Aðalmeðferð í máli tveggja yngri barna Sævars Ciecielski fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun, 28.janúar. Lögmaður þeirra er Ragnar Aðalsteinsson og lögmaður ríkisins er Andri Árnason.
Börn Sævars vísa til laga sem Alþingi samþykkti í desember 2019 þar sem ráðherra var heimilað að greiða bætur til hinna sýknuðu og aðstandenda þeirra, þar á meðal barna hinna látnu. Þau segja lögin verði ekki skilin öðruvísi en að um bótakröfur barnanna fari með sama hætti og um bótakröfur hinna lifandi.
Fram kemur í stefnunni að börn Sævars geti ekki fallist á að fyrrnefnd innborgun upp í bótakröfur þeirra jafngildi fullum bótum með hliðsjón af aðstæðum föður þeirra frá handtöku í desember 1975 til dánardægurs „og reyndar allt til sýknudóms Hæstaréttar 2018.“
Í stefnunni er rakin sú hrikalega meðferð sem Sævar mátti þola við rannsókn málsins. Hann var yfirheyrður 180 sinnum af lögreglu í samtals 340 klukkustundir. Hið tilefnislausa og langvarandi gæsluvarðhald sem Sævar sætti jafngilti pyntingum, það hafi í raun verið fáheyrð andleg og líkamleg raun.
Í stefnunni segir enn fremur að Sævar beri ekki ábyrgð á því að hann var sviptur frelsi sínu né á hinni alltof löngu einangrunarvist eða öðru gæsluvarðhaldi. Hann beri heldur ekki ábyrgð á hinni illu meðferð, pyndingunum, óréttlátu málsmeðferðinni og röngum sakfellingum fyrir manndráp. „Fagleg rannsókn lögum samkvæmt hefði leitt í ljós sakleysi Sævars.“
Rúv sagði frá:
Á myndinni er Sævar að flytja varnarræðu sínu þar sem hann sagði meðal annars að dvölin í fangelsinu væri ekkert sældarbrauð
,,Ég lýsti því yfir i upphafi að ég væri saklaus og ég stend við þann framburð...Ég hef hýrzt i 700 daga innilokaður í klefa, sem er aðeins 2x2,5 metri. Við, sem erum ákærð í málinu, höfum orðið fyrir líkamlegu ofbeldi. Lögregla hefur ráðizt að okkur af engu tilefni, þetta hef ég oft horft upp á í gegnum árin, og nú eru þessir menn að yfirheyra okkur. Það sem upp úr okkur hefur komið eru játningaþulur, ekkert annað. Þetta er heilaþvottur, þetta er andleg píning.“
„Virðulegu dómarar, það er ykkar að dæma, verið skynsamir,“ voru lokaorð Sævars.