Yfirgnæfandi meirihluti aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna (SÞ) samþykkti í gærkvöldi ályktun um viðvarandi frið í Úkraínu á neyðarfundi í allsherjarþingi SÞ.
Atkvæði féllu þannig að 141 ríki kaus með ályktuninni, 7 á móti og 32 ríki sátu hjá og var því ályktunin samþykkt með afgerandi meirihluta, en 2/3 atkvæða þurfti til. Úkraína lagði fram drögin að ályktuninni með fulltingi Íslands og fjölda annarra landa.
Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, flutti ræðu Íslands á fundinum. Hann áréttaði afstöðu Íslands og sagði að innrás Rússlands í Úkraínu væri skýlaust brot á stofnsáttmála og mannréttindayfirlýsingu SÞ og jafnframt grófa aðför að alþjóðakerfinu. Hann sagði stríðið í Úkraínu og afleiðingar þess á heimsvísu vera algjörlega á ábyrgð Rússlands og nauðsynlegt væri að ríkið standa skil á gjörðum sínum. Aðildarríki SÞ yrðu jafnframt að standa vörð um Úkraínu, alþjóðalög og gildi SÞ. Martin ítrekaði einarðan stuðning Íslands og samstöðu með Úkraínu, líka í hlutverki sínu sem formennskuríki í Evrópuráðinu.
Neyðarfundurinn var haldinn í tilefni af þess að rétt ár er liðið frá því Rússland réðist inn í Úkraínu. Var ályktunin sú sjötta sem lögð hefur verið fram í allsherjarþinginu um Úkraínu frá því að stríðið hófst þann 24. febrúar 2022. Allar ályktanirnar hafa verið samþykktar með yfirgnæfandi meirihluta.
One Comment on “Yfirgnæfandi stuðningur um frið í Úkraínu á þingi Sameinuðu þjóðanna”
UN eru ekkert annað enn leikvöllur BNA, bölvaður kaninn er með nánast allann heiminn undir einræðishælnum á sér!