Fjöldi óskilgreindra markmiða í stefnu nýrrar ríkisstjórnar

frettinInnlendar

Ríflega helmingur verkefna á lista ríkisstjórnarinnar í stjórnarsáttmála felur í sér óskilgreind og ótímagreind markmið. Skipa á fimm nefndir eða starfshópa.

Verkefnalistinn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar telur 212 klausur í 29 málaflokkum. Heilt yfir má segja að verkefnalistinn sé frekar almennt orðaður. Það á að stuðla að mörgu, móta stefnu í mörgum málaflokkum, endurskoða marga lagabálka, tryggja stuðning við ýmiss málefni, efla og styðja hina og þessa málaflokka og horfa til margs.

Verkefnalistinn gefur í raun góða mynd af því hvert ríkisstjórnin vill stefna en gefur litlar vísbendingar um hvernig á að komast þangað.
Yfir helmingur markmiða óskilgreind og ótímasett

Greining fréttastofu RÚV á verkefnalistanum leiðir í ljós að 110 af 212 markmiðum ríkisstjórnarinnar eru bæði óskilgreind og ótímasett. 81 markmið má flokka sem skilgreint en hvorki tímasetningin eða útfærslan liggur fyrir. 21 markmið má flokka sem skilgreindar og tímasettar aðgerðir þar sem ekki fer á milli mála að ráðist verður í tiltekið verkefni og því lokið á kjörtímabilinu.

Vissulega er um huglægt mat að ræða og mörkin milli óskilgreindra og skilgreindra markmiða oft og tíðum óljós en í þeim tilvikum var ríkisstjórnin látin njóta vafans og viðkomandi verkefni flokkuð sem skilgreind en ótímasett og óútfærð.

Kveðið er á um fimm úttektir eða skipanir nefnda, meðal annars um Seðlabankann, áhrif sjávarútvegs á þjóðarbúskapinn og stjórnarskrármál.

Rúv greindi frá.