Alþingi í gíslingu pírata

frettinAlþingi, Björn BjarnasonLeave a Comment

Eftir Björn Bjarnason:

Á sama tíma og þetta gerist við landamærin standa þingmenn pírata og tala dag og nótt hver við annað í ræðustól alþingis vegna lágmarksráðstafana í útlendingamálum.

Eins og vakin var athygli á hér hefur afstaða Eflingar valdið klofningi innan Samfylkingarinnar. Þar eru innan dyra áhrifamenn sem hallast nú æ meira að sjónarmiðum sósíalista í kjaramálum og pírata í útlendingamálum.

Á alþingi eru vangaveltur um að Helga Vala Helgadóttir, fyrrv. þingflokksformaður Samfylkingarinnar, kunni að ganga til liðs við Pírata vegna samstöðu með þeim í útlendingamálunum.

Lárus Guðmundsson markaðsstjóri segir i grein í Morgunblaðinu í dag (6. febrúar) að þingmennirnir Arndís Anna K. Gunnarsdóttir pírati og Helga Vala Helgadóttir hafi „á undangengnum árum hreinlega haft lifibrauð sitt af fjölgun hælisleitenda og málsvörnum kringum málaflokkinn“. Arndís Anna hafi verið einn af lögfræðingum Rauða krossins eða fram til ársins 2020. Helga Vala sé eigandi lögfræðistofunnar Valva lögmenn. Hún sé reyndar sögð í leyfi frá störfum þar. Í verkefnalýsingu lögmannsstofunnar komi fram að stofan taki að sér að gæta réttinda erlendra borgara.

Lárus segir:

„Eru þessir þingmenn hæfir til að fjalla um málefni flóttamanna á Alþingi Íslendinga á hlutlausan hátt? Svar mitt er einfaldlega nei!“

Hann lýsir einnig í grein sinni hve landamæravörslu er ábótavant. Einstaklingar sem vísað hefur verið úr landi snúa hingað að nýju sem hælisleitendur til þess eins að lifa á íslenska ríkinu.

Þeir sem vilja spara við landamæravörsluna, til dæmis með því að selja TF-SIF úr landi, ættu að leita nærtækari sparnaðarleiða fyrst. Þar má nefna að herða vörsluna á Keflavíkurflugvelli og fella hana beint undir ríkislögreglustjóra.

Það er undarlegt að ekki skuli spornað markvisst gegn því að þeir leiti hér hælis að nýju sem vísað hefur verið úr landi. Einkum þegar vitað er að þeir koma hingað til þess eins að lifa á félagslega kerfinu á meðan umsóknir þeirra um hæli þvælast milli embætta og nefnda með kostaðri aðstoð lögfræðinga sem hafa greiðan aðgang að ríkisfjölmiðlinum og þingmönnum sem taka alþingi í gíslingu til að koma í veg fyrir lágmarksumbætur á götóttu og dýru kerfinu.

Á rúmum mánuði sem liðinn er af árinu 2023 hafa 506 flóttamenn komið til landsins, langflestir frá Úkraínu (199) og Venesúela (185). Fyrir allan almenning er skiljanlegt að hingað komi flóttafólk frá Úkraínu en hitt er jafn óskiljanlegt og áður að til landsins sæki svona margir hælisleitendur frá Venesúela. Að ekki skuli stigin markviss skref til að greina hvað þar er á ferð og skýra á gagnsæjan hátt fyrir almenningi hvaða leiðir eru færar til að setja þarna skynsamlegar skorður er áhyggjuefni.

Á sama tíma og þetta gerist við landamærin standa þingmenn pírata og tala dag og nótt hver við annað í ræðustól alþingis vegna frumvarps sem hefur að geyma mun minni skref en stigin eru hvarvetna í nágrannalöndunum til að ná viðunandi tökum á stjórn útlendingamála.

Þingmenn vita betur en aðrir að útgjöld vegna hælisleitenda og útlendingamála hafa hækkað jafnt og þétt undanfarin ár. Að þróunin liggi í þagnargildi er óskynsamlegt þótt það kosti mikið átak að fara inn á skynsamlegri brautir.

Skildu eftir skilaboð