Biden-stjórnin hafnaði beiðni tennisleikarans Novak Djokovic um undanþágu frá Covid „bólusetningu“ til að geta ferðast til Bandaríkjanna. Djokovic neyddist því til að draga sig úr Indian Wells og Miami mótunum sem fara fram í þessum mánuði.
Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, varpaði fram þeirri hugmynd að leigja bát fyrir tennisstjörnuna frá Bahamaeyjum til Miami til að geta keppt á Opna Miami mótinu í Flórída.
„Hann ætti að fá að keppa. Ég myndi leigja bát frá Bahamaeyjum og hingað fyrir hann. Ég myndi gera það, 100 prósent,“ sagði DeSantis.
„Ég held að fólkið hans sé að skoða það og er ekki viss um að það sé leiðin sem það vilji koma inn í landið, sem ég skil. En ég held að það yrði frábært.“
„Bandaríkjunum stafar engin hætta af Djokovic, ekki heldur Flórída-ríki og ekki Miami,“ bætti DeSantis við.
Á þriðjudag skrifaði DeSantis bréf til Biden þar sem hann fordæmdi þá siðlausu og óvísindalegu stefnu að banna „óbólusettum“ erlendum flugfarþegum að koma til Bandaríkjanna. Í bréfi til forsetans skrifar DeSantis meðal annars: „Mér er heldur ekki ljóst, jafnvel samkvæmt þínum eigin skilmálum, hvort herra Djokovic geti komist löglega inn í landið með báti. Vinsamlegast staðfestið eigi síðar en föstudaginn 10. mars 2023 hvort þessi ferðamáti til Flórída væri mögulegur.“
„Það eina sem kemur í veg fyrir að Djokovic taki þátt í Opna Miami mótinu er misráðin og óvísindaleg krafa Biden forseta um COVID-19 bólusetningu fyrir erlenda ferðamenn. Herra forseti – afléttu takmörkunum þínum og leyfðu honum keppa,“ tísti DeSantis með bréfi sínu sem lesa má hér neðar.
Sá til þess að allir gætu keppt á Olýmpíuleikum fatlaðra
Síðasta sumar sá DeSantis til þess að allir gátu keppt á Ólympíuleikum fatlaðra í Flórída, óháð bólusetningastöðu. Ríkisstjórinn hótaði stjórn Ólympíusambandsins 27,5 milljóna dollara sekt, félli sambandið ekki frá kröfu um skyldubólusetningu fyrir leikana. Í Flórída eru skyldubólusetningar bannaðar með lögum en Ólympíusambandið ætlaði að meina óbólusettu fötluðu fólki að taka þátt í leikunum þar.
Stjórn sambandsins lét að lokum undan þrýstingi frá embættismönnum í Flórída og felldi niður skyldubólusetningu fatlaðra íþróttamanna.