Samkvæmt nýrri skýrslu frá þeirri stofnun Ástralíu er fæst við vísindi sjávar hefur Kóralrifið mikla ekki staðið með jafn miklum blóma á norður- og miðsvæði frá því að mælingar hófust fyrir 36 árum en á suðursvæðinu valda þyrnakrossfiskar enn skemmdum. Í skýrslunni segir að engir stórir fellibylir hafi valdið skaða á því á eftirlitstímanum frá ágúst 2021 til maí 2022 og að hitaálag hafi ekki orðið verulegt. Þetta eru vissulega góðar fréttir því áratugum saman hefur því verið haldið fram að þetta merkilega kóralrif, sem er á heimsminjaskrá væri í hættu vegna hlýnunar jarðar.
Fyrir svo skömmu sem á síðasta ári vildi UNESCO (Kína fór þá með formennsku í heimsminjanefndinni) meina að kóralrifið væri í hættu sakir áhugaleysis Ástrala um að vernda það. Samkvæmt ástralska ABC hafa þó milljarðar dollara verið settir í það og snemma á þessu ári var einum milljarði lofað til viðbótar til að bæta hreinleika sjávar og í stjórnun og rannsóknir.
Peter Ridd sem vann að rannsóknum á Kóralrifinu mikla frá 1984 hefur sagt að ríkisstjórnin hafi látið UNESCO kúga sig til að eyða fé í óþarfa. Hann var rekinn úr kennarastöðu sinni við James Cook háskólann í Queensland 2018 fyrir að efast um gagnsemi frekari rannsókna á rifinu. Það væri ekki í neinni hættu vegna loftslagsbreytinga því kórallarnir er þar vaxa yxu jafnvel betur í hlýrri sjó og fellibyljum færi ekki fjölgandi.
Þar að auki næði ekki nein mengun frá landi, hvorki áburður frá bændum, kolamylsna né laus jarðvegur, svo langt út sem kóralrifin eru. Peter stefndi skólanum en tapaði málinu. Það var ekki talist falla undir akademískt frelsi að tjá sig með öðrum hætti en háskólanum væri þóknanlegt. Eftir að þessi nýja skýrsla um gott ástand kóralrifsins sendi hann frá sér hæðnislega og bráðfyndna grein sem birtist fyrst í ástralska Spectator.
Fyrirsögnin er að fréttir af dauða Kóralrifsins mikla séu stórlega ýktar og svo kemur: Aðdáendur Harry Potters vita hvað Vitsuga er. Svo vitnað sé í Remus Lupin þá eru það skepnur sem: þrífast á eyðingu og örvæntingu, þær soga frið, von og hamingju úr loftinu nálægt þeim ... komir þú of nálægt Vitsugu þá sogast allar jákvæðar tilfinningar og allar glaðar minningar frá þér. Þegar ég heyri hina venjulegu hræðsluáróðursmenn halda því fram að rifið sé dauðadæmt þrátt fyrir hinar frábæru fréttir í síðustu viku um að ekki hefði mælst meira af kóral frá því að mælingar hófust 1986 þá koma mér Vitsugur í hug. Það hefur aldrei verið meira um kóral á rifinu þrátt fyrir að eiga að hafa gengið í gegnum fjóra stórskaðlega og fordæmalausa bliknunarviðburði frá 2016 - alla vegna loftslagsbreytinga.