Vísindamenn frá Vrije háskólanum í Amsterdam hafa fundið örplast í 80% sýna sem tekin voru úr kjöti, blóði og mjólk hollensks búpenings.
Maria Westerbos, forstjóri umhverfissamtakanna Plastic Soup Foundation, sagði við miðilinn NOS: „Þetta er ekki aðeins skaðlegt fyrir dýrin heldur líka mannfólkið. Það er líklegt að hvert nautakjötsstykki og hver hamborgari innihaldi eitthvað af örplasti.“
Frekari rannsókna er þörf
Þessi rannsókn Vrije háskólans í Amsterdam er tiltölulega lítil. Alls voru tekin átta sýni af nautakjöti, 25 sýni af kúamjólk og blóðsýni úr 12 svínum og 12 kúm prófuð með tilliti til örplasts.
Sjö af átta nautakjötssýnum innihéldu leifar af örplasti. Það sama átti við um 18 af 25 kúamjólkursýnum og blóð allra 12 svína og 12 kúa innihélt örplast.
Ekki bændum að kenna
Rannsakendur telja að það sé líklega dýrafóðrið sem innihaldi örplastið og endar þar af leiðandi í blóði og vefjum hollenskra dýra.
Reyndar tóku rannsakendur 12 sýni af fóðurköglum og fundu örplast í hverjum einasta þeirra. Í fersku fóðri aftur á móti, eins og heyi eða grænmeti, fundust engar leifar af plasti.
Westerbos leggur áherslu á að ekki sé við bændur að sakast, heldur fóðuriðnaðinn sem notar plastúrgang í vörur sínar.