Sigríður Á Andersen fv.dómsmálaráðherra og alþingismaður skrifar.
Um tvær milljónir manna eru taldar hafa látist með Covid-19 í heiminum árið 2020. Tvær milljónir!
Óneitanlega skelfileg tala. Mögulega er ekki hægt að setja hana í eitthvað samhengi án þess að virka harðbrjósta. Það breytir engu um hvert og eitt dauðsfall þótt þau séu sett í samhengi við önnur. Alveg örugglega ekki frá sjónarhóli aðstandenda. Það er hins vegar óhjákvæmilegt að skoða samhengið vegna þess að við þurfum að forgangsraða takmörkuðum fjármunum til að koma í veg fyrir veikindi og dauða. Við þurfum að nýta fé með þeim hætti að það geri mest gagn.
Á myndinni hér að ofan sjást gráar súlur með öllum dauðsföllum eftir aldri í heiminum árið 2017 sem var bara svona venjulegt ár. Þá létu 55 milljónir manna lífið.
Appelsínugulu súlurnar sýna svo gróflega fjölda þeirra sem lést í hverjum aldurshópi með Covid árið 2020.
Er öllu til fórnandi vegna þeirra gulu?
Ekki er hægt að segja annað en að við höfum beitt öllum tiltækum ráðum vegna gulu súlnanna. Jafnvel ráðum sem enginn taldi tiltæk í upphafi faraldurs. Afnumið mannréttindi á borð við atvinnufrelsi og ferðafrelsi, lokað fólk inni í lögleysu, steypt fyrirtækjum, heimilum og ríkissjóðum í skuldir. Þá er ótalið hliðartjónið af atvinnuleysi, fátækt og annarri ógæfu sem hlotist hefur af þessari einni dýrustu aðgerð sögunnar. Kannski er alvarlegust afleiðingin sú að sumum finnst þeir ekki eiga annarra kosta völ en að kalla eftir minna frelsi náungs í þeim tilgangi að tryggja eigið frelsi. Borgurunum hefur í raun verið att hverjum gegn öðrum.
Óvíst er hins vegar hvort nokkuð af þessum harkalegu aðgerðum dugði til að draga úr dauðsföllum vegna veirunnar að ráði. Svíar skera sig ekki úr hvað dauðsföll varðar í Evrópu þótt þeir hafi lengstum látið óyndisúrræðin eiga sig. Svíþjóð er nú í 29. sæti í álfunni yfir dauðsföll á íbúa með Covid. Öll ríkin 28 í Evrópu sem misstu fleira fólk beittu harðari aðgerðum en Svíar undir merkjum sóttvarna og þess að vernda líf og heilsu.
Gulu súlurnar sýna að mestu leyti fólk á efri árum. Meðalaldur látinna með Covid í Bretlandi er til dæmis um 80 ár sem er einmitt sá aldur sem menn geta almennt vænst að ná. Enginn veit hve langt líf fólkið sem lést með Covid átti almennt fyrir höndum ef kórónuveiran hefði ekki knúið dyra. Ég veit að það má ekki segja það en margir voru veikburða fyrir vegna annarra sjúkdóma og máttu hvorki við ágjöf á borð við Covid, flensu né annarri óværu sem herjar á okkur. Auðvitað ekki allir en margir. Eins og við sjáum á myndinni dó fólk á öllum aldri árið 2017 - áður en Covid kom til sögunnar.
Fremsta gráa súlan
Í raun er það bara eitt sem stingur í augu á myndinni hér að ofan. Fremsta súlan sem sýnir dauða barna undir 5 ára. Hún er til marks um ólýsanlegan harm 10 milljóna foreldra og enn fleiri systkina sem horfa upp á lítið barn í fjölskyldunni veslast upp og deyja. Milljónum þessara barna hefði mátt bjarga frá næringarskorti og öðrum banameinum sem ódýr og þekkt ráð eru við. Það myndi kosta lítið brot af því sem aðgerðir í nafni Covid-sóttvarna hafa kostað. Menn litu algerlega framhjá þessu samhengi þegar allt og rúmlega það var lagt undir vegna Covid. Menn sáu ekki heildarmyndina og sumir sjá hana ekki enn.
Að horfa í hlutina í samhengi er lítil líkn gegn fráfalli ættingja eða vinar. En það er óhjákvæmilegt ef menn ætla ekki að endurtaka yfirdrifin viðbrögð við hverri vá sem að okkur steðjar. Stjórnvöld bera þá skyldu umfram aðra.
One Comment on “,,Samhengið skiptir samt máli” – samanburður látinna 2020 og 2017”
Yndislegt að sjá hugrekki þitt í þessum ólgusjó frétta og hagsmuna.
Vona að þetta verði hvatning til annara til að stíga skref í sömu átt til að vermda þjóðborin réttindi fólks og að sjá hlutina í réttu ljósi en ekki aðeins í kastljósi fréttamiðla sem eru jafnvel farnir að loka á eðlilega samræðu manna í milli.