Björn Bjarnason skrifar:
Látið er eins og ekki sé vitað um ástæðuna fyrir árásinni en í Teheran, höfuðborg Írans, fagna menn „guðlegri hefnd“.
Í október 1995 var bókamessan í Gautaborg helguð málfrelsi, prentfrelsi og fjölmiðlafrelsi. Af því tilefni var okkur þáverandi menningarmálaráðherrum Norðurlandanna boðið þangað til að ræða um þetta efni.
Eftir að við höfðum flutt nokkur inngangsorð voru almennar umræður, sem snerust meðal annars töluvert um Salman Rushdie en hann hafði einmitt verið viðstaddur fyrr þennan fimmtudag 26. október, þegar bókamessan hófst. Ég lét þess getið, að á fundi, sem ég sat með Salman Rushdie fyrr á þessu ári í London, hefði hann sagt, að aðeins með því að koma einræðisherrunum frá völdum í Íran væri unnt að aflétta dauðadóminum yfir sér. Hvernig gætum við gert það? Hvað gætum við í raun gert annað en minnt á algildi mannréttinda og hvatt allar þjóðir og ráðmenn þeirra til að viðurkenna það? Værum við tilbúnir til þess að beita valdi til að tryggja mönnum tjáningarfrelsi?
Salman Rushdie hafði þá farið huldu höfði frá árinu 1989 vegna bókar sinnar Söngvar Satans frá 1988. Drottnari Írans dæmdi Rushdie til dauða og setti fé til höfuðs honum.
Rushdie leitaði hælis á Englandi. Yfirvöld þar gættu hans allan sólarhringinn. Hann dvaldist þar í meira en áratug undir dulnefninu Joseph Anton. Hann skipti stöðugt um dvalarstaði, flutti 56 sinnum á milli staða fyrstu sex mánuðina.
Ráðist var á Hitoshi Igarashi sem þýddi Söngva Satans á japönsku og hann drepinn með hnífstungu. Ettore Capriolo, þýðandi bókarinnar á ítölsku, varð einnig fyrir árás með hnífi. Kveikt var í hóteli þar Aziz Nesin, þýðandi á tyrknesku, dvaldist, hann bjargaðist en 37 manns fórust í eldinum. Skotið var á norska útgefanda bókarinnar, William Nygaard, og særðist hann illa.
Þetta gerðist allt á tíunda áratugnum og vissu allir hvers vegna ráðist var á þessa einstaklinga.
Nú 33 árum eftir að dauðadómurinn var kveðinn yfir Rushdie réðst Hata Matar 24 ára frá New Jersey á hann föstudaginn 12. ágúst við ræðupúlt á fundi í Chautauqua í New York-ríki og stakk hann að minnsta kosti 10 sinnum með hnífi. Rushdie lifði af árásina.
Látið er eins og ekki sé vitað um ástæðuna fyrir árásinni en í Teheran, höfuðborg Írans, fagna menn „guðlegri hefnd“. Hvort Matar fær 3,3 m. dollara fyrir ódæðið frá drottnara Írans er óljóst.
Undanfarin ár hefur Salman Rushdie búið í New York og farið ferða sinna um borgina síðan 2015. Það ár ræddi blaðamaður franska vikuritsins L‘Express við hann. Nú er vakin athygli á að þá hafi hann sagt að við lifðum núna „myrkustu tíma sem ég hef nokkru sinni kynnst“. Á vefsíðunni Common Sense with Bari Weiss segir Weiss að Rushdie hafi látið þessi orð falla vegna þess að hann sá vestræn gildi á undanhaldi, einarða varðstöðu um frjálsa hugsun og málfrelsi sem hafði orðið honum til bjargar:
„Hefðu árásirnar á Söngva Satans verið gerðar í dag,“ sagði hann í L‘Express. „hefði þetta fólk ekki varið mig og hefðu notað sömu rökin gegn mér, sakað mig um að móðga þjóðernislegan og menningarlegan minnihluta.“
Með orðunum „þetta fólk“ á Rushdie við fremstu rithöfunda þess tíma, ekki síst í Bandaríkjunum. Varðstaða gegn ofríkisöflum er jafn brýn nú sem þá.