Byrjaði að drekka 15 ára og drakk í 17 ár

frettinLífið, TónlistLeave a Comment

Tónlistarmaðurinn Eymar hefur lifað heimana tvenna og opnar sig nú fyrst um sína sögu fyrir almenning.

Eymar fæðist á Sauðárkróki og segir barnæskuna hafa verið hamingjusama, skólinn hafi gengið vel og hann var virkur í fótbolta og körfubolta. Líf Eymars tók hinsvegar snarpa U-beygju þegar hann fór að fikta við áfengi á unglingsárum.

„Ég byrjaði að drekka 15 ára gamall og drakk næstu 17 árin eftir það, ég var 32 þegar ég náði að hætta. Er búinn að vera edrú í fjögur ár og það er magnað hversu hratt lífið breyttist eftir það,“ segir Eymar.

Eymar segir drykkjuna hafa byrjað á helgardrykkju um hverja helgi, en um 18 ára aldur hafi neyslan þróast í dagdrykkju og þá var ekki aftur snúið næstu 17 árin.

Þegar hann er 18 ára flytur hann til Reykjavíkur og þar heldur drykkjan áfram ásamt því að leiðast út í örvandi efni, sem bauð upp á enn meira drykkjuþol.

Eymar segir þessi fyrstu ár í Reykjavík hafa verið stjórnlaus og hann hafi verið mjög týndur, en hafi sem áður alltaf verið með hjartað á réttum stað og tónlistin fylgt honum alla tíð. „Ég var ábyggilega með virkustu tónlistarmönnum Íslands á þessum tíma án þess að fá nokkurn tímann borgað fyrir neitt. Ég tók gítarinn minn með mér í öll partý þar sem ég spilaði og hélt uppi stuðinu fyrir vinum og vandamönnum,“segir Eymar.                                     

25 ára gamall eignast Eymar hundinn Mola á þessum sama tíma og leggur flöskuna á hilluna í örskamma stund en fellur svo í helgardrykkjuna skömmu síðar, en nær að halda drykkjunni þar.

Hundurinn Moli

Eymar kynnist svo konunni sinni Hörpu og saman eignast þau sitt fyrsta barn.

Eymar er búinn að telja sér trú um að nú sé hann ekki að glíma við alkóhólisma lengur, en konan hans bendir honum á að hann sé að misnota áfengi með því að drekka um allar helgar og fram að hádegi næsta dags.

,,Það sem enginn sá var að hverja helgi þurfti ég að drekka einn þangað til fram að hádegi daginn eftir, talandi við sjálfan mig, aleinn og týndur..’’ Eymar

Hann segir því að næstu árin hafa verið þau erfiðustu sem hann átti eftir að upplifa þar sem strákurinn hans og konan væru heimurinn hans og vildi hann allt fyrir þau gera en var í stríði við bakkus á sama tíma sem vildi ekki sleppa takinu á honum.

Eymar hefur samið tónlist í gegnum ferlið og gaf út plötuna 2018 nýlega sem fjallar um baráttuna við brennivínið...hann hefur bæði tapað og sigrað, dottið niður og staðið aftur upp.

Eymar og Harpa

,,Fimmta lag plötunnar heitir 2018 og fjallar um þann tíma sem ég upplifði versta kvöld ævi minnar. Ég gat ekki drukkið lengur og á sama tíma gat ég ekki hætt að drekka. Þetta kvöld endar niður á gjörgæslu þar sem ég lá í alvarlegu ástandi. Það sem ég man er þegar ég vaknaði aftur var hjúkrunarkona sem horfði á mig eins og hana langaði að bjarga mér frá helvítinu sem ég var fastur í. Ég mun aldrei gleyma því.’’ - Eymar

Eymar segir hjúkrunarkonuna á vakt hafa átt mikinn þátt í bataferli hans og hjálpað honum að sjá hlutina í réttu ljósi og er Eymar henni ævinlega þakklátur.

Fjórum dögum seinna þegar Eymar er útskrifaður af spítala dettur hann samstundis í það en eitthvað var breytt og hann ákveður á því augnabliki að leita sér hjálpar,.

Edrú í 4 ár

Það var fyrst þá eftir að hann kvaddi drykkjuna sem að allir hans draumar urðu að veruleika, það bætist svo lítil stúlka við fjölskylduhópinn og Eymar gat loks byrjað að hlúa að listamannadraumnum þ.e. að taka upp og gefa út tónlist.

Eymar segir ferðalagið þau 17 árin hafa liðið á ofsahraða, eins og að blikka augunum og 17 ár liðu hjá. Hann hafði aldrei gert sér grein fyrir því að til þess að geta tekist á við vandamálið af alvöru, þyrfti hann að fá utanaðkomandi aðstoð.

Eymar hvetur aðra í sömu sporum til að rétta út höndina og vera ófeimin við að biðja um aðstoð, því aðstæður eru aldrei eins slæmar eins og flestir telja sér trú um og það eru svo margir sem eru tilbúnir að stíga inn og hjálpa.

,,Á þessum árum sem ég hef fengið að vera edrú hef ég horft á eftir ótal vinum mínum falla frá, fyrir eigin hendi eða út af beinum afleiðingum alkahólismans og ég hugsa bara alltaf hvað ég er ótrúlega þakklátur fyrir að fá að vera hérna,.’’ Eymar

Lokalagið á plötunni hans heitir einmitt: "Ef ég væri ekki hérna"

Platan hans 2018 er bein frásögn á lífi hans í borginni og leiðir okkur í gegnum týndu árin, alveg fram í sigurinn við Bakkus og alla þá sorg, hamingju og þrautir sem Eymar fór í gegnum á þessum árum, þar til hann fann sjálfan sig á ný og segir Eymar það einungis vera byrjunina á þeim sögum sem hann hefur að segja.

Þú getur fylgt Eymari á samfélagsmiðlum hans hér.


Skildu eftir skilaboð