Nýtt met var slegið hjá umboðsmanni Alþingis á árinu 2021 en embættið afgreiddi 570 kvartanir sem er liðlega 5% fjölgun frá 2020.
Að meðaltali bárust umboðsmanni tæplega 50 kvartanir í mánuði, langflestar í maí þegar þær voru 84 og fæstar í júlí 31. Eftir að kvörtunum tók að fækka frá árinu 2012, þegar þær voru 536, urðu þær fæstar 384 fyrir fjórum árum. Stórt stökk upp á við kom svo á milli 2019 og 2020 þegar þeim fjölgaði um hartnær þriðjung milli ára. Undanfarin tvö ár bárust alls 1.110 kvartanir eða 555 að meðaltali samanborið við að næstu fimm ár þar á undan voru þær að meðaltali 408 á ári.
Umboðsmaður skilaði áliti í 59 málum árið 2021 sem er hlutfallslega um tvöföldun að ræða frá árinu áður. Það helgast einkum af því að frá 1. maí sl. eru álit ekki aðeins með tilmælum, þar sem talið er að stjórnvöld hafi brotið reglur og rétta beri hlut borgarans, heldur líka án. Álit með tilmælum voru 34 og án tilmæla 25. Líkt og álit með tilmælum fela hin einnig í sér niðurstöðu sem hefur almenna þýðingu og leiðbeiningargildi.
Fréttatilkynning umboðsmanns.