Páll Vilhjálmsson skrifar.
Gunnar Smári sósíalistaforingi ber sig aumlega eftir brotthvarf Helga Seljan frá RÚV. Sósíalistinn krefst neyðarfundar útvarpsráðs. Skiljanlega. Enginn starfsmaður RÚV hefur verið jafn þénanlegur málstað sósíalista og einmitt Helgi Seljan.
Í áratug, frá Seðlabankamálinu 2012, klappar Helgi þann stein að eitt öflugasta fyrirtæki landsins, Samherji, sé grimmt auðvald er fótum troði mannréttindi, landslög og stundi kapítalískt arðrán bæði hér heima og erlendis, einkum í Namibíu.
Fréttaflutningur Helga Seljan og RÚV í áratug fellur eins og flís við rass að boðskap sósíalista að einkaframtakið gerir ekki annað en að stela og ræna fátæka alþýðu.
Fleiri vinstriflokkar nutu góðs af afrekum Helga og RÚV. Píratar keyrðu á spillingarvinkilinn með auglýsingu á samfélagsmiðlum í allt sumar og fram að kosningum. Myndefnið var skip Samherja. Ung kona, frambjóðandi Pírata sem kallar sig ,,gellu", var í forgrunni og sagði Íslendinga eiga heimsmet í spillingu. Pírata-gellur klæddar í hvítt skyldu redda málinu.
Samfylkingin undirbjó í vor stórpólitíska sókn. Hugmyndafræðingurinn á ríkisframfæri, Hallgrímur Helgason, sló tóninn: „Enga kurteisi, full force gegn þeim, nú duga engin vettlingatök, fokking samherjastjórn!“. Til stóð að uppræta þá sem höfðu minnstu samúð með útgerðinni í Samfylkingunni.
En svo dró úr áhuga Samfylkingar að stökkva á fordæmingarvagn RÚV. Þingkona Samfylkingar hringdi í Pál skipstjóra Steingrímsson, hún er gift frænda hans, til að afla frétta um aðför RÚV að lífi og eignum skipstjórans. Eftir símtalið sljákkaði ákafi samfylkingarfólks að gera Samherjamálið að kosningamáli. Málið gæti sprungið í andlitið á þeim. Sósíalistar og Píratar eru ekki með slíkar skrúplur enda höfða flokkarnir til jaðarhópa. Samfylkingin vill a.m.k. þykjast stofuhæf á betri heimilum.
Helgi og RÚV þjóna pólitísku hlutverki. Það tryggir þeim stuðning á alþingi, og þar með ríkissjóði, annars vegar og hins vegar á samfélagsmiðlum. Í tíð Helga og Þóru Arnórs ritstjóra Kveiks kom RÚV sér upp hliðarmiðlum, Kjarnanum og Stundinni.
Ásamt aðförinni að Samherja, felldi RÚV ríkisstjórn á grunni skjala sem ekki reyndust til, og efndi til upphlaups gegn hæstarétti. Sköpunarverk RÚV er gjarnan kórónað með útifundum á Austurvelli sem boðað er til í fréttatímum þjóðarmiðilsins. Helgi hóf störf á RÚV tveim árum fyrir hrun. Hann komst í gírinn í óreiðu eftirhrunsáranna, þegar ekki var spurt um heimildir fyrir fréttum heldur hávaða sem hægt var að búa til með raðfréttum. Fölsuðum skjölum var veifað framan í sjónvarpsáhorfendur. Almenningur trúði, þetta var jú á RÚV.
Kjarninn birtir útskýringu Helga á vistaskiptum frá RÚV yfir i dótturfélagið, Stundina. Í fyrirsögninni er haft eftir Helga: RÚV á ekki að þurfa að stilla upp í vörn.
Ha?
Ef RÚV á ekki að vera vörn þá hlýtur sókn að vera á dagskrá. En sókn fyrir hverju? RÚV er þjóðarfjölmiðill og á enga keppinauta á markaði eftir að Stöð 2 var og hét. Hvert á sóknin að stefna? Ríkisútvarpið á að vera, útskýrir Helgi, ögrandi og erfitt. Hlustendum og áhorfendum er enginn greiði gerður með því að sitja undir kurteisishjali við skoðanir þess og heimsmynd öllum stundum. Þannig hefur það ekki verið og má ekki verða.
Ef það er ekki ,,heimsmynd" þjóðarinnar sem á að fjalla um í ríkisfjölmiðlinum þá hverra?
Helgi Seljan hefur fyrir löngu svarað spurningunni með verkum sínum. RÚV á að fjalla um heimsmynd sósíalista, Pírata og annarra róttækra vinstrimanna sem vilja reglulega sinn fréttaskammt af ónýta Íslandi þar sem allt er í kalda koli og alþýðan bíður eftir byltingunni.
Á RÚV hafði Helgi og dagskráin hans aðgang að eyrum og augum landsmanna. Ekkert sem hann gerir á Stundinni sem ,,rannsóknablaðamaður" nær vitund almennings, í besta falli aðeins örfárra vinstrimanna. Helgi stundaði ekki blaðamennsku á RÚV til að upplýsa og greina frá; hann var talandi málgagn, boðberi heimsmyndar sem hann sennilega sjálfur skildi lítið í en gerði hann bæði frægan og verðlaunaðan. Strákpjakkur að austan biður ekki um meira.
Ísland er huggulegt land þar sem gott er að búa. Það mátti helst ekki segja það á RÚV á meðan Helgi Seljan fór þar með eitthvert dagskrárvald. Skáldaðar fréttir um arðrán, spillingu og mannfyrirlitningu voru efst á dagskrá.
Engin furða að sósíalistar og róttækir vinstrimenn séu með böggum hildar yfir falli Helga Seljan. Málgagnið hættir á þjóðarmiðlinum. Stundin mun ekki með árangri boða til fjöldafunda á Austurvelli. Helvítis fokking fokk.