Fari kjósendur í Bandaríkjunum snemma á fætur að morgni kosningadags 8. nóvember þá munu þeir sjá blóðmána á himni (nema það verði skýjað) og íbúar Hawaí og Alaska munu geta fylgst með almyrkva tungslins frá upphafi til enda, eða svo segir NASA.
Ef til vill munu einhverjir líta til himins og hugsa: „Er ekki best að kjósa bara GOP (Gamla góða flokkinn)?" Republikönum er spáð góðu gengi og Joe Rogan á von á rauðri holskeflu. Hann segir að niðurstöður kosninganna muni líkjast lyftuatriðinu í kvikmyndinni The Shining.
Bill Maher hefur allt þetta ár reynt að vara flokkssystkyni sín í Demókrataflokknum við því að flokkurinn sé kominn allt of langt frá grunngildum sínum. Í nýrri grein í Daily Mail er haft eftir honum að GOP muni vinna stóra sigra í kosningunum og ná meirihluta í báðum deildum vegna woke-menningar Demókrata og segir að Bandaríkin séu nú sem Titanic, rétt eftir að skipið rakst á ísjakann. Hann líkir lýðræðinu við McRib (sem er svínaborgari í barbicuesósu) - það sé enn til ... svo njótið þess á meðan þið hafið það.
Í grein Daily Mail er vitnað í nýja skoðanakönnun Wall Street Journal sem sýni að hvítar konur í úthverfunum, sem séu rúmlega 20% kjósenda, hafi margar snúið baki við Demókrötum, en sá hópur átti stóran hlut í þingsigrum þeirra 2018. Þar segir að efnahagsmálin og verðbólgan séu þeim ofarlega í huga. Könnunin sýnir að Republikanar hafi nú 15 prósentustiga forskot hjá þeim hópi, sem er algjör viðsnúningur frá því í ágúst en þá höfðu Demókratar 12 stiga betri stöðu. Fréttin sagði frá því fyrir þrem vikum að samkvæmt könnunum hefði stuðningur fólks af rómönskum uppruna við Demókrata minnkað um helming síðasta áratuginn og að stuðningur svartra við Republikana væri kominn upp í 22%. Kannanir styðja því þá spá Joe Rogan að sjá megi rauða holskeflu 8. nóvember.
New York Post segir líka að það séu breytingar í gangi meðal úthverfakvenna. Bæði hafi þær tekið upp á því að styðja Republikana í auknum mæli og svo verði heimakennsla vinsælli. Ástæðan sé auknir glæpir. Víða í Ameríku hafi fyrirtæki í miðborgunum lokað og fólk - sérstaklega konur - finni ekki lengur til öryggis heima hjá sér. Aukin glæpatíðni sé kjósendum ofarlega í huga, einnig þeim svörtu, en aðeins 17% svartra styðja að draga úr fjárframlögum til löggæslumála, skv. nýlegri könnun frá Grio/Kaiser Family Foundation. Í grein New York Post segir: „Konur í úthverfunum hafa síðustu ár fengið að reyna það óþægilega á eigin skinni að flokkur Demókrata hefur enga hæfileika til stjórnunar, og að þeir hyggja (flestir) meira að hagsmunaaðilum, s.s. kennarasamböndum og kynþáttahyggjuaktívistum, en að fólkinu sem þeir ættu að vinna fyrir."
Skólafundir hafa enda verið mjög líflegir síðustu tvö árin. Foreldrar hafa mótmælt skólalokunum, grímuskyldu, ókyngreindum salernum og pólitískri innrætingu, bæði því að LBGTQ menningu sé ýtt að börnunum og þeim kennt að húðlitur þeirra geri þau ýmist að kúgurum eða undirokuðum fórnarlömbum. Svo virðist sem skólastjórnendur og kennarar telji það alfarið sitt að ala börnin upp - og innræta þeim sín gildi og Kennarasambandið sendi bréf til Bidens þar sem beiðst var athugunar á því hvort áköf mótmæli foreldra væru brot á hryðjuverkalögum og í framhaldinu var FBI falið að athuga málið, við lítinn fögnuð foreldra.