Jón Magnússon lögmaður skrifar:
Í árdaga frelsisbaráttu gegn ofurvaldi ríkis, fangelsunum og frelsisskerðingu stjórnvalda, báru þeir sem skilgreindir eru til vinstri í pólitík gunnfána frelsisbaráttunnar og kröfðust mannréttinda á grundvelli "algildra" réttinda einstaklinga.
Í ljósi sögunar er sérkennilegt, að þegar ríkisvaldið beitir nú ítrekað þvingunum og frelsisskerðingu, að þá skuli engin málsmetandi vinstrimaður kveða sér hljóðs og mótmæla valdbeitingu ríkisins og benda á hve auðvelt það sé að koma á fasískri alræðisstjórn með aðstoð fjölmiðla og skírskotun til vísinda og aðsteðjandi ógnar.
George Orwell er dæmi um vinstri mann sem óaði við því sem hann horfði framan í á síðustu öld, fasisma, nasisma og kommúnisma. Hann skrifaði bækurnar "Animal Farm" og "1984" til að vekja athygli á hvernig stjórnvöld vinna til að ná fram algerri stjórn.
Vinstrið er nú heltekið af baráttu fyrir sjónarmiðum fólks sem hafnar náttúrulögmálunum og þjóðlegri arfleifð og menningu Vesturlanda.
Á sama tíma eru hægri sem vinstri stjórnir á Vesturlöndum að hamast við að setja reglur sem eru andstæðar lýðfrelsi og stækka ríkisbáknið sem aldrei fyrr. Hér hefur vöxtur ríkisbáknsins verið slíkur á síðustu árum að það er á góðri leið með að verða stærsta efnahagsváin á komandi árum.
Þeir sem mótmæla ítrekuðum frelsisskerðingum eru iðulega sakaðir um svik við hjarðhegðunarhugmyndafræði alþýðulýðvelda og útmálaðir eins og andstæðingar Mao og áður Stalíns voru sem svikarar við fólkið og alræðisstefnuna. Hrópað er að þeir sem mótmæla hugi ekki að almannaheill og hugsi ekki um velferð og öryggi fólks eins glórulaust og það og var líka í Peking og Moskvu á sínum tíma.
Þrátt fyrir að vinstrið hafi algerlega brugðist því að standa vörð um þær frelsishugmyndir, sem þeir tileinkuðu sér og börðust fyrir árum og jafnvel öldum saman og skópu í tímans rás bestu og öruggustu þjóðfélög heimsins, þá þarf hægra fólk nú að endurskoða gaumgæfilega eigin gildi og hvað teljist ásættanleg afskipti ríkisvaldsins af borgurunum og atvinnulífinu.
Lífskjör í landinu munu bara versna ef barátta fyrir megrun ríkiskerfisins byrjar ekki þegar í stað með sama hætti og lýðfrelsi verður í verulegri hættu ef frelsisunandi fólk tekur ekki höndum saman um að móta ný gildi og viðmiðanir sem eiga við og geta komið í veg fyrir að ríkisvaldið geti farið sínu fram.