Guðmundur Karl Snæbjörnsson læknir var nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar. Guðmundur Karl, hefur orðið fyrir árásum fyrir að fara gegn straumnum í Covid faraldrinum „Flest allir kollegar mínir sem tjáðu sig mest hér á landi, til að mynda læknar á landsspítalanum hafa fengið milljónir í styrki frá lyfjafyrirtækjum. Ég er ekki að segja að þeir séu ekki vel meinandi og eflaust gengur þeim gott til, en þeir eru ekki óháðir. Fólk sem hefur haft milljónir í rannsóknarstyrki frá lyfjafyrirtækjum er eðli málsins samkvæmt ekki frjálst og óháð,“ segir Guðmundur Karl, sem vill meina að Covid tímabilið hafi sýnt okkur mikilvægi þess að við förum í naflaskoðun varðandi ritskoðun og óvinsælar skoðanir.
Guðmundur Karl vakti athygli í faraldrinum fyrir meðal annars að ræða um nóbelsverðlaunalyfið Ivermectin sem ódýru og áhrifaríku lyfi við Covid.
„Þetta er þrautreynt lyf sem er nánast algjörlega án aukaverkana og hefur verið notað í áratugi á milljónir manna. Rannsóknirnar bentu strax til þess að þetta tiltekna lyf gæfi frábæra raun sem ein af meðferðunum við Covid. En einhverra hluta vegna var Ivermectin gert að einhvers konar bannorði. Lyf sem er með færri aukaverkanir en Panodil og hefur verið gefið í 4 milljörðum skammta til mannfólks í gegnum tíðina. Við hljótum að geta verið sammála að það sé eitthvað skrýtið við þessi ofsafengnu viðbrögð gagnvart þeim læknum sem vildu nota þetta lyf. Ég var kærður af Lyfjastofnun og mér var hótað fangelsisvist eins og ég væri að gera eitthvað stórhættulegt.“
„Ég vil ekkert vera að naga í fjölmiðlana, en það gerðist oftar en einu sinni á Covid-tímabilinu að íslenskir blaðamenn hringdu í mig og vildu fá upplýsingar, en sögðu svo að þeir mættu ekki hafa neitt eftir mér. Væntanlega af því að ég var ekki á sömu skoðun og yfirvöld. Ég efast ekki um að þetta fólk sé að gera sitt besta, en aftur, þá er bara svo auðvelt að sjálfsritskoða sig þegar pressan er jafnmikil og hún var þegar faraldurinn stóð sem hæst. Þeir sem héldu fram öðrum skoðunum en sóttvarnayfirvöld fengu á sig alls konar árásir og voru kallaðir álhattar eða samsæriskenningafólk,“ segir Guðmundur og bætir við að það hafi gerst oftar en einu sinni að fólk hafi svo snögglega skipt um skoðun þegar það veiktist sjálft af Covid.
Íslenskur meistarnemi komst óvænt að virkni ivermectin
Í þessu sambandi má geta þess að íslenskur námsmaður, Esther Viktoría Ragnarsdóttir, vann meistararitgerð í lyfjafræði um lyfið ivermectin, sem helst er notað gegn sníkjudýrasýkingum í fólki sem býr í Afríku, og skoðaði í rannsókn sinni hvort möguleiki væri á að gefa börnum lyfið með nefúða. Það sem hún komst að á leiðinni var að lyfið hefur einnig sýnt virkni gegn veirunni sem veldur Covid-19.
„Upprunalega átti ritgerðin alls ekki að tengjast Covid en þegar ég fór að skrifa og leita heimilda sá ég nokkrar greinar sem fjölluðu um þetta. Ég talaði mikið við leiðbeinandann minn um þetta. Honum fannst alveg um að gera að skrifa um þetta þar sem við erum í miðjum heimsfaraldri. Hann var sjálfur ekki alveg viss hvað væri á bak við það því þetta er allt svo nýtt,“ segir Esther í samtali við mbl.is.
One Comment on “Íslenskir blaðamenn máttu ekki hafa neitt eftir Guðmundi Karli lækni”
Það væri nú fróðlegt að fá að vita hverjir bönnuðu blaðamönnum að hafa neitt eftir Kalla, og hversvegna þeir hafi farið eftir því banni