Eftir Eld Deville:
„Ef við hættum að geta lýst raunveruleikanum, þá getum við ekki lengur staðið vörð um áunnin réttindi okkar“
Samtökin 22 – Hagsmunasamtök Samkynhneigðra voru stofnuð fyrir ári síðan.
Við höfum verið mikið í fjölmiðlum að undanförnu vegna umsagnar okkar til Alþingis við frumvarp um bann á svokölluðum bælingarmeðferðum og svo vegna hegðunar Ferðamálastofu, ÖBÍ og Sjálfsbjargar gagnvart Ivu Marín Adrivhem sem var með í að stofna samtökin okkar á sínum tíma.
Við viljum gjarnan fá að koma eftirfarandi á framfæri um okkur, starfsemi okkar og hvað við stöndum fyrir.
Framtíðarsýn okkar er sú að lesbíur og hommar búi í samfélagi án mismununar eða fordóma vegna samkynhneigðar sinnar. Við viljum efla og standa vörð um réttindi og hagsmuni samkynhneigðra í hvívetna. Við munum tryggja að raddir lesbía og homma heyrist í allri opinberri og pólitískri umræðu sem hefur áhrif á líf okkar. Áhersla er lögð á tvíþætta mismunun sem aðallega lesbíur standa frammi fyrir. Við gefum röddum lesbía aukið rými til þess að tjá þá tvíþættu mismunun sem lesbíur búa við og upplifa sem samkynhneigðar konur.
Við viljum vernda börn sem kunna að alast upp og verða hommar og lesbíur. Við vinnum að því að vernda börn gegn skaðlegri, óvísindalegri hugmyndafræði sem gæti leitt til þess að þau trúi því að annað hvort persónuleiki þeirra eða líkami þurfi að breytast. Öll börn sem alast upp og verða að hommum eða lesbíum eiga rétt á því að vera hamingjusöm og örugg um kynhneigð sína og hver þau eru.
Gildi okkar
Við byggjum samskipti okkar á virðingu. Við ræðum, leggjum til og mótmælum hugmyndum og málefnum. Við förum í boltann, ekki manninn. Ágreiningur jafngildir ekki hatri. Við hvorki leyfum, né styðjum hvers kyns móðgandi eða mismununarhegðun í garð nokkurs hóps eða einstaklings. Við vinnum í samvinnu, stöndum saman, deilum upplýsingum og byggjum upp tengsl við hópa og einstaklinga með sama hugarfari. Við viljum vera leiðandi með seiglu í samfélaginu til þess að ná jákvæðum árangri.
Staðreyndir skipta máli
Nálgun okkar er að skoða staðreyndir og gögn til þess að geta tekið upplýstar og mest áreiðanlegar ákvarðanir og miðla þeim á málefnalegan og heiðarlegan hátt. Löggjöf, stefna, leiðbeiningar og ákvarðanir sem snerta homma og lesbíur verða að byggjast á gagnreyndum staðreyndum.
Við miðlum hugmyndum og tökum þátt í rökræðum, byggt á skýrum og nákvæmum skilgreiningum. Við styðjum lagalega og vísindalega skilgreiningu á samkynhneigð sem kynhneigð gagnvart fólki af sama kyni, og á tvíkynhneigð sem kynhneigð gagnvart fólki af báðum kynjum.Líffræðilegur raunveruleiki
Við gerum okkur grein fyrir að kyn er tvískipt; kvenkyns og karlkyns, og (fyrir langflest fólk) er kynið ákvarðað við getnað, sést við fæðingu (eða í móðurkviði) og skráð. Við höfnum því að afar sjaldgæf frávik sem teljast til ódæmigerðra kyneinkenna/DSD/Intersex dragi í efa tvíhliða eðli kyns.
Við styðjum æxlunarréttindi kvenna og líkamlegt sjálfræði. Við stöndum með lesbíum í því að hafna þrýstingi sem þær eru beittar til þess að samþykkja karla eða karlmenn sem skilgreina sig sem konur sem rekkjunauta eða hleypa þeim á annað borð á vettvang sem er ætluðum lesbíum. Að sama skapi stöndum við með körlum í því að hafna þrýstingi um að samþykkja konur eða konur sem skilgreina sig sem karla í sömu aðstæðum.
Pólitískt óháð
Við erum ekki flokkpólitísk. Við eigum samskipti við samtök, fjölmiðla o.fl. með margvíslegar stjórnmálaskoðanir. Hins vegar munum við ekki mynda tengsl eða þiggja fjármögnun frá neinum samtökum sem deila ekki gildum okkar eða sem við teljum að séu í grundvallarréttindum fjandsamleg réttindum homma og lesbía.
Við miðlum hugmyndum og tökum þátt í umræðum byggt á skýrum og nákvæmum skilgreiningum, án öfga og upphrópana.
Við styðjum lagalega og vísindalega skilgreiningu á samkynhneigð (e. homosexuality) og ætlum okkur að verja hagsmuni þeirra sem eru samkynhneigðir.
Ef við hættum að geta lýst raunveruleikanum, þá getum við ekki lengur staðið vörð um áunnin réttindi okkar.
Höfundur er formaður Samtakanna 22, hagsmunasamtaka samkynhneigðra. Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. mars 2023.