Söngfjelagið sendi frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:
Elleftu jólatónleikar Söngfjelagsins verða haldnir í Langholtskirkju sunnudaginn 11. desember.
Tónleikarnir eru fyrir löngu orðnir fastur liður í tilverunni á aðventunni fyrir fjölda manns. Þemað hefur alltaf verið að kynna tónlist frá ýmsum heimshornum en í gegnum árin hafa þau til dæmis flutt klezmer, jiddíska, keltneska, rússneska og suður-ameríska tónlist og núna síðast söngva og dansa frá Balkanlöndunum. Flest lögin eru flutt á frummálinu. Fjöldi listamanna hefur komið fram ásamt kórnum í gegnum tíðina, innlendir sem erlendir og sumir listamenn hafa ferðast langa leið erlendis frá til að taka þátt í þessari árlegu tónlistarveislu Söngfjelagsins.
Undir friðarsól
Hilmar Örn Agnarsson kórstjóri Söngfjelagsins segir að þema tónleikanna í ár sé bæn okkar allra um frið á jörðu og er yfirskrift tónleikanna Undir friðarsól. Sú tilvísun er fengin úr Helgiljóði Olgu Guðrúnar Árnadóttur, sem var jólalag Söngfjelagsins árið 2016, en ár hvert frumflytur Söngfjelagið nýtt jólalag á jólatónleikum sínum . „Á tónleikunum í ár er jólalagið eftir Hjörleif Hjartarson, en Hjörleifur hefur einnig þýtt og stílfært mörg erlendu laganna. Þá verður á dagskránni úkraínsk tónlist í bland við tónsmíðar frá Nýja Sjálandi, Afríku, Lapplandi og fleiri stöðum, ásamt Íslandi, sem öll fjalla um frið og kærleika til náttúru, Guðs og manns. Nokkrir gestir verða með okkur. Við erum mjög spennt að fá hina rússnesku Natöshu S til að fara með eigið ljóð á tónleikunum, en hún er fyrsta skáldið af erlendu bergi brotin til að hljóta verðlaun Tómasar Guðmundssonar. Þá hefur Snorri Helgason samið lag við ljóð hennar og verður það frumflutt á tónleikunum. Við verðum með einsöngvara frá Úkraínu og Rússlandi ásamt íslenskum leynigestum. Það getur líka vel verið að við flytjum eitt þekkt Bítlalag" bætir Hilmar við sposkur.
Eitt af einkennum tónleika Söngfjelagsins hefur verið samstarf við erlenda tónlistarmenn búsetta á Íslandi „Það er svo gaman að kynnast nýju tónlistarfólki og jafnframt gefa fleirum tækifæri til að heyra þeirra flutning. Þau þekkja lögin betur en við gerum og hafa kennt okkur margt nýtt. Við höfum líka flutt inn listamenn, til dæmis fengum við sjö manna Suður - Amerískt band frá Noregi fyrir þremur árum, það er sennilega eitt það stærsta og metnaðarfyllsta sem við höfum gert í þeim málum. Eða allavega enn sem komið er!" segir Jakob, formaður kórsins.
Kominn tími til að dansa!
Jafnframt tekur formaður Söngfjelagsins það fram að mikil áhersla sé lögð á að syngja lögin á frummálinu, en það hafi ekki alltaf reynst einfalt í framkvæmd. „Það er sérstaklega eftirminnilegt þegar við þurftum að taka vikulega rússneskutíma fyrir tónleikana okkar fyrir þremur árum. Þannig var það aðeins erfiðara en við héldum, en á sama tíma ótrúlega gaman þegar við byrjuðum að ná meiri tökum á tungumálinu! Markmiðið okkar er að fara alltaf meira útfyrir þægindarammann, svo nú fannst okkur vera kominn tími til að dansa! Nokkur laganna munu innihalda hreyfingar og dansspor og nutum við þar góðs af leiðsögn valkyrjunnar Sanna Valvane, kórstjóra frá Finnlandi, sem kenndi okkur þjóðlög og dansa nú á haustdögum. Fimm manna hljómsveit leikur með á tónleikunum og hljómsveitarstjórinn í ár er Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir. Stjórnandi að öllu saman er svo Hilmar Örn Agnarsson kórstjóri en sérlegur aðstoðarmaður hans er Iveta Licha.
Tónleikarnir fara fram sunnudaginn 11. desember kl. 17 og 20.
Miðaverð er 4.500 kr. Hægt er að kaupa miða á tix.is.
Jakob Falur Garðarsson, formaður Söngfjelagsins: s. 862 - 4272
Hilmar Örn Agnarsson, kórstjóri: s. 849 - 4708