Björn Bjarnason skrifar:
Þegar frá líður kemur hins vegar örugglega í ljós að skortur á skýrslu um framkvæmd COVID-aðgerða veldur vandræðum, leiðir til óvissu og ranghugmynda.
Hér hefur oftar en einu sinni verið hvatt til þess að skrifuð verði skýrsla um framkvæmd sóttvarna í landinu á tíma COVID-19 faraldursins. Nauðsynlegt er að fyrir liggi skjal sem geymir upplýsingar um allt sem gert var. Hvar, hvernig á hvaða grundvelli ákvarðanir voru teknar. Þetta verði ekki gert til að leita að sökudólgum eins og einkenndi um of rannsóknarskýrslu alþingis um bankahrunið heldur til að saga þessa „fordæmalausa“ tíma sé skráð með aðgangi að sögupersónum og samtímaheimildum.
Því miður virðist talað fyrir daufum eyrum þegar um þetta er rætt. Hvergi verður þess vart áhuga meðal opinberra aðila á slíku verki. Þeir sjá vafalaust fyrir sér óteljandi flækjur og kostnað. Þegar frá líður kemur hins vegar örugglega í ljós að skortur á slíkri heimild veldur vandræðum, leiðir til óvissu og ranghugmynda.
Innan breska Íhaldsflokksins er um þessar mundir tekist hart á um formennsku í flokknum og í byrjun september verður ljóst hver tekur við af Boris Johnson sem flokksleiðtogi og forsætisráðherra. Á lokastigi leiðtogabaráttunnar hefur Rishi Sunak, fjármálaráðherra í stjórn Johnsons, skýrt frá því sem „raunverulega gerðist á tíma innilokunarinnar (e. lockdown)“ í Bretlandi eins og Fraser Nelson, ritstjóri vikuritsins The Spectator, segir í tilefni af viðtali hans um þessi mál við Sunak í því tölublaði sem birtist nú í vikunni.
Nelson segir að fámennur hópur óttasleginna breskra ráðamanna hafi, án vitundar flestra ráðherra, látið stjórnast af sama andrúmsloftinu sem myndaðist meðal þjóðarinnar allrar vegna magnaðrar auglýsingaherferðar sem ætlað var að hræða þjóðina til hlýðni. Það hefði meira að segja verið litið þannig á að sá ráðherra sem spurði eða bað um skýringu á ríkisstjórnarfundi drægi dómgreind forsætisráðherrans í efa. Sá sem vildi til dæmis vita hvaða áhrif einhver ákvörðun hefði fyrir krabbameinssjúka átti yfir höfði sér að verða úthrópaður sem ruglukollur eða „Cov-idiot“, einskonar „vinur veirunnar“. Móðursýki hefði búið um sig í stjórnarráðinu.
Nelson segir að viðtalið við Sunak hafi ekki áhrif á úrslit leiðtogakjörins. Það sé alveg ljóst að Liz Truss sigri í því. Þá hafi Sunak ekki lýst sinni hlið á málinu til að finna „sökudólg“. Heldur hafi hann viljað segja frá brotalöminni í ákvarðanaferlinu af því að hann telji að hreinskilni nú dragi úr hættunni á mistökum í næsta faraldri.
Sunak segir að allar ákvarðanir um lockdown hafi verið pólitískar en forsætisráðuneytið hafi ávallt sagt að „vísindin“ réðu. Þar með hefði Sage-nefndin, vísindaráðgjafarnir, fengið stöðu „mini-ríkisstjórnar“ og aldrei hefði verið litið til efnahagslegra eða félagslegra áhrifa ákvarðana á þjóðarhag. Við þann ógnvænlega vanda glímdu menn núna.
Nelson segir að það sem Sunak segir sé aðeins toppurinn á ísjakanum. Leyndarhyggja og þöggun kalli á dramatískt uppgjör sem sé rétt að byrja.
Hér kynntumst við hvernig látið var í veðri vaka í fjölmiðlum að ráðherrar sem viðruðu sjálfstæð sjónarmið um viðbrögð við veirunni færu á svig við þjóðarheill. Hér þarf að leggja allt á borðið í faglegri skýrslu.