall til, hjá viðskiptabanka sínum. Af þeim sökum sendu samtökin fyrirspurn til þjónustudeilda allra viðskiptabanka heimilanna, í desember síðastliðnum. Það er áberandi við nánari ígrundun á svörum bankanna og fyrirspurnum sem til samtakanna hafa borist, að skortur er á samhæfðri þjónustu vegna þeirrar stöðu sem uppi er í samfélaginu. Eina niðurstaðan sem hægt er að draga af þessum skorti er ábyrgðar- og sinnuleysi fjármálastofnanna gagnvart þeim kostnaðarauka sem þeir hafa varpað yfir á heimilin, þegar hagnaður af starfseminni er langt fyrir ofan ásættanlega arðsemi. Við auknum greiðsluerfiðleikum heimila þurfa fjármálastofnanir að bregðast við með samfélagslegri ábyrgð.

Þjónustan við lántakendur í greiðsluvanda vegna vaxtahækkanna virðist því æði misjöfn og oftar en ekki er lántakandi sendur að tilhæfulausu í greiðslumat, sem getur kostað frá 5.500 til 14.000 krónur. Flestir sem leitað hafa síðan eftir aðstoð Hagsmunasamtaka heimilanna fá að lokum úrlausn sinna mála með aðstoð og leiðbeiningu frá ráðgjafa Hagsmunasamtaka heimilanna. Hagsmunasamtök heimilanna senda því fjármálastofnunum ákall um að stíga fram í sinni þjónustu á komandi ári og hafa m.a. eftirfarandi í huga:

Samkvæmt lögum um undanþágur frá lánshæfis- og greiðslumati vegna fasteignalána, þarf banki ekki að framkvæma nýtt greiðslumat vegna skilmálabreytinga sem ekki leiða til meira en 20% hækkunar á greiðslubyrði lána. Þar að auki ber viðskiptabanka skylda til þess að mæta viðskiptavini sem á við skammvinnan greiðsluvanda að stríða. Reglur um hámark greiðslubyrðarhlutfalls gilda ekki um samninga um fasteignalán vegna endurfjármögnunar sökum greiðsluerfiðleika neytenda, sem kann að hækka höfuðstól láns.

Í því sambandi má minna á að bönkunum bar ekki skylda til að hækka álögur sínar, þ.e.a.s. að hækka vexti lána umsvifalaust í kjölfar stýrivaxtahækkanna ítrekað og síendurtekið. Þar að auki má minna á að fyrir um það bil þremur árum var því haldið að lántakendum að nú væri Ísland komið inn á lágvaxtatímabil fasteignalána. Stór hópur lántakenda tók því lán með breytilegum vöxtum í góðri trú.

Hagsmunasamtök heimilanna

(Nánari upplýsingar veitir Kristín Eir Helgadóttir í síma: 616 1018)

Skildu eftir skilaboð