Páll Vilhjálmsson skrifar:
Stofnandi Wikileaks, Julian Assange, er fyrir rétti í London. Úrskurðað verður hvort hann skuli framseldur til Bandaríkjanna þar sem bíða hans ákærur um að opinbera hernaðarleyndarmál. Kristinn Hrafnsson tók við af Assange sem stjórnandi Wikileaks 2018 en hafði verið í slagtogi með stofnanda Wikileaks frá 2010, ef ekki fyrr.
Kristinn er í London að fylgjast með afdrifum Assange. Hann skrifar á Facebook:
Sakirnar eru að stunda blaðamennsku. Margmenni er fyrir utan dómhúsið. Þar er fólkið sem skilur að framtíð blaðamennsku í heiminum kann að vera í húfi.
Landslið vinstrimanna tekur undir með ritstjóra Wikileaks. Helga Vala Helgadóttir fyrrv. þingmaður, Þórunn Sveinbjarnardóttir Samfó-þingmaður, Sigmar Guðmundson í Viðreisn, Ólafur Þ. Harðarson RÚV-álitsgjafi, Illugi Jökuls skríbent, Sigmundur Ernir fyrrum Samfó-þingmaður og sjálf Siða-Sunna pírati.
Jöss, hugsaði tilfallandi með sér, það er ekkert annað. Blaðamennska í heiminum stendur á bjargbrúninni og íslenskir vinstrimenn á öndinni. En bíðum við. Síðan hvenær urðu vinstrimenn uppteknir af blaðamennsku? Jú, auðvitað, þegar hún spilltist, varð verkfæri aktívista til að telja almenningi trú um að hvítt sé svart.
Lögmaður bandarískra stjórnvalda segir í London-réttarhöldunum yfir Assange að hann sé hvorki blaðamaður né útgefandi. Samkvæmt Telegraph segir lögmaðurinn Assange ekki skrifa fréttir og heldur ekki bíða eftir að einhver sendi honum leyniskjöl til birtingar á Wikileaks. Assange hafi hvatt til lögbrota, að trúnaður yrði brotinn og Wikileaks afhent skjöl með viðkvæmum upplýsingum. Assange hafi gengið lengra og boðið aðstoð við að ,,hakka" tölvukerfi. Slík ,,hökkun" er innbrot, glæpur.
Tilfallandi ætlar ekki að taka afstöðu til þess hvort réttmætt hafi verið af Assange í samstarfi við Chelsea Manning að opinbera skjöl um hernað Bandaríkjanna í Afganistan og Írak. Né heldur hvort framselja eigi Assange frá einu vestrænu réttarríki til annars. En vinnubrögðin hringja bjöllum. Nánar tiltekið Namibíu- og byrlunarbjöllum.
Wikileaks eða Wikihack? spyr Sigurður Már Jónsson blaðamaður í nýlegri grein um samstarf Assange og Kristins við frægasta hakkara Íslands, sem alltaf er kallaður Siggi hakkari. Sigurður Már byggði á dönskum heimildaþáttum um Sigga hakkara.
Hakkarar, samkvæmt skilgreiningu, fara með ólögmætum hætti inn í tölvukerfi og sækja gögn ófrjálsri hendi. Síðan hvenær snerist blaðamennska um að stela upplýsingum? Blaðamenn eiga að segja fréttir. Ef illa fengið efni rekur á fjörur blaðamanna ber þeim að vega og meta hvort almannahagur krefjist birtingar. En það er allt annað að ráða í vinnu hakkara til að stela gögnum. Það er ekki blaðamennska heldur lögbrot með ásetningi. Enginn munur verður á blaðamanni og þjófi. Robin Hood-syndrómið í nútímaútgáfu; stela frá þeim spilltu, gefa þeim réttlátu. Engin furða að vinstra-vókið sé hrifið af Assange.
Kristinn Hrafnsson ritstjóri Wikileaks er ásamt blaðamönnum RSK-miðla (RÚV, Stundin og Kjarninn) höfundur Namibíumálsins; ásakanir á hendur Samherja um mútur í fátæku Afríkuríki. Ekki var um að ræða stolin gögn heldur var ógæfumaður, Jóhannes Stefánsson, gerður að trúverðugri heimild. Heil hrúga af einskins verðum skjölum var skellt á Wikileaks til að sýna fram á meintar mútugjafir. Trúverðugleika átti að falsa með gagnamagni. Framburður Jóhannesar og gögnin reyndust rusl, sýndu ekki fram á eitt eða neitt misjafnt. En landslið vinstrimanna á Íslandi dansaði stríðsdans í marga mánuði.
Daginn eftir að Namibíumálið var frumsýnt í nóvember 2019 á RÚV mætti galvaskur Kristinn í viðtal í Morgunblaðið og sagði fjálglega að fjölmiðlar yrðu að ,,matreiða og verka þessi mál." Ekki segja fréttir, upplýsa almenning um mikilsverð málefni, tefla fram staðreyndum í samhengi. Nei, matreiða og verka, láta hvítt sýnast svart.
RSK-blaðamenn komust á bragðið með Namibíumálinu. Er færi gafst víluðu sér ekki fyrir sér byrlunar- og símastuldsmálið. Þar er um að ræða alvarlega glæpi, byrlun og gagnastuld. Samkvæmt refsilögum er byrlun annað tveggja líkamsárás eða morðtilraun. Hróa Hattar blaðamennskan er ekki lengur sæt og saklaus heldur ljót og grimm.
Hver er vörn blaðamannanna? Jú, þeir segja eins og Kristinn: við stundum blaðamennsku.
Nei, og aftur nei. Blaðamennska er eitt, glæpir annað. Blaðamenn sem segjast stunda glæpi í þágu almannahagsmuna hafa sagt skilið við siðferði og samfélag. Þeir fótum troða réttarríkið. Glæpablaðamenn falla helst í kramið hjá aðgerðasinnum sem taka lögin í sínar hendur. Komist uppskeran í hús verður vargöld. Allir gegn öllum, hver með sinn sannleika.
Landslið vinstrimanna klappaði upp Namibíumálið. Fyrst eftir að byrlunar- og símastuldsmálið komst á dagskrá voru ungliðahreyfingar vinstriflokkanna virkjaðar til fulltingis við sakamenn. Boðað var til mótmælafundar á Austurvelli. Nú er komið annað hljóð í strokkinn. Vinstrimenn fara með veggjum þegar glæpi RSK-miðla ber á góma.
Spillt blaðamennska, að ekki sé sagt glæpsamleg, er tilræði gegn almannahagsmunum. Landslið vinstrimanna talar hátt og snjallt um réttarhöldin í London en hugsar með hryllingi um væntanlegt dómsmál á Íslandi. Riddaraliði vinstrimanna hrýs hugur að réttlæta glæpi með blaðamennsku. Enda er það ekki vinnandi vegur.