Elon Musk tilkynnti í byrjun júní að hann myndi hætta við 44 milljarða dollara Twitter tilboð sitt eftir að Twitter veitti honum ekki fullnægjandi upplýsingar um gervireikninga (e. "bot" accounts). Twitter fór eins og kunnugt er í framhaldinu í mál við Musk til að þvinga hann til að standa við tilboð sitt.
Í gær úrskurðaði dómari í Delaware í Bandaríkjunum í máli tengdu deilunni um gildi kauptilboðsins að Twitter yrði að afhenda skjöl sem sýna hversu margir „gervireikningar“ eru á Twitter.
Skjölin sem Twitter þarf að afhenda Elon Musk eru frá fyrrverandi yfirmanni hjá Twitter, Kayvon Beykpour, sem Musk hefur haldið fram að hafi verið lykilmaður í útreikningi á fjölda gervireikninga á Twitter.
Alþekkt er að ekki séu raunverulegir notendur á bakvið stóran hluta aðgangsreikninga á Twitter. Sem dæmi þá hefur úttekt sýnt að um helmingur 22 milljóna Twitter fylgjenda Joe Biden Bandaríkjaforseta sé tilbúningur.
Gerviraðgangar á Twitter eru orðnir að aðalatriðinu í lagabaráttunni um það hvort Musk þurfi að standa við 44 milljarða dollara tilboð sitt um kaup á samfélagsmiðlinum.
Komi það í ljós að Twitter hafi reynt að blekkja Musk við tilboðsgerðina mun að öllum líkindum verða auðsótt mál fyrir Musk að hætta við 44 milljarða dollara tilboðið.