Meðvirkni í íslensku samfélagi slær öll fyrri met

frettinPistlar2 Comments

Brynjar Níelsson skrifar.

Meðvirkni í íslensku samfélagi er að slá öll fyrri met. Hún er orðin að einhvers konar dygðaskreytingu. Þeir sem hafa ekki sannfæringu fyrir öllum sóttvarnaaðgerðum, heimsendi vegna loftslagsvár, feðraveldinu og banni gegn blóðmerahaldi þurfa helst að sæta útilokun og bannfæringu. Fleira mætti telja.

Það hefur bara ein skoðun verið leyfð þegar kemur að sóttvörnum. Hún er sú að fylgja tillögum sóttvarnalæknis og helst ganga lengra. Flestir í þessum hópi koma úr röðum eftirlaunamanna og opinbera starfsmanna, sem ekki hafa orðið fyrir tekjutapi vegna sóttvarnaaðgerða, heldur þvert á móti. Nú er krafan að opinberir starfsmenn fái sérstakar álagsgreiðslur vegna veirunnar. Það er eins og margir séu búnir að gleyma því að yfirvinnutaxti inniheldur álagsgreiðslur. Hugur minn er ekki aðallega hjá opinberum starfsmönnum þrátt fyrir álag þar á bæ heldur þeim sem hafa orðið fyrir tekjutapi eða misst vinnuna og lífsviðurværið.

Aðgerðir í svona faraldri snúast ekki eingöngu um að draga úr eða koma i veg fyrir smit. Þetta er miklu flóknara, eins og sóttvarnalæknir hefur sjálfur bent á. Þess vegna höfum við þjóðkjörna fulltrúa til að taka ákvarðanir og bera ábyrgðina. Þeir þurfa að taka tillit til fleiri þátta en eingöngu útbreiðslu smits. Sérfræðingablæti þjóðarinnar er komið út fyrir öll mörk.

Loftslagsmálin eru farin að bera keim af bókstafstrú. Stefnir í að efasemdarmenn verði afgreiddir eins og hverjir aðrir villutrúarmenn. Ofstækið hefur náð völdum. Það eru allir sammála um þau markmið að draga úr úrgangi og mengun sem fylgir okkur. Ástæðulaust er samt að auka fátækt og hörmungar hundruð milljóna manna um allan heim í öllu ofstækinu. Það er ekki eins og vísindin séu með allt á hreinu í þessum efnum.

Ég hef aldrei náð tökum á þessari hugmyndafræði um feðraveldið. Er ekki viss um að Soffía frænka upplifi mikið feðraveldi á sínu heimili. Kannski býr hún með einhverri lurðu. Kynin eru praktíst og hafa hagað málum eftir því hvað hefur hentað á hverjum tíma í samfélaginu til að halda heimili og koma börnum á legg. Samfélög þróast og breytast og vissulega þarf stundum smá róttækni til að koma hlutunum á stað.

Nú er allt komið á hvolf vegna þess að einhver fór ekki að reglum við blóðmerahald og öll blóðtaka úr merum orðið að dýraníð. Þess vegna þarf að banna slíkt. Ég hef ekki sterkar skoðanir á blóðmerahaldi en get þó sagt að ef ég væri meri myndi ég frekar vilja láta taka blóð úr mér reglulega en að verða lógað. Svo hefur verið tekið úr mér blóð reglulega áratugum saman með tilheyrandi yfirliði og óþægindum. En það var faglega gert og af umhyggju. Það hlýtur að vera hægt að gera það sama í blóðmerahaldi.

Þessi sunnudagshugvekja er til að vekja okkur til umhugsunar og benda á mikilvægi yfirvegaðrar og málefnalegrar umræðu, sem er forsenda þess að búa saman í lýðræðislegu og siðuðu samfélagi. Útilokunarmenning og bannfæringar leiða aldrei til góðs.

2 Comments on “Meðvirkni í íslensku samfélagi slær öll fyrri met”

 1. Ég er svo sammála þér Brynjar, meðvirkni og rétttrúnaður er bókstaflega að tröllríða öllu hér og reindar öllum hinum vestræna heimi.
  Ég er heppinn að vera orið löggilt gamalmenni og þurfa ekki að kingja öllu því sem framundan er, en ég hef áhyggjur af börnunum mínum og barnabörnum.
  Það er skemmtilegt en kannski ekki skrítið, það virðast eingöngu vera Sjálfstæðisfólk sem þorir að impra á öðru en því sem réttrúaðir halda fram.
  Áfram Brynjar, Jón Steinar, Sigríður og öll hin.
  Ég hef stundum sagt, því meiri sem hjarðhegðunin og réttrúnaðuri verður, þeim mun meira fækkar sönnum Sjálfsæðismönnum, það er miður.
  Megi frjáls hugsun, frelsi til orða og athafna lifa sem lengst.

 2. Ræpa hjá Brynjari, hvernig er hægt að taka tugi lítra „með nærgætni“ úr filfulli meri, það er soldið annað að gefa einn smáskammt af blóði sjálfviljugur en fimm lítrar af blóði vikulega yfir tveggja mánaða tímabil samtals 40-50 lítra.

  Staðreyndin er að MAST og ráðamenn eins og þú Brynjar sváfu algerlega á verðinum varðandi þetta blóðmeramál eða létu það viðgangast, sem er til skammar fyrir ísland.

  Varðandi meðvirkni í íslensku samfélagsins, er þá ekki bara gott mál að fletta ofan af þeim sora sem þrífst í íslensku samfélagi, hreinsa almennilega út, þar með talið slakt stofnanalið og blíantsnagara með 1-2m. í laun á mánuði sem við skattborgarar borgum?

Skildu eftir skilaboð