,,Þóra á Glæpaleiti“

frettinPistlar1 Comment

Páll Vilhjálmsson blaðamaður og kennari skrifar:

Þrír blaðamenn Þórður Snær Júlíusson á Kjarnanum og Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni, Doddi og Alli, og Arnar Þór Ingólfsson á Kjarnanum voru frægir í fimmtán mínútur síðdegis í gær. Þeir létu fréttast að vera boðaðir sem sakborningar í lögregluyfirheyrslu vegna eitrunar á Páli skipstjóra og gagnastuldi. Eftir myrkur birtist senuþjófurinn, drottningin á Glæpaleiti.

Alli og Doddi eru ekki sakaðir um eitrun og stuld heldur að nýta sér þýfi. Þeir voru kynntir af félögum sínum í blaðamannastétt sem fórnarlömb - höfðu ekkert annað gert en skrifa fréttir. Ekki beinlínis Woodward og Bernstein-bragur á þeim Knoll og Tott. En það mátti reyna.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður Blaðamannafélags Íslands upplýsir, sennilega fyrir mistök, um kvöldmatarleytið í gær að Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks sé sakborningur. Þóra er ekki höfundur frétta úr gögnum Páls. Lögreglan á ekkert vantalað við hana um fréttaflutning RÚV. Engum blaðamanni dettur í hug að leggja saman tvo og tvo - eða lesa sér til.

Seint í gærkveldi viðurkenndi RÚV að Þóra væri sakborningur. En það fylgdu engar skýringar. Hvað gerði Þóra á bakvið tjöldin?

Sakarefni blaðamanna Stundarinnar og Kjarnans er að nýta sér þýfi, vera þjófsnautar. Þeir notuðu stolin einkagögn - og vissu um þjófnaðinn. Stóri glæpurinn er eitrun og gagnastuldur. Maður þarf að vera stéttvís blaðamaður til að sjá það ekki.

Aðalsteinn og Þórður Snær viðurkenndu í gær að eiga aðild að ljótasta kafla fjölmiðlasögu Íslands. Áður höfðu bæði Alli og Doddi neitað málsaðild. Eitrað var fyrir almennum borgara, Páli skipstjóra, og símtæki hans stolið á meðan hann var á gjörgæslu. Lygar og blekking undir yfirskini blaðamennsku er RSK-þema: RÚV, Stundarinnar og Kjarnans. Þöggun er beitt á óþægilegar fréttir.

Aðalsteinn og Þórður Snær fengu gögnin frá RÚV, þaðan sem atlagan að Páli var skipulögð, og höfðu náið samráð um að koma þýfinu í umferð.

RÚV sagði Alla og Dodda að klína nafninu ,,skæruliðadeild" á Pál skipstjóra og Örnu Bryndísi lögfræðing Samherja. Tvílembingarnir notuðu einmitt þetta heiti í fréttum sínum, sjá hér og hér. Á Glæpaleiti var þegar búið að ákveða fyrirsögnina: Skæruliðadeild Samherja er ekki þáttur á Netflix. Kvenlegur húmor atarna, líkt og forsetaframbjóðandi hafi hönd í bagga.

Páll og Arna höfðu notað þetta heiti, ,,skæruliðar", sín á milli í einkaskilaboðum. Eins og allir vita, nema kannski illa innrættir blaðamenn, talar fólk oft í hálfkæringi þegar það er á tveggja manna tali. Þau Páll og Arna litu á sig sem skæruliða innan Samherja, að berja á yfirstjórn fyrirtækisins sem Páli og Örnu fannst taka allof linkulega á ófrægingarherferð RSK gegn Samherja.

Í meðförum RÚV, Alla og Dodda varð innanbúðardjók Páls og Örnu að samsæriskenningu um að Samherji væri með sérstaka ófrægingardeild á sínum snærum. Það er heilaspuni ættaður af Glæpaleiti. Spuninn virkaði, Samherji baðst afsökunar. Yfirstjórnin lyppaðist niður en ekki Páll skipstjóri og Arna lögfræðingur. Þau þurfa heldur ekki að biðjast afsökunar á því að bera blak af fyrirtækinu sem veitir þeim lifibrauð og raunar mörgum öðrum. (Ekki þó tilfallandi höfundi, svo því sé til skila haldið).

RÚV heldur áfram að blekkja þjóðina. Fyrirsögnin í gær af Alla, Dodda og félaga þeirra var þessi: ,,3 blaðamenn í yfirheyrslu vegna ,,skæruliðadeildar." Lögreglan hefur engan áhuga á samsærisþvaðri um hvað Páll skipstjóri og Arna lögfræðingur dunduðu sér. Aftur ætlar lögreglan að upplýsa hver eitraði fyrir Páli skipstjóra, stal síma hans og kom gögnunum til Alla og Dodda. Glæpir og samsæriskenningar eru sitthvað, þótt fæstir blaðamenn kunni að greina þar á milli. Starfsstéttin stígur ekki í vitið.

Eða hvers vegna er Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks sakborningur í lögreglurannsókninni? Döh.

Starfsmenn RÚV, bæði núverandi og fyrrverandi, hafa fengið eða eiga von á símtali frá lögreglu þar sem þeir verða boðaðir í yfirheyrslu. En fyrst þarf lögreglan að tala við hlaupatíkurnar Alla og Dodda. Knoll og Tott eru forrétturinn, aðalrétturinn er enn í eldhúsinu.

Stefán útvarpsstjóri losaði sig við Rakel fréttastjóra í nóvember og Helga Seljan í janúar. Drottningin á Glæpaleiti er aftur kirfilega í fangi grunlausa lögreglustjórans fyrrverandi. Dómgreind er ekki aðalsmerki yfirstjórnar þjóðarútvarpsins.

Uppfært: Páll Vilhjálmsson var í viðtali við Bítið á Bylgjunni og má hlusta á hér að neðan.

One Comment on “,,Þóra á Glæpaleiti“”

  1. Ósammála þessari grein, árásir á fjölmiðlafólk er ekki til eftirbreytni.

Skildu eftir skilaboð