Fulltrúar erlendra vogunarsjóða reyndu að bjóða Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni þáverandi forsætisráðherra mútugreiðslur í skiptum fyrir að haga málum sem þá snerti hérlendis þeim í hag. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Sigmundar í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur á Útvarpi Sögu.
Sigmundur segir hlutina hafa þróast hratt í þá átt að bæði hafi verið gerðar tilraunir til þess að beita þrýstingi og bjóða mútur þegar hann tók við embætti og fulltrúum þessara erlendu aðila varð ljóst að Sigmundur myndi ekki beygja sig undir erlenda vogunarsjóði í tengslum við uppgjör á slitabúum bankanna.
Í þættinum lýsti hann því hvernig óbeinn þrýstingur var aukinn stig af stigi, fyrst hafi verið reynt að hafa áhrif á embættismenn í hinum ýmsu ráðuneytum og reynt að telja þeim trú um að þessar áætlanir gengju ekki upp og væru gegn reglum alþjóðakerfsins og gætu haft gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir Ísland“
„svona var þetta útskýrt fyrir embættismönnunum og þeir svo bera þetta áfram og verða auðvitað smeykir hafandi borið mikla virðingu fyrir þessu alþjóðakerfi, verða smeykir við svona ábendingar og vilja ekki bera ábyrgð á mögulegu klúðri og skrifa greinargerðir um hvað sé hættulegt að gera í stað þess að skrifa frekar um hvað hægt sé að gera“ segir Sigmundur.
Þá segir Sigmundur að beinum þrýstingi hafi verið beitt, meðal annars hafi komið að máli við hann sendiherrar vissra ríkja sem töluðu máli erlendra vogunarsjóða og fjármálafyrirtækja og komu með viðvaranir sem settar voru í kurteisisbúning að hætti diplómata.
Aðspurður um hvort sendiherrarnir hafi boðið eitthvað í staðinn fyrir að greiða götu þessara erlendu aðila segir Sigmundur ekki svo vera en vissir aðilar hafi boðið mútur.
„það voru hins vegar aðrir, fulltrúar þessara vogunarsjóða sem bæði buðu greiðslur fyrir það að leysa málin á þann hátt sem þeir teldu farsælt og beittu hótunum, en þær komu ekki beint til mín heldur í gegnum milliliði, að það sem ég væri að tala fyrir þarna væri slík ósvinna að ég myndi fá að finna fyrir því“,segir Sigmundur. Hann segir að bæði hafi þessir aðilar haft mjög mikilla fjárhagslegra hagsmuna að gæta og þá hafi þeir verið hræddir við það fordæmi sem verið væri að setja með útspili Sigmundar.
Arnþrúður greindi frá því í þættinum að henni hefði borist hótun á nýársdag 2016 þess efnis að ef talað væri við Sigmund á þeim tíma sem hann væri forsætisráðherra eða talað hans máli á stöðinni yrði stöðinni rústað.
„því var hótað að við fengjum aldrei réttar tölur um hlustun frá Gallup og við fengjum kærur á okkur, þannig eitthvað varstu að gera sem ógnaði mannskapnum“ sagði Arnþrúður.
Hlusta má á viðtalið í spilaranum hér.