Falskt öryggi er ávísun á ófarir

frettinPistlar5 Comments

Eft­ir Arn­ar Þór Jóns­son lögmann (greinin birtist í Morgunblaðinu 17.01.22)

 „Rík­is­vald­inu er ætlað að vera þjónn okk­ar, ekki yf­ir­boðari. Það á að setja mörk æski­legr­ar hegðunar, en ekki skipa fyr­ir.“

Við stönd­um frammi fyr­ir al­var­legri vanda en virt­ist vera í upp­hafi. Sem lög­manni for­sjáraðila barns, sem sl. jól hafði setið vik­um sam­an í stofufang­elsi, ósmitað af kór­ónu­veirunni (C19), birt­ist und­ir­rituðum viðfangs­efnið í ná­vígi.

  • Sótt­varna­lækn­ir ger­ir til­lög­ur að þeim regl­um sem hér gilda og er því í reynd með hönd á lög­gjaf­ar­vald­inu. Sjálf­ur fer hann svo með fram­kvæmda­valdið þegar hann ákveður hvernig – og gagn­vart hverj­um – þess­um regl­um er beitt. Þegar borg­ar­arn­ir reyna að verj­ast með því að leita til dóm­stóla gef­ur sótt­varna­lækn­ir skýrslu fyr­ir dómi og niðurstaða dóm­stóla lát­in ráðast af túlk­un hans! Í reynd er sótt­varna­lækn­ir því ein­ráður og hug­sjón­in um þrígrein­ingu valds­ins orðin að inn­an­tómri skurn. Með þessu er í fram­kvæmd brotið gegn kröf­um stjórn­ar­skrár um temprað rík­is­vald og stjórnað und­ir fána falsks ör­ygg­is.
  • Ef ekk­ert tempr­ar fá­menn­is­stjórn (e. olig­arc­hy), þ.m.t. tækni­hyggju (e. technocracy) og/​eða auðræði (e. plutocracy), þá gæt­ir falsks ör­ygg­is í öllu stjórn­ar­fari.

  • Af góðum hug byggðum við upp heil­brigðis­kerfi til að verja líf og heilsu. Kerfið varð m.ö.o. til manns­ins vegna en ekki maður­inn vegna kerf­is­ins. Ef nota á hags­muni kerf­is­ins til að rétt­læta frels­is­skerðing­ar gef­ur það til­efni til al­var­legr­ar lýðræðis­legr­ar umræðu, ekki of­rík­is­til­b­urða. Kerfið má því ekki verða sjálf­stæð ógn sem býður okk­ur aðeins falskt ör­yggi.

  • Bólu­efn­in koma ekki í veg fyr­ir að menn smit­ist og held­ur ekki að menn smiti aðra. Bólu­efn­in veita að þessu leyti falskt ör­yggi.

  • Grím­ur eru sagðar öfl­ug vörn gegn því að vírus­inn ber­ist á milli manna. Eng­in rann­sókn hef­ur sannað að þetta sé rétt. Ekk­ert ríki sem beitt hef­ur grímu­skyldu hef­ur sýnt fram á lægri smit­töl­ur í kjöl­farið. Sam­an­b­urðartöl­ur und­ir­strika þetta. Samt eru viðkvæm­ir hóp­ar hvatt­ir til að nota grím­ur og al­menn­ing­ur er hvatt­ur til að trúa því að grím­ur verji okk­ur og að við get­um ferðast um/​verið í fjöl­menni ef all­ir eru með grím­ur. Grím­urn­ar veita falskt ör­yggi.

  • Eng­ar rann­sókn­ir hafa sýnt fram á að Com­irnaty-bólu­efnið frá Pfizer skili 5-11 ára börn­um meiri ávinn­ingi en áhættu. Sprautu­her­ferð gegn þess­um hópi barna er far­in und­ir flaggi falsks ör­ygg­is.

  • Bólu­efn­in sem nú eru notuð gegn C19 virðast ekki mynda ónæmi gegn sjúk­dómn­um. Þau valda hins veg­ar fjölda al­var­legra auka­verk­ana miðað við hefðbund­in bólu­efni. Mun­ur­inn get­ur hlaupið á tug­um og jafn­vel hundruðum pró­senta. Samt hafa þau ekki verið tek­in úr um­ferð. Í þessu op­in­ber­ast falskt ör­yggi.

  • Rík­is­vald­inu er ætlað að vera þjónn okk­ar, ekki yf­ir­boðari. Það á að setja mörk æski­legr­ar hegðunar, en ekki skipa fyr­ir. Ef þessa er ekki gætt er hætt við fölsku ör­yggi.

  • Get­ur verið að eft­ir­lits­stofn­an­ir, fjöl­miðlar o.fl. sem falið hef­ur verið það hlut­verk að vera „varðhund­ar“ lýðræðis­ins hafi snú­ist í holl­ustu sinni og geng­ist, meðvit­und­ar- og gagn­rýn­is­laust, vald­inu á hönd? Hvað rétt­læt­ir að fjórða valdið gelti á al­menn­ing frem­ur en stjórn­völd? Er ekki enn leyfi­legt að ef­ast og spyrja spurn­inga um raun­veru­lega gagn­semi nýrra lyfja, gagn­rýna stefnu­mörk­un stjórn­valda, áhrif alþjóðastofn­ana og lyfja­fyr­ir­tækja? Hér vakn­ar klass­ísk spurn­ing um falskt ör­yggi: Hver á að hafa eft­ir­lit með eft­ir­lits­mönn­un­um?

  • Stefnu­mörk­un sem miðast aðeins við eitt svið en vak­ir ekki yfir heild­ar­sýn, er ávís­un á falskt ör­yggi.

  • Í þjóðfé­lagi þar sem stjórn­mála­menn af­sala hlut­verki sínu í hend­ur „sér­fræðinga“ er sofið á verðinum og þar með grafið und­an lýðræðis­leg­um stjórn­ar­hátt­um og ýtt und­ir falskt ör­yggi.

  • Í sam­fé­lagi þar sem frjáls og ígrunduð umræða fær ekki að njóta sín er grafið und­an gagn­rýn­inni hugs­un og búin til samstaða um falskt ör­yggi.

  • Ef gera á borg­ara­legt frelsi háð op­in­ber­um leyf­um; ef við eig­um aðeins að telj­ast frjáls þegar ríkið heim­il­ar það; þá er það ávís­un á falskt ör­yggi.

  • Þeir sem telja að rík­is­valdið sé alltaf óskeik­ult, reiða sig til lengd­ar á falskt ör­yggi.

  • Ef rík­is­valdið á að tak­ast á við lang­tíma­vanda með skamm­tíma­lausn­um, þá skapa lausn­irn­ar ný vanda­mál og ör­yggið verður falskt.

  • Ef beita á einni sam­ræmdri „rík­is­lausn“ gegn veiru sem er marg­falt hættu­legri göml­um og veik­um en ung­um og hraust­um, þá fel­ur það í sér van­v­irðingu við fjöl­breyti­leika mann­lífs­ins og ýtir und­ir falskt ör­yggi.

  • Þegar stjórn­völd ger­ast sek um að ýta und­ir ótta til að auka vin­sæld­ir sín­ar og áhrifa­mátt, þá skap­ast alræðisógn og falskt ör­yggi, sem af­hjúp­ast fyrr eða síðar.

  • Er krafa um „sam­stöðu“ svo mik­il­væg að menn megi ekki freista þess að verja sig fyr­ir dómi eða leita end­ur­skoðunar á ákvörðunum stjórn­valda? Er ör­yggi í því fólgið að borg­ar­arn­ir hlýði án efa­semda og að all­ir flokk­ar aðhyll­ist sömu stefnu? Nei, slíkt fyr­ir­komu­lag er ólýðræðis­legt, dreg­ur úr skap­andi, grein­andi hugs­un – og veit­ir fátt annað en falskt ör­yggi.

  • Jú, við skul­um sann­ar­lega hlusta á sér­fræðing­ana, að því gefnu að þeir séu að vinna í þágu al­manna­hags­muna. En ef þeir eru í raun að vinna í þágu sér­hags­muna, þá er slík ráðgjöf ávís­un á falskt ör­yggi.

  • Þegar vís­inda­menn gera til­kall til kenni­valds til að berja niður gagn­rýni er grafið und­an hinni vís­inda­legu aðferð til lengri tíma. Slíkt leiðir aðeins til falsks ör­yggi.

  • Harðar aðgerðir stjórn­valda hafa yf­ir­stigið mörk meðal­hófs, valdið um­fangs­miklu, óaft­ur­kræfu og langvar­andi tjóni, laskað lýðræðis­legt stjórn­ar­far og borg­ara­leg rétt­indi til lengri tíma litið. Aðgerðirn­ar hafa skapað falskt ör­yggi.

  • Svim­andi út­gjöld rík­is­sjóðs í bar­átt­unni við veiru sem 99,7% al­menn­ings lifa af, eru til þess fall­in að skapa falskt ör­yggi.

  • Þegar nýj­ustu töl­ur benda til að þríbólu­sett­ir séu lík­legri til að smit­ast af Ómíkron-af­brigðinu en þeir sem eru óbólu­sett­ir og tví­bólu­sett­ir, er þá örvun­ar­skammt­ur­inn ekki ávís­un á falskt ör­yggi?

  • Þegar grund­vall­ar­rétt­ind­um og borg­ara­legu frelsi er fórnað í skipt­um fyr­ir tíma­bundna og óvissa vernd, hvað er það annað en falskt ör­yggi?

  • Ef menn vilja svipta hluta þjóðfé­lags­ins al­menn­um mann­rétt­ind­um í skipt­um fyr­ir bólu­efnapassa munu þeir hinir sömu fljót­lega átta sig á að slík­ir pass­ar veita falskt ör­yggi.

  • Lífið er ekki ör­uggt. Frelsið gef­ur líf­inu gildi og lífið verður inn­an­tómt án þess. Öryggi er okk­ur öll­um vissu­lega mik­il­vægt, en fleira hef­ur vægi. Mann­leg nánd, sam­tal, sam­vera, sam­kennd, skiln­ing­ur, sam­eig­in­leg­ur til­gang­ur, kær­leik­ur, fjöl­breytni ein­stak­ling­anna, margradda kór sem sam­an flyt­ur tón­verk lífs­ins í allri sinni dýrð, háska og feg­urð. Það er ómann­eskju­legt og hættu­legt og niður­lægj­andi að ætla að skipta þessu öllu út fyr­ir falskt ör­yggi.

5 Comments on “Falskt öryggi er ávísun á ófarir”

  1. Kjósendur þessa manns hljóta að sjá mikið eftir stuðningi við hagsmunasamtökin xD en annars eins búðingur hefur ekki sést lengi. Gallinn við C-19 umræðuna er að flestir með vott af skynsemi eru sammála því að aðgerðir og bólusetningar eru nauðsynlegar og því eingöngu rasshausar og álhattar sem halda uppi athyglissjúkri umræðu til þess að afvegaleiða saklaust fólk. Svo vísar hann í eigin vinnubrögð með þessari fullyrðingu: „Þegar stjórn­völd ger­ast sek um að ýta und­ir ótta til að auka vin­sæld­ir sín­ar og áhrifa­mátt…“en þetta er nákvæmlega það sem hann gerir sjálfur. Og þegar hann segir að engar rannsóknir um grímur séu til þá kann hann greinilega ekki á internetið en hins vegar þarf auðvitað að nota þær rétt, t.d. að hafa fyrir andlitinu og nota handspritt með. Eru kannski allir heilbrigðisstarfsmenn í heiminum að nota grímur sér til skemmtunar? Þeir hafa meira að segja menntað sig í þessu annað en lögfræðingurinn sem allt veit um heilbrigðismál.

  2. Árni.. dv var að hringja.. það er óskað eftir að þú kommentir á frétt hjá þeim sem fyrst.

  3. Arni, Arnar Þór er líklega einn af fáum kjörnum fulltrúum sem setið hafa á Alþingi undanfarið sem virkilega hefur unnið vinnuna sína og kynnt sér málin ofan í kjölinn.

    Allar alvöru slembistýrðar klínískar rannsóknir sem hafa verið gefnar út í ritrýndum vísindatímaritum hafa komist að þeirri niðurstöður að grímur gera ekkert gagn gegn veirusmiti. Áhorfsrannsóknir sem hafa verið gefnar út síðan faraldrinum sýna það sama, t.d. sú danska og jafnvel þó einbeitt hlutdrægni hafi ráðið för eins og t.d. í Bangladesh rannsókninni.

    Þórólfur Guðnason, sagði sannleikann í upphafi faraldrar, þ.e.a.s að grímur gerðu ekki gagn, gætu jafnvel gert illt verra. Hann breytti síðan um skoðun eftir að Kári fór að tala fyrir því að allir ættu að bera grímu og fór allt í einu að setja sjálfur upp grímu í sjónvarpsviðtölum, án þess að vísindin hefðu breyst: https://www.ruv.is/frett/2020/06/07/thorolfur-maelir-ekki-med-notkun-a-andlitsgrimum

    Þeim sem langar að kynna sér vísindin á bak við grímurnar þá mæli ég með að lesa þessa grein eftir Dr. Jim Meehan, gamalreyndur skurðlæknir og ritstjóri læknatímarita:

    https://www.cnsnews.com/commentary/dr-jim-meehan/surgeon-destroys-myth-if-masks-dont-work-why-do-surgeons-wear-them

    Ennfremur þessa heimildarmynd frá The Model Medical Show, sem rekur sögu grímnanna og gildi þeirra sem vörn gegn veirum. Þarna er líka að finna tilvísanir í 50 vísindagreinar um grímunotkun: https://themodelhealthshow.com/maskfacts/

  4. Þessi síða og aðdáendur hennar heldur áfram að vísa í mjög vafasama miðla, hvað næst? Hefur Útvarp Saga kannski rétt fyrir sér líka? Ein af þessum úttektum segir reyndar „In general, the results show protection for healthcare workers and community members, and likely benefit of masks used as source control.“ Þetta þarf hins vegar að nota rétt.
    Og Arnar er einn mesti búðingur landsins, það er reyndar líka staðreynd.
    Það er ekkert skrýtið að kristna samfélagið hafi áhyggjur af fréttin.is sem brýtur boðorðin trekk í trekk

  5. Arni, það er ekki kristilegt að ráðast á manninn eða miðilinn. Kynntu þér vísindin og taktu þátt í málefnalegri umræðu, frekar en skítkasti.

Skildu eftir skilaboð