Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður og fv. alþingismaður skrifar.
Evrópusambandið (ES) heldur því fram, að lög þess eigi að gilda umfram lög einstakra aðildarríkja og EES ríkja eins og Íslands.
Dómstólar í Póllandi og Þýskalandi hafa komist að þeirri niðurstöðu, að lög þeirra eigi að gilda umfram ES lög. ES hefur hótað lögsókn gegn Póllandi en Þýska ríkisstjórnin hefur lýst yfir,að hún muni virða lög ES að fullu.
Nú hefur dómstóll í Rúmeníu komist að sömu niðurstöðu og sá pólski,að lög Rúmeníu gildi umfram lög ES. ES mótmælir með sama hætti og fyrr, hótar málsókn og refsiaðgerðum.
Skv. nýlegri skoðanakönnun í Rúmeníu, telja 70% Rúmena, að stjórnskipulegt fullveldi Rúmeníu sé svo mikilvægt, að það verði að greiða það gjald, sem því fylgir til að varðveita það.
Rúmenía er eitt fátækasta land í Evrópu og nýtur verulegra styrkja frá ES. Landið þolir illa refsiaðgerðir. Samt sem áður er niðurstaða úr skoðanakönnuninni sú, að mikill meirihluti er reiðubúinn til að greiða það gjald sem fylgir því að varðveita fullveldi landsins.
Vonandi er jafnstór meirihluti Íslendinga líka tilbúinn að greiða það gjald sem þarf til að varðveita fullveldi Íslands. Tekist verður á um þau sjónarmið næstu ár þar sem ES ætlar hvergi að hvika í þeim áformum sínum að vera allsráðandi.