Arnar Sverrisson sálfræðingur skrifar:
Félagsráðgjafinn m.m., Rory Laing, hefur skrifað fróðlega grein um rétt feðra og barna í Bretlandi, „Bresk lög útiloka feður við fæðingu: Hvaða sálfélagslegu áhrif gæti þetta haft á börn og feður.“
Helstu atriði eru þessi:
Öllum mæðrum er sjálfkrafa færður foreldrisréttur og ábyrgð á barninu. Það er ekki svo, að allir raunfeður njóti hins sama.
Mæðrum ber engin skylda til að upplýsa föður um þungun eða barneign. Ei heldur ber þeim skylda til að færa nafn föður á fæðingarvottorð afkvæmisins. Ónafngreindur faðir á þess þó kost að höfða mál á hendur móðurinni á eigin kostnað. Það getur tekið langan tíma að koma því í kring.
Hafi faðir ekki föðurskyldum að gegna, samkvæmt lögum, ber móður ekki skylda til að tilkynna honum um ættleiðingu.
Einungis hluti feðra hefur rétt til fæðingarorlofs. Það er í flestum tilvika undir móðurinni komið. Fæðingarorlof föður á launum, þegar svo ber undir, er tíu dagar. Það á ekki við um sjálfstæða atvinnurekendur.
Sameiginlegt fæðingarorlof foreldra hefur verið í gildi, síðan 2015. Mæður geta sem sé yfirfært hluta af 52 vikna orlofi til föður. Feður hafa engan sjálfstæðan rétt.
Rúm 10% feðra bjuggu ekki með barnsmóður sinni við fæðingu afkvæmis.