Páll Vilhjálmsson blaðamaður og kennari skrifar:
Síðasta viðtalið við blaðamenn sem eru grunaðir í RSK-sakamálinu var á RÚV fyrir viku. Viðmælandi er Þórður Snær ritstjóri Kjarnans (K-ið í RSK, hitt eru RÚV og Stundin). Jú, þeir taka viðtöl við sjálfa sig, gerendameðvirknin lætur ekki að sér hæða. Ritstjórinn segir:
Mér finnst enn augljósara en áður að nú sé þessi vegferð, sem ég upplifi bara sem kælingartilraun gegn fjölmiðlum og það að reyna að draga ný mörk hvar tjáningafrelsismörk fjölmiðla liggja, sé runnin á enda og þetta verði það síðasta sem ég heyri af þessu máli. (undirstr. pv)
Lögreglan þjarkar ekki við „viðskiptavini“ sína í opinberri umræðu þegar um er að ræða sakamál. Í kærumáli Aðalsteins á Stundinni, sem kærði boðun í yfirheyrslu í febrúar sl., fékk lögreglan smjörþefinn af vinnubrögðum blaðamannamafíunnar. Viðtöl eru teygð og toguð til að falla að hagsmunum blaðamanna.
Á eftir Þórði Snæ og Arnari Þór af Kjarnanum mættu Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni og Þóra Arnórsdóttir á RÚV á lögreglustöð í fylgd lögmanna sinna. E.t.v. fleiri. Aðeins viðstaddir vita hvað fór á milli sakborninga og þjóna réttvísinnar. En það má álykta að málstaður grunaðra batnaði ekki.
Eftir þær yfirheyrslur kom vitanlega ekki yfirlýsing frá lögreglunni. Ekki frekar en almennt í sakamálarannsókn. En með verkum sínum talar réttvísin skýru máli.
Lögreglan skipaði Páli Steingrímssyni réttargæslumann í beinu framhaldi af yfirheyrslu sakborninga. Það er svar lögreglu til Þórðar Snæs og félaga.
Réttargæslumenn eru skipaðir þegar afbrot eru sérlega alvarleg, s.s. líkamsárás og kynferðisbrot. Ritstjóri Kjarnans segir málið búið en verklag lögreglu staðhæfir að um alvarlega glæpi sé að ræða. Málið gangi næst til ákærusviðs. Að Páli skuli skipaður réttargæslumaður bendir til að blaðamennirnir eigi sér litlar málsbætur.
Eini fjölmiðillinn sem sagði frá skipun réttargæslumanns er Fréttin. Þar á bæ taka menn ekki þátt í samsæri um að snuða almenning um upplýsingar í mikilsverðum fréttamálum.
Aðrir fjölmiðlar þagga málið niður af tillitssemi við RÚV, Stundina og Kjarnann. Fjölmiðlar í bandalagi gegn almannahag. Að kröfu RSK-miðla skal ekki fjallað um sakamálið í fréttum. Blaðamenn grunaðir um alvarlega glæpi stjórna fréttaflutningi. Svona er Ísland í dag.
One Comment on “Lögreglan svarar Þórði Snæ og félögum”
Palli Samherjapenni enn þá ferðinni með samherja-smjörklípu.
það eru greinilega ekki „blaðamenn grunaðir um alvarlega glæpi“ sem stjórna landinu, þeir sæta nú rannsókn, eins allir vita. En það fyrirtæki hvers glæpi þeir voru að rannsaka og skrifa um virðist ekki sæta glæparannsókn, jafnvel þó önnur ríki en hið íslenska sjái ástæðu til að rannsaka það og fangelsa mútuþega fyrirtækisins.
Mikil eru völd þín Samherji.