Sigríður Á. Andersen fyrrverandi þingmaður vill svör við því hvort þúsundir Íslendinga hafi hugsanlega verið sendir í einangrun án þess að vera með virkt smit og fjöldi annarra í kringum þá í sóttkví. Hún skrifar um málið á facebook:
Er hugsanlegt að fjöldi fólks hafi verið sendur í einangrun að ósekju?
,,Með skimunum ferðamanna á landamærum var komist að því að stór hluti þeirra sem greindust smitaðir voru ekki með virkt smit.
Við skimnir innanlands hefur ekki verið gerður greinarmunur á virkum og óvirkum smitum heldur hafa allir verið settir undir sama hatt og allir greindir smitaðir settir í einangrun. Hví hefur þessari vísindalegu nálgun ekki verið beitt á landsmenn en bara útlendinga?
Landamæraskimanirnar bentu til þess að fjórðungur smita væri óvirk smit. Hingað til hafa greinst um 50 þúsund smitaðir innanlands og allir sendir í einangrun. Ef vísindin mættu tala um þennan hóp þá hljótum við að spyrja hvort að 12.500 af þessum greindu smitðum frá upphafi hefðu verið með óvirk smit. 12.500 manns sem hefðu verið sendir í einangrun að ósekju og fólk í kringum það í sóttkví!
En nú ber svo við að þessa tölfræði um virk og óvirk smit á landamærum er ekki lengur að finna á upplýsingasíðu stjórnvalda. Hvað veldur?
Og það sem mestu máli skiptir í dag: Eru nokkur hundruð af þeim þúsund manns sem greinast á hverjum degi þessa dagana með óvirk smit? Við þessari spurningu þarf að fá svar.“