Fyrsta kornflutningaskipið frá Úkraínu er nú á leið til Líbanon. Razoni, sem siglir undir fána Sierra Leone og er hlaðið 26.527 tonnum af korni, er væntanlegt til Trípolí innan 5 daga. Vonast er til að fleiri fylgi í kjölfarið þegar búið er að finna út úr tryggingamálum (það á líka við um Rússa) en aukin áhætta fylgir siglingum í Svartahafi vegna tundurdufla Úkraínumanna sem hafa losnað og fljóta um. Skömmu áður en Razoni lagði af stað sprengdu Rúmenar eitt slíkt í landhelgi sinni.
Kornskip er einnig á leið til Sýrlands hlaðið byggi og hveiti. Laodicea hafði verið kyrrsett við hafnarbakkann í Trípolí sakir ásökunar frá sendiráði Úkraínu í borginni um að farmurinn væri stolinn (komi frá Donbass) en í morgun sigldi skipið út úr höfninni því eigandi kornsins hafði alla pappíra í lagi. Samkvæmt frétt Alaraby þá siglir skipið undir sýrlenskum fána og farmurinn er í eigu Sýrlendings. Meiningin hafi verið að afferma hluta hans í Líbanon (óljóst er hvort það var gert) en halda svo áfram til Sýrlands - hungrað fólk má finna víða nú um stundir.
Óvíst er hve mikið geymslupláss Líbanir hafi því korngeymsla þeirra eyðilagðist í sprenginginni miklu 2020, þar sem fleiri en 200 létust, fjölmargir særðust og miklar skemmdir urðu á borginni. Hluti af korngeymslunni hrundi reyndar á sunnudaginn var (sjá myndband) eftir að eldar höfðu logað í kornleifunum vikum saman sakir sjálfsíkveikju. Ákveðið hafði verið að rífa rústirnar en íbúar mótmæltu. Sumir töldu að sönnunargögn varðandi sprenginguna gætu glatast en aðrir vildu halda í þær sem minnismerki um atburðinn.
Talið er að það liggi fyrir hverjir hafi átt ammóníumnítratið sem sprakk og hverjir vissu um það en lögsóknir eru ekki í sjónmáli. Seint á síðasta ári kom til blóðugra átaka í Beirut er hópar shíamúslima kröfðust afsagnar saksóknarans Tarek Bita eftir að dómstóll úrskurðaði að rannsókn hans á sprengingunni gæti haldið áfram. Böndin berast vissulega að Hezbollah en ef menn hætta að virða lögin líkt og gerðist á Alþingi okkar til forna þá eru þau lítils virði. Hezbollah lá undir grun strax í upphafi því þeir höfðu umsjón með höfninni og auk þess verið þekktir fyrir að geyma ammóníumnítrat, ætlað til hryðjuverka, víðs vegar í Evrópu. Til dæmis fundust meira en 8 tonn af efninu í kjallara íbúðarhúss á Kýpur árið 2015, ætluð til hryðjuverka gegn þarlendum Ísraelsmönnum.
Augljóslega er ekki auðvelt fyrir súnnímúslima, shíamúslima og kristna að stjórna einu landi saman því hver fylkingin um sig hefur sínar áherslur og hyglir gjarnan sínum. Gallar fjölmenningarinnar birtast berlega í Líbanon. Fyrir 1975 ríkti þar friður að mestu milli múslima og kristinna og Beirút var þekkt sem París Miðausturlanda en það ár braust út borgarastyrjöld eftir að PLO liðarnir sem höfðu fengið þar hæli komu af stað borgarastyrjöld með því að virkja aðra múslima og vinstrisinnaða Drúsa til að ráðast samtímis á kristna í landinu og á Ísrael. Sýrlenski herinn lagði landið undir sig í framhaldinu og síðar komu Ísraelsmenn til að hrekja PLO burt. Þeir fóru, en Hezbollah hefur hins vegar fengið að hreiðra um sig þótt að svo virðist sem áhrif þeirra fari minnkandi.
Í síðustu kosningum hélt Hezbollah sætum sínum en stuðningur kristinna landsmanna við þá fer minnkandi og hefur stjórn Hezbollah aðeins 61 sæti af 128 því margir andstæðingar Hezbollah komust á þing. Hinn kristni flokkur Samir Geagea sem er hliðhollur Sádum náði 19 sætum. Samkvæmt Voanews (Voice of America) er hið pólitíska stjórnkerfi landsins lamað á þeim tíma er mest þörf er á að menn taki höndum saman. Þegar önnur stærsta hreyfingin lýtur írönskum áhrifum en hin er undir áhrifum Sáda er hreint ekki von á góðu.