Fréttin sagði frá því um síðustu helgi að kona hafi rekist á karlmann í kvennaklefa Dalslaugar þar sem hann var að klæða sig í fötin. Samkvæmt svörum frá starfsfólki Dalslaugar er trans konum heimilt að nota kvennaklefa og trans körlum heimilt að nota karlaklefa, þrátt fyrir að fólkið sé enn með sín upprunalegu kynfæri. Sömu svör fengust frá starfsfólki Laugardalslaugar og bent var á að þetta væri samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar.
Fólki sem ekki vill eiga það á hættu að rekast á aðila af „gagnstæðu kyni“ í búningsklefum sundlauganna er bent á að nota sérklefa, sem transfólki er einnig frjálst að nota en ekki er hægt að skikka það til þess frekar en aðra.
Reglurnar samkvæmt mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar
Samkvæmt svari mannréttindastjóra Reykjavíkurborgar, Önnu Kristinsdóttur, eru þessar reglur samkvæmt mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar:
„Við fylgjum lögum nr. 80/2019 um kynrænt sjálfræði og mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar. Lög um kynrænt sjálfræði heimila fólki að breyta sinni kynskráningu án þess þó að þurfa að fara í kynleiðréttingu (þ.e. gera breytingar á líkama sínum).
Einnig taka lögin fram að fólk sem hefur breytt opinberri skráningu kyns síns nýtur allra þeirra réttinda að lögum sem skráð kyn ber með sér. Í mannréttindastefnunni kemur fram að óheimilt sé að mismuna fólki vegna kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar eða kyneinkenna. Þar af leiðandi getur trans fólk nýtt sér kyngreind rými óháð því hvernig líkamar þeirra eru.
Sérklefar eru í boði fyrir alla gesti í sundlaugum Reykjavíkurborgar, en það er engum skylt að nota þá. Þeir hafa þó komið mörgu trans fólki til góða sem hefur kosið að nota þá. Það er okkur mjög mikilvægt að öllum gestum líði vel í sundi/íþróttum. Í Reykjavík býr alls konar fólk sem hefur ólíkar þarfir og skoðanir. Við reynum að mæta þörfum allra en horfum um leið til ofangreindra laga og mannréttindastefnunnar, segir í svari Reykjavíkurborgar.“
Reglurnar gilda ekki um önnur sveitarfélög
Að trans fólk geti nýtt sér kyngreind rými óháð líkama á þó aðeins við um sundlaugar Reykjavíkurborgar enda eru reglurnar samkvæmt mannréttindastefnu Reykjavíkur en ekki samkvæmt lögum nr. 80/2019 um kynrænt sjálfræði.
Haft var samband við sundlaugar í Kópavogi og Hafnarfirði þar sem trans fólki sem enn er með sín upprunalegu kynfæri er ekki leyfilegt að nota búningsklefa fyrir fólk af „gagnstæðu kyni.“ Þar er trans fólki boðið að nota sérklefa ef viðkomandi er „í ferli“ og hefur ekki breytt kynfærum sínum.
Til samanburðar var vísað í reglur með börn. Séu börnin komin í fyrsta bekk grunnskóla eiga stúlkur ekki að fara í karlaklefa með feðrum sínum og drengir ekki í kvennaklefa með mæðrum sínum.