Eftir Guðmund Karl Snæbjörnsson lækni. Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. nóv. 2022.
„Ríkinu er hvergi ætlað að vera „yfirlæknir“ allra lækna í meðferð sjúklinga. Lögvernduð réttindi lækna og skyldur eru ekki innantóm orð á blaði.“
Í upphafi skal tekið fram að læknum hefur aldrei verið bannað að skrifa upp á Ivermectin vegna eldri og hefðbundinna ábendinga lyfsins. Þar hefur einu gilt hvort lyfinu er ávísað á undanþágulyfseðli, eða eftir að lyfinu var veitt markaðsleyfi (ágúst 2022). Síðustu ár hefur verið ágreiningur um hvort heimilt sé að ávísa því gegn Covid, í fyrirbyggjandi tilgangi og sem meðferð utan sjúkrahúsa, á sviði heimilislækninga, ekki sjúkrahúsa.
Lyfjastofnun hefur staðið gegn notkun lyfsins allt frá hausti 2020, þrátt fyrir að uppfyllt væru öll skilyrði lyfjalaga og jafnvel þótt slíkri beiðni hafi fylgt ítarlegar röksemdir, níu síðna ritgerð með um 50 tilvísunum sem benti til öflugrar verkunar lyfsins gegn Covid. Umsækjandi gat bætt við frekari rökstuðningi með tilvísun til tuga rannsókna, m.a. einnar sem náði til nokkur hundruð þúsunda þátttakenda. Mikil og góð verkun lyfsins liggur fyrir, jafnvel er talið að það skili yfir 91% árangri gegn Covid utan sjúkrahúsa. Öllum má vera ljóst hve mikil jákvæð áhrif lyfið hefði haft til að draga úr álagi af sjúkrahúsinnlögnum, gjörgæslu og fækkun dauðsfalla. Í þessu samhengi má m.a. vísa til úttektar (Descotes) á mörg hundruð rannsóknum er varða öryggi lyfsins. Fyrir liggur að aukaverkanir lyfsins eru óverulegar og vægar, engar alvarlegar, og að öryggi lyfsins er jafnvel umtalsvert betra en allra lausasölulyfja sem í dag er hægt að fá í öllum apótekum landsins.
Ágreiningur minn við ríkisstofnanir hérlendis, viðvíkjandi samþykki og notkun lyfsins gegn Covid, hefur farið í gegnum stjórnsýslukerfi okkar, fyrst Lyfjastofnun og landlæknisembættið, sem endaði með stjórnsýslukæru til heilbrigðisráðuneytisins. Niðurstaða ráðuneytisins fól í sér viðurkenningu á lögbrotum Lyfjastofnunar. Engu að síður samþykkti ráðuneytið að notkun lyfsins gegn Covid skyldi bönnuð.
Til að fá þessu hnekkt hefur undirritaður stefnt íslenska ríkinu fyrir dóm. Í málflutningi ríkislögmanns kom fram að þar sem Lyfjastofnun hafi veitt lyfinu markaðsleyfi hefði ég enga lögvarða hagsmuni lengur af málinu. Af því verður ekki annað ályktað en að undirritaður geti með fullum rétti ávísað lyfinu gegn Covid. Í nýlegu erindi mínu til heilbrigðisráðherra er því þeim tilmælum beint til ráðherra að öllum læknum landsins verði þegar í stað tilkynnt um þessa lögskýrandi afstöðu ríkislögmanns fyrir hönd íslenska ríkisins og því geti læknar hafið ávísanir lyfsins gegn Covid og hvorki Lyfjastofnun né landlæknir geti hreyft neinum mótbárum við því.
Á framangreindum forsendum hef ég hafið lyfjaávísanir Ivermectin gegn Covid og hefur ráðuneytinu þegar verið tilkynnt um það með nýju erindi til ráðherra heilbrigðismála.
Einn galli er þó á gjöf Njarðar, því verðlagning lyfsins kemur í veg fyrir almenna notkun þess. Það skal tekið skýrt fram að eðli málsins samkvæmt er dómstólum ekki ætlað að taka tillit til verðlagningarinnar. Raunveruleikinn er samt sá, sem kalla má ad hoc- bann, að flestum er meinuð notkun lyfsins vegna ofurálagningar. Lyfið er hræódýrt, ef staðið er rétt að innkaupum og verðlagningu þess. Verðlagningunni má breyta til stórfelldrar lækkunar í kjölfar fyrrnefndrar málflutningsyfirlýsingar ríkislögmanns. Vinna ber að þessari lausn hver sem niðurstaðan verður í fyrrgreindu dómsmáli.
Í öðru máli, sem nú er komið til umboðsmanns Alþingis eftir að hafa velkst um hjá Lyfjastofnun og heilbrigðisráðuneytinu, er því haldið fram af hálfu ríkisins að sjúklingurinn hafi engra lögvarðra hagsmuna að gæta í því tilviki. Því er sú þversögn komin upp í lagatúlkunum lögfræðinga ríkisins að hvorki sjúklingurinn né ávísandi læknir hafi neina lögvarða hagsmuni af ávísun umrædds lyfs. Frá sjónarhóli almennrar skynsemi þarf að svara því hver geti átt lögvarða hagsmuni ef ekki einmitt þessir tveir aðilar? Stöndum við frammi fyrir því að ríkið eitt geti átt slíka hagsmuni? Viljum við búa í samfélagi þar sem ríkið og fulltrúar þess sitja við allar hliðar borðsins án þess að einstaklingar komist þar að? Getur fólk varið hagsmuni sína í réttarkerfi þar sem ríkið tekur sér útilokandi skilgreiningarvald? Slíkt getur ekki staðist grundvallarkröfur réttarríkisins um aðgang manna að dómstólum.
Fyrrgreint dómsmál snýst í raun um það hvort löglegt sé og réttmætt að ríkið taki fram fyrir hendur lækna með því að brjóta á rétti þeirra og sniðganga faglegt hlutverk þeirra. Slíkt fer í bága við ákvæði lyfjalaga og samræmist ekki þeim valdmörkum sem ríkinu eru sett að lögum og stjórnarskrá. Ríkinu er hvergi ætlað að vera „yfirlæknir“ allra lækna hvað meðferð sjúklinga varðar. Lögvernduð réttindi lækna og skyldur þeirra gagnvart sjúklingum sínum eru ekki innantóm orð á blaði. Handhöfum ríkisvalds getur ekki leyfst að sniðganga lög um sjúklinga og vanvirða rétt manna til að velja meðferðarmöguleika sem þeim hugnast sér til bættrar heilsu og lengri lífdaga.
4 Comments on “Lyfjaávísanir Ivermectin hafnar gegn Covid”
“Lyfið er hræódýrt.”
Það er nefnilega það.
Það hlýtur að vera bara dagaspursmál hvenær þessi Guðmundur Karl verður sviptur læknisleyfi sínu, því þannig er er farið að erlendis þegar þagga þarf niður í slíkum uppreisnarseggjum gegn kerfinu.
Í Frakklandi djöflaðist ríkið ríkið vikum, mánuðum og árum saman á prófessorunum Didier Raoult í Marseille og Christian Perronne, fyrir að tala á sama hátt og Guðmundur fyrir áhrifaríkum og ódýrum lyfum, sem hafa löngu sannað gildi sitt og þar sem alltaf eru öðru hvoru að finnast nýjir notkunarmöguleikar fyrir þau lyf:
Raoult mælti fyrst með því að beita venjulegu klórókíni (chloroquine) sem hefur verið þekkt allt frá miðri 17 öld, síðan endurbættu afbrigði af því, hydroxychlorquine, og loks Invermectin, en þá ætlaði allt vitlaust að verða og hann var neyddur til þess að hætta störfum og setjast í helgan stein.
Perronne var kærður af læknasamtökunum og dreginn fyrir rétt, sem loks sýknaði hann af öllum ákæruatriðum í síðasta mánuði, með þeim ummælum í dómsorðinu að vegna þess hversu óhemjufær Perrone væri á sínu sviði, raunar sá allra færasti í landinu, þá hefði honum borið SKYLDA til þess að tjá sig um málefnið !
En þar með var sagan ekki öll, því fyrir nokkrum dögum var læknirinn og fyrrverandi þingkona á franska þinginu, Martine Wonner, svipt læknisleyfi sínu í eitt ár fyrir að hafa úttalað sig um aðra slíka möguleika, meðal annar úr ræðustól þingsins.
Lækna- og lyfjafasisminn hefur ekki enn sagt sitt síðasta orð, langt því frá
Góð og þörf grein hjá Guðmundi Karli og á hann hrós skilið fyrir að gefast ekki upp fyrir réttlætinu í þessu máli er varðar rétt lækna til að lækna með skaðlausum lyfjum.
Tek undir með Auði, Guðmundur Karl er hetja sem bæði nennir og þorir að standa með réttlætinu gegn ofurafli.
Samfélag okkar væri betra ef fleiri menn og konur tækju Guðmund Karl sér til fyrirmyndar og mótmæltu því sem er augsýnilega rangt, eins og fjölda-bólusetningu með óþekktu glundri.
Bara það að skrifa á kommentakerfin hjálpar, það sýnir að er hugsandi fólk þarna úti sem blöskrar fasismi nútímans ..